)

Danny Guthrie

Um þessar mundir virðist svo sem að Danny Guthrie sé talinn efnilegasti leikmaður Liverpool. Að minnsta kosti hefur hann náð að leika sjö leiki með Liverpool á leiktíðinni. Hann þykir hafa staðið fyrir sínu. Hvað sem úr verður þá er hann búinn að ná að taka fyrstu skrefin í átt að farsælum ferli hjá Liverpool.

Danny Guthrie er fæddur í Shrewsbury þann 18 apríl árið 1987. Hann reyndi fyrir sér hjá Manchester United en var ekki talinn nógu góður þar á bæ. Hann var aðeins 15 ára þegar dómur þjálfara Manchester United féll. Útsendarar Liverpool náðu honum svo til Liverpool og hann gerði samning við félagið árið 2002. Þar hefur honum farið jafnt og þétt fram. Það yrði því ekki ónýtt ef hann myndi slá í gegn hjá Liverpool. Líklega myndu menn á Old Trafford þá naga handarbökin.

Danny, sem er miðjumaður, lék í fyrsta sinn með aðalliði Liverpool í Deildarbikarleik gegn Reading í haust. Auðvitað var það ógleymanlegur leikur fyrir Danny. Forleikurinn var að hlusta á stuðningsmenn Liverpool syngja You´ll Never Walk Alone. "Ég heyrði áhorfenduna syngja og það var mjög skrýtin tilfinning. Þú ferð á leiki eða horfir á þá í sjónvarpinu og hugsar um það hvernig sé að vera leikmaður í þessari stöðu. Að vera á vellinum sjálfum þegar stuðningsmenn byrja að syngja er ólýsanlegt. Því verður ekki neitað að það fór nettur fiðringur um mig." Liverpool vann Reading 4:3 í skemmtilegum leik og Danny gat því verið ánægður með fyrsta leik sinn með Liverpool. "Ég var tilbúinn. Ég var þó nokkuð í boltanum og átti nokkrar sendingar. Ég gerði mér grein fyrir því að leikurinn yrði öðruvísi því ég kom inná þegar staðan var 3:0 og Guð má vita hvernig það hefði verið að byrja leikinn. Leikmennirnir sýndu mér mikinn stuðning eftir leikinn og flestir komu til mín og sögðu "vel gert" og sögðu mér að ég hefði spilað vel."

Danny hefur leikið með öllum yngri landsliðum Englands og er nú í undir 18 ára landsliðinu. Hann er nú lykilmaður og fyrirliði varaliðsins. Forráðamenn Liverpool hafa greinilega álit á piltinum því hann fékk nýjan samning við félagið nú í byrjun ársins. Það á eftir að koma í ljós hvort Danny nær að festa sig í sessi hjá aðalliðinu en Rafael Benítez hefur að minnsta kosti álit á þessum efnilega strák. " Við vissum að Danny var góður leikmaður og hann hefur verið að spila vel með varaliðinu. Mér finnst honum hafa farið fram á þessu ári. Á síðasta ári lagði hann hart að sér en núna er hann reyndari og maður sér að hann býr yfir meira sjálfstrausti."

Nú á eftir að sjá hvort Danny Guthrie fer í flokk með strákum eins og Jon Newby, John Welsh og Richie Partridge sem voru efnilegir en náðu ekki að festa sig í sessi í aðalliði Liverpool. Vonandi nær hann frekar að flokkast með þeim Robbie Fowler, Jamie Carragher, Michael Owen og Steven Gerrard og verða lykilmaður í Liverpool og spila með aðallandsliði sínu. Þá teljast menn ná í fremmstu röð.

Sf. Gutt.

 

 

 

 

 

 

 

TIL BAKA