)

Jamie Carragher

Þann 15. janúar síðastliðinn lék Jamie Carragher sinn 500. leik með Liverpool. Aðeins tólf leikmenn, í sögu félagsins, hafa leikið svo marga leiki.

Jamie lék sinn 500. leik með Liverpool þegar Liverpool lék gegn Luton Town í aukaleik liðanna í 3. umferð F.A. bikarsins. Jamie var fyrirliði Livepool í tilefni af þessum merku tímamótum og leiddi Liverpool til 5:0 sigurs. Leikmenn Liverpool og Luton og Rafa Benítez heiðruðu kappann með því að raða sér upp sitt hvoru megin við innganginn fyrir leikinn og klappa fyrir Jamie og syni hans þegar þeir gengu síðastir út á völlinn. Ian Callaghan, sem er langleikjahæsti leikmaður í sögu Liverpool, afhenti Jamie viðurkenningu áður en þessi 500. leikur hans hófst. Sem fyrr segir þá segir það sína sögu að aðeins tólf leikmenn í allri sögu Liverpool hafa leikið svona marga leiki. Sá síðasti til að ná þessum leikjafjölda var Kenny Dalglish.

Jamie Carragher: Þetta var skemmtileg kvöldstund og ég er mjög stoltur. Það var líka gaman að við skyldum skora nokkur mörk, halda markinu hreinu og komast í næst umferð bikarsins. Ég og fjölskyldan mín nutum sannarlega þessa frábærra kvölds. Maður verður hálf smeykur þegar maður áttar sig á því hversu hratt tíminn hefur liðið því eftir svona fjögur eða fimm ár gæti ferillinn verið búinn hjá mér. Ég er mjög stoltur yfir því að vera kominn í hóp þeirra leikmanna sem hafa leikið 500 leiki. Það er alltaf hart barist um sæti í liðinu og fólk hélt alltaf að það væri ég sem myndi þurfa að víkja en mér hefur tekist að spila 40 til 50 leiki á hverri leiktíð. Vonandi tekst mér að gera það áfram næstu fjögur til fimm árin.

Ian Callaghan: Það segir sína sögu að ná því að vera einn af 12 leikmönnum í sögu Liverpool til að ná að leika 500 leiki fyrir hönd félagsins. Ég man nú ekki eftir neinu sérstöku atviki sem er einkennandi fyrir hann en hann leggur sig einfaldlega 100% fram í hverjum leik. Eldmóður hans og staðfesta eru manni efst í huga og af þeim eiginleikum fær maður nóg frá honum. Hann stendur sig alltaf með miklum sóma og hann er alltaf tilbúinn að leggja sig allan fram fyrir málstaðinn. Hann er núna búinn að vera einn af hornsteinum liðsins í fjölda ára og hans verður minnst í framtíðinni sem leikmanns sem stóð sig frábærlega með Liverpool.

Tommy Smith: Jamie Carragher á skilið allt það hól sem hann hefur fengið í tengslum við 500. leik sinn með Liverpool. Þetta er frábært afrek hjá honum. Ég vona, með hagsmuni liðsins í huga, að hann leiki meira en 600 leiki með liðinu. Miðað við stöðugleika hans þá ætti hann auðveldlega að geta það. Guði sé lof að hann er lykilmaður í liðinu því hann spilar alltaf jafn vel svo til í hverri einustu viku. Besta hólið sem ég get gefið honum er að hann er einn besti varnarmaður í heimi. Hann er einn af þeim leikmönnum sem hafa getað leikið með Liverpool á öllum tímaskeiðum. Til hamingju Jamie.

Kenny Dalglish: Mér finnst að Rafa ætti að drífa í því að selja Carra til að koma í veg fyrir að fyrir að hann komist upp í 11. sætið yfir leikjahæstu menn því þá myndi ég færast niður í 12. sætið!"

MIchael Owen: Ef maður ætti að velja einhvern leikmann til að fara í Liverpool treyju og hlaupa í gegnum múrvegg fyrir þig þá held ég að allir stuðningsmenn liðsins myndu velja Jamie Carragher og ég veit að leikmennirnir myndu líka velja hann í það verkefni.

Tímamótaleikir á ferli Jamie:

1. leikur: 08.01.1997. Middlesbrough, Riverside - Deildarbikar - 1:2. 
50. leikur: 08.12.1998. Celta Vigo, Anfield - Evrópukeppni félagsliða - 0:1.
100. leikur: 15.03.2000. Aston Villa, Anfield - Deild - 0:0.
150. leikur: 08.03.2001. Porto, Estadio Das Antas - Evrópukeppni félagsliða - 0:0.
200. leikur:  05.01.2002. Birmingham City, Anfield - F.A. bikar - 3:0.
250. leikur: 05.01.2003. Manchester City, Maine Road F.A. bikar - 1:0.
300. leikur: 17.04.2004. Fulham, Anfield - Deild - 0:0.
350. leikur: 09.04.2005. Man City, Manchester leikvanginum - Deild - 0:1. 
400. leikur: 14.02.2006. Arsenal, Anfield - Deild - 1:0.
450. leikur: 20.01.2007. Chelsea, Anfield - Deild - 2:0.
500. leikur: 15.01.2008. Luton Town, Anfield - F.A. bikar - 5:0. 

Leikjahæstu menn í sögu Liverpool:

1. Ian Callaghan 857
2. Ray Clemence 665
3. Emlyn Hughes 665
4. Ian Rush 660
5. Phil Neal 650
6. Tommy Smith 638
7. Bruce Grobbelaar 628
8. Alan Hansen 620
9. Chris Lawler 549
10. Billy Liddell 534
11. Kenny Dalglish 515
12. Jamie Carragher 500

Sf. Gutt.


TIL BAKA