)

Daniel Agger

Daniel Agger er búinn að festa sig í sessi í vörn Liverpool og virðist hafa stáltaugar. Það var reiknað með að hann myndi fá nokkur tækifæri í liðinu á þessu tímabili á kostnað Sami Hyypia og yrði reiðubúinn að taka við af Finnanum 2007-2008 tímabilið. Því er þó öðru nær. Hann fékk sitt tækifæri í byrjun leiktíðar og það er einfaldlega ekki hægt að henda honum út úr liðinu. Sami Hyypia er meira eða minna kominn á bekkinn og þegar Hyypia fékk að leika gegn Tottenham þurfti að setja Carragher út úr liðinu. Það ætti að nægja til að sýna hversu vel Daninn hefur staðið sig.

Þegar það var í umræðunni í árslok 2005 að Liverpool myndi kaupa Daniel Agger í janúar, leitaði liverpool.is álits Danans Jan Mølby á samlanda sínum og hann vildi gjarnan að Agger myndi feta í fótspor sín hjá Liverpool: "Agger hefur bara leikið í efstu deild í Danmörku í eitt ár en hann er efnilegur og mér finnst hann góður. Hann leikur í dönsku deildinni en getur hann leikið á meðal sterkari leikmanna? Hann hefur allavega ekki lent í neinum vandræðum með landsliðinu. Hann er mjög yfirvegaður, örvfættur og sterkur í loftinu. Hann er ekki mjög snöggur en hann les leikinn vel."

Rifjum upp það sem Sami Hyypia sagði um Agger á vormánuðum:  "Hann lítur út fyrir að vera hæfileikaríkur leikmaður sem hefur staðið sig mjög vel. Það er ekki auðvelt fyrir einhvern svona ungan að koma til toppklúbbs eins og Liverpool. Fyrsti leikur hans var gegn Birmingham og þar lenti hann á móti Chris Sutton og Emile Heskey sem er klárlega ekki auðveldasta sóknarpar landins að eiga við. En hann stóð sig vel. Hann gerði einnig vel á móti Manchester City og var jafnvel enn betri á móti Newcastle. Í þessum þremur leikjum hefur hann séð allt sem Úrvalsdeildin hefur uppá að bjóða. Hann er snjall strákur og veit hvar hann þarf að bæta sig til að aðlaga leik sinn að Úrvalsdeildinni."

Agger lætur sér fátt koma úr jafnvægi og getur alltaf leikið á sóknarmennina eða búið sér til meira pláss með gabbreyfingum enda með hörkuboltatækni. Hæfileikar hans hafa farið framhjá fáum og fyrirliði Liverpool, Steven Gerrard, kann að meta þennan frábæra leikmann: "Hann fékk ekki tækifæri í liðinu eftir að hann lék fyrsta leikinn sinn því að hann meiddist á ökkla en hann er í góðu formi núna og leikur eins og leikmaður sem er mjög reyndur. Hann á eftir að verða toppleikmaður, á því leikur enginn vafi. Að halda Sami Hyypia utan byrjunarliðsins segir meira en mörg orð."

Meiri upplýsingar um Daniel Agger eru hér á LFChistory.net

AB

TIL BAKA