)

Martin Skrtel

Slóvakinn Martin Skrtel er búinn að vera eins og klettur í vörn Liverpool á þessari leiktíð. Martin var algjörlega óþekktur þegar hann kom til Liverpool í byrjun árs frá Zenit í Pétursborg og sparkspekingar veltu því fyrir sér hvers vegna Rafael Benítez hefði keypt hann. Martin var þó líklega aðallega keyptur vegna þess að Daniel Agger hafði ristarbrotnað og bati hans drógst von úr viti. Martin byrjaði reyndar ekki vel en fljótlega sást að það var mikið spunnið í þennan harðskeytta strák.

Á þessari leiktíð hefur Martin verið fastamaður í hjarta varnarinnar við hliðina á Jamie Carragher. Þeir félagar hafa náð geysilega vel saman með þeim árangri að vörn Liverpool hefur verið mjög sterk og þeir Daniel Agger og Sami Hyypia, sem eru engir aukvisar í varnarleik, hafa lítið komist að. Martin hefur líka vaxið mikið í áliti hjá stuðningsmönnum Liverpool sem hafa hrifist af hörku og harðfylgi Slókvakans.

Martin er líka ánægður með að stuðningsmönnum Liverpool finnst hann hafa staðið sig vel. “Jú, kannski er ég harðjaxl og ef stuðningsmönnum Liverpool finnst það þá er ég ekki ósáttur við það. Víst er að ég þoli ekki að tapa og það viðhorf tek ég með mér í hvert skipti sem ég fer inn á knattspyrnuvöll. Ég gefst ekki auðveldlega upp og ég er tilbúinn að leggja hart að mér til að ná því fram sem ég vil. Ég hika svo ekki við að fórna mér fyrir liðið. Ég hef svo sem fengið að finna fyrir því frá því ég kom til Liverpool en ég reyni að láta ekki sjást að ég finni til. Ef maður er knattspyrnumaður þá verður maður að þola sársauka. Ef maður þolir hann ekki þá er maður í röngu starfi. Það er líka óhætt að segja að maður þurfi að vera viðbúinn því að þola sársauka ef maður spilar í miðri vörninni. Ég er ekki í liðinu til að gera sóknarmönnum auðvelt fyrir. Ég held að ég væri ekki að spila ef ég gerði það. Mitt verkefni er, með öllum ráðum, að koma í veg fyrir að sóknarmenn nái að skora."

Sem fyrr segir þá hefur Martin verið fastamaður í vörn Liverpool á leiktíðinni og það er ekki nein tilviljun að hann skuli vera í liðinu. Hann kom inn í liðið í þriðja leik leiktíðarinnar og hefur verið þar síðan utan hvað hann fékk hvíld í Deildarbikarleiknum gegn Crewe. Rafael Benítez segir að Martin hafi staðið sig mjög vel á leiktíðinni. "Martin er búinn að læra mikið. Þegar við ákváðum að fá hann hingað vissum við að hann var góður og átti eftir að verða enn betri. Við höfðum mikla trú á honum en það er alltaf hægt að taka framförum. Það hefur hann gert með því að spila með reyndum leikmönnum og taka leiðsögn þjálfara hérna. Hann er búinn að gera mér erfitt fyrir í að velja liðið en svoleiðis vandi er bara góður fyrir mig sem framkvæmdastjóra."

Sf.Gutt.

 

TIL BAKA