)

Sami Hyypia

Stuðningsmenn Liverpool hafa getað glaðst yfir mörgu síðustu vikurnar. Liðinu hefur gengið vel og margir góðir sigrar hafa unnist. Ein bestu tíðindin voru þó þau að Sami Hyypia yrði eitt ár enn í herbúðum Liverpool.

Nú á dögunum var tilkynnt að Sami hefði samþykkt tilboð Liverpool um eins árs samning. Þetta þýðir að sumarið 2009, þegar nýi samningurinn rennur út, verður Sami búinn að vera einn áratug í herbúðum Liverpool. Það eitt er afrek út af fyrir sig því nú á tímum er það sjaldgæft að sami leikmaðurinn nái að vera hjá sama liðinu í tíu ár. Enn sjaldgæfara er að útlendingur sé svo lengi í herbúðum sama félags á Englandi. Þetta verður þó raunin með finnska höfðingjann. Hann á þar með tilkall til ágóðaleiks með Liverpool eftir tíu ára þjónustu.

Finninn stæðilegi kom algerlega óþekktur til Liverpool vorið 1999 frá Willem II í Hollandi. Kaupverðið var tvær og hálf milljón sterlingspunda. Á nútíma markaði telst það gjafverð fyrir jafn góðan leikmann. Sami varð strax fastamaður í liði Liverpool, sem miðvörður, og hefur verið það alla tíð síðan. Hann hefur átt mjög farsælan feril hjá Liverpool og var um tíma fyrirliði liðsins. 

Á síðustu leiktíð kom Daninn Daniel Agger fram á sjónarsviðið. Efnilegri miðvörður finnst varla í Evrópu og margir töldu, síðasta sumar, að dagar Sami Hyypa hjá Liverpool væru senn taldir. Ekki bara vegna þess að Daniel væri kominn til að vera heldur væri Sami orðinn gamall og svifaseinn. Hann var orðaður við nokkur félög áður en yfirstandandi leiktíð hófst en Rafael Benítez vildi halda Sami áfram. Sem betur fer varð það úr að Sami yrði um kyrrt því Daniel Agger ristarbrotnaði í september og hefur ekki leikið með aðalliðinu síðan. Sami var drifinn í liðið og hefur mikið til staðið vaktina við hlið Jamie Carragher, í hjarta varnarinnar, frá því Daniel meiddist. Sami sýndi strax að hann var betri en enginn! Hann er búinn að standa sig frábærlega og hann hefur í raun sýnt og sannað hversu góður leikmaður hann er. Það hefur svo sem lengi verið vitað að Sami er meðal bestu miðvarða á Englandi. En nú þegar hann er kominn á lokakafla ferils síns hefur hann sýnt hvernig hægt er að notfæra sér leikreynslu og skynsemi þegar fengist er við unga og fljóta menn. Það má jafnvel halda því fram að Sami hafi sjaldan verið betri en um þessar mundir. Reynsla hans er ómetanleg og hann hefur miðlað henni til væntanlegra arftaka sinna þeirra Daniel Agger og Martin Skrtel.

Rafael Benítez hefur verið óþreytandi við að hæla Sami á þessari leiktíð enda tilefni verið til. "Hann er geysilega góður atvinnumaður. Þetta snýst ekki bara um reynsluna sem hann býr yfir. Hann er einfaldlega góður leikmaður. Hann er búinn að spila marga leiki á þessari leiktíð og hugmyndin er að hann geti spilað og barist fyrir sæti sínu í liðinu á næsta keppnistímabili. Hann getur líka miðlað öðrum leikmönnum af reynslu sinni. Hann er búinn að þjóna þessu félagi alveg frábærlega. Það gleður alla mikið þegar útlendingur, sem er svona góður fagmaður eins og Sami, kemur og spilar með sama liðinu í tíu ár." Sem fyrr segir þá gladdi það alla þegar tilkynnt var að Sami yrði áfram hjá Liverpool og ekki síst finnsku goðsögnina. "Ég er hæstánægður með að allir vilja að ég verði hérna áfram. Ég hef átt góð samskipti við alla hjá félaginu, stuðningsmennina og leikmennina. Það hefði því verið mjög erfitt fyrir mig að yfirgefa félagið. Ég var svo sem ekki mikið að velta því fyrir mér. Ég reyndi bara að einbeita mér að því að spila þá leiki sem ég var valinn til að spila því ef ég spilaði vel væri hugsanlegt að félagið vildi að ég yrði hér áfram. Ég hefði getað farið eitthvað annað en það hefur verið frábært að vera hérna og ég hef notið þess út í ystu æsar. Það er frekar fátítt að útlendingur spili í tíu ár með sama liðinu hér í landi og þess vegna gleður það mig mikið að fá tækifæri til að vera hérna áfram hjá þessu frábæra félagi." Samningstilboðið var ekki bara tilkomið vegna góðsemi eða af virðingu við Sami. Það er nefnilega óvíst um endanlegan bata Daniel Agger og þá er ekki ónýtt að hafa Sami til taks. Vissulega lofar Martin Skrtel góðu og Jamie Carragher á mikið eftir. En reynslan á þessari leiktíð sýnir að það gæti reynst ómetanlegt að hafa Sami til taks.

Sami hefur, sem fyrr segir, leikið með Liverpool frá árinu 1999. Hann hefur unnið níu titla á ferli sínum með Liverpool. Deildarbikarinn 2001 og 2003. Hann vann Evrópukeppni félagsliða, F.A. bikarinn, Góðgerðarskjöldinn og Stórbikar Evrópu 2001. Árið 2005 bætti hann svo Evrópubikarnum og öðrum Stórbikar í verðlaunasafn sitt. Hann vann svo F.A. bikarinn árið 2006.

Sami Hyypia er sem sagt ekki enn dauður úr öllum æðum. Hann er enn í fullu fjöri eins og berlega hefur sést í síðustu leikjum. Hann á enn óunnið verk í herbúðum Liverpool. Þar fyrir utan er hann öllum góð fyrirmynd enda eru þeir ekki margir leikmennirnir í herbúðum Liverpool sem njóta jafn mikillar virðingar og vinsælda meðal stuðningsmanna liðsins og Sami Hyypia. Það segir sína sögu að hann er nú þegar talinn með bestu miðvörðum í sögu Liverpool. Þá er mikið sagt enda hafa margir frábærir miðverðir leikið með Liverpool. En Sami er einfaldlega einn af þeim!

Sf. Gutt.TIL BAKA