)

Andriy Voronin

Úkraínumaðurinn Andriy Voronin hefur byrjað feril sinn hjá Liverpool vel. Ýmsir voru steinhissa þegar tilkynnt var, á útmánuðum þessa árs, að Rafael Benítez ætlaði að fá þennan síðhærða kappa til liðsins. Hann hafði fram til þessa aðeins leikið í Þýskalandi eftir að hann yfirgaf heimahaga sína í Úkraínu. Andriy hafði getið sér gott orð hvar sem hann hafði spilað í Þýskalandi og það kom fljótlega í ljós að gott orðspor hans var engin tilviljun.

Strax á undirbúningstímabilinu féll leikstíll hans í góðan jarðveg hjá stuðningsmönnum Liverpool. Andriy hljóp um víðan völl og kom varnarmönnum úr jafnvægi með því að elta þá uppi. Þetta gerði hann ekki til að ganga í augun á nýjum herrum því svona hefur hann alltaf leikið. Andriy skoraði að auki tvö mörk á undirbúningstímabilinu. Mörgum þótti hann besti leikmaður Liverpool í æfingaleikjunum.

Hann kom sér svo endanlega á blað með sigurmarkinu gegn Toulouse í Frakklandi í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar. Markið skoraði hann með glæsilegu þrumuskoti utan vítateigs. Andiry innsiglaði svo 2:0 sigur Liverpool á útivelli gegn Sunderland. Hann þótti leika mjög vel í þeim leik. Andriy skoraði svo þriðja mark sitt fyrir Liverpool þegar Derby var slátrað 6:0 á Anfield Road. Með sigrinum komst Liverpool í efsta sæti deildarinnar.

Rafael Benítez sagði að Andriy væri mjög góður leikmaður og hældi eftir leikinn í Frakklandi. "Hann er slunginn, hefur góðan leikskilning og veitir okkur marga valkosti í sóknarleiknum. Hann getur spilað fyrir aftan fremsta mann, leitt sóknina sjálfur eða ógnað frá köntunum." Þrátt fyrir að Rafael væri búinn að lýsa ágæti Úkraínumannsins þá reiknuðu flestir stuðningsmenn Liverpool með því, áður en leiktíðin hófst, að Andriy myndi ekki ná föstu sæti í liðinu. Andriy sagðist þó ætla sér stóra hluti hjá Liverpool. "Ég er ekki bara hérna til að fylla upp í hópinn. Ég bý yfir miklum skapstyrk. Ég vil byrja inná í sem flestum leikjum og samkeppnin hér mun hvetja mig til dáða."

Óhætt er að segja að Andriy hafi vakið verðskuldaða athygli í fyrstu leikjum sínum með Liverpool. Góð framganga hans fór ekki framhjá Gary McAllister fyrrum leikmanni Liverpool. "Stundum þegar þú færð leikmann á frjálsri sölu þá getur hann reynst gulls ígildi þegar uppi er staðið. Ég held að fá leikmann eins og Andriy Voronin frítt geti reynst ein bestu viðskiptin á leiktíðinni. Rafa þarf ekki að eyða miklum tíma í að segja manni eins og Andriy hvað hann eigi að gera. Leikmaður með hans reynslu og hæfileika veit upp á hár hvenær og hvernig hann á að hreyfa sig. Maður hefur séð í þessum örfáum leikjum, sem hann hefur leikið, að hann er mjög öruggur og veit alveg hvað hann er að gera. Hann minnir mig á Teddy Sheringham hvað varðar hversu næmt auga hann hefur fyrir sendingum og staðsetningum."

Þegar þetta er skrifað hefur Andriy skorað þrjú mörk í átta leikjum með Liverpool. Það er ólíklegt að hann verði markakóngur Liverpool á þessari leiktíð. Stuðningsmenn Liverpool geta þó reitt sig á það að Andriy mun leggja sig allan fram í þeim leikjum sem hann mun taka þátt í. Hann hefur verið þekktur fyrir að gera það ferli sínum hingað til og hann mun varla fara að breyta út af venjunni núna!

Sf. Gutt.

 

TIL BAKA