)

Peter Crouch

Peter Crouch er nú orðinn einn vinsælasti leikmaður Liverpool og ekki eru vinsældir hans minni þegar hann er kominn í enska landsliðsbúninginn. Sú var öldin önnur fyrir ári. Honum ætlaði aldrei að takast að skora fyrir Liverpool eftir að hann kom frá Southampton og á haustdögum fyrir ári bauluðu stuðningsmenn enska landsliðsins á hann. Ári síðar er allt annað uppi á teningnum.

Peter endaði síðustu leiktíð sem bikarmeistari með Liverpool og skoraði, þrátt fyrir erfiða byrjun, þrettán mörk. Hann var valinn í enska landsliðið sem fór til Þýskalands. Í síðasta æfingaleik liðsins fyrir Þýskalandsferðina skoraði hann þrennu gegn Jamaíka og bætti hann mikilvægu marki við gegn Trinidad og Tobagó þegar enskir unnu 2:0. Hann hélt svo uppteknum hætti með enska landsliðinu og skoraði tvívegis gegn Evrópumeisturunum Grikkja og Andorra. Risinn tryggði svo enska landsliðinu mikilvægan 1:0 útisigur á Makedónum. Hann hefur nú skorað ellefu landsliðsmörk í aðeins fjórtán landsleikjum. Baul stuðningsmanna enska landsliðsins eru löngu hljóðnuð.

Peter hefur skorað þrjú mörk fyrir Liverpool það sem af er leiktíðar. Hann skoraði sigurmark Liverpool 2:1 í Skjaldarsigrinum á Chelsea í Cardiff. Peter var líka ánægður með að skora mark sem færði Liverpool titil. "Ég vil vinna til verðlauna og þetta er góð byrjun á leiktíðinni. Við vonum að þetta verði góð leiktíð. Fólk segir að það sé ekki mikilvægt að vinna Samfélagsskjöldinn en þegar maður sér stuðningsmennina og leikmennina þá áttar maður sig á því að það er mikilvægt að vinna þennan leik. Það er svolítill rígur milli þessara liða og það er magnað að ná svona snemma sigri á þeim. Við skulum ekki velkjast í neinum vafa. Þetta er stórleikur og hann getur án nokkurs vafa veitt okkur andlega hvatningu fyrir leiktíðina."

Í kjölfarið fylgdi kannski verðmætasta mark leiktíðarinnar þegar hann skoraði markið sem endanlega kom Liverpool í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þegar Liverpool gerði 1:1 jafntefli við Maccabi Haifa í Kænugarði. Peter skoraði svo sigurmarkið þegar Liverpool lagði West Ham United 2:1 að velli í afmælisveislu The Kop. Öll þessi þrjú mörk hans á leiktíðinni hafa verið mjög mikilvæg.

Velgengi Peter Crouch síðustu mánuði er með hreinum ólíkindum. Hann hefur verið hlaðinn lofi og á það vissulega skilið. Rafael Benítez hefur þó varað hann við því að láta ekki hólið stíga sér til höfuðs og vissulega má Peter varast að falla í þá gryfju. Það á eftir að koma í ljós hversu vel honum gengur að fylgja góðri byrjun á leiktíðinni eftir. Hann er ekki öruggur með sæti sitt í byrjunarliði Liverpool frekar en flestir leikmenn liðsins. En sjálfstraust hans er í hæstu hæðum um þessar mundir og vonandi á hann eftir að skora mikið af mörkum á þessari leiktíð. Hann er búinn að sanna sig og nú þarf hann bara að halda áfram á sömu braut.

Sf. Gutt.

 

TIL BAKA