)

Craig Bellamy

Craig Bellamy hóf feril sinn með Norwich og lék fyrsta leik sinn á 1996-97 tímabilinu. Hann vakti athygli stærri liða með því að skora 13 mörk í 38 leikjum á fyrsta heila tímabili sínu og lék fyrsta leik sinn fyrir velska landsliðið. Hann skoraði 17 mörk í 38 leikjum á næsta tímabili og eftir 1999-2000 tímabilið sem hann missti megnið af vegna hnémeiðsla var hann seldur til Coventry fyrir 6,5 milljónir punda sem var hæsta söluverð í sögu Norwich. Bellamy og Coventry áttu í erfiðleikum í Úrvalsdeildinni og Bellamy fór til Newcastle eftir að Coventry féll í 1. deild. Bellamy var næstu fjögur árin við hlið Alan Shearer í framlínu Norðaustur-risanna. Hann byrjaði af krafti og var valinn efnilegasti leikmaður Úrvalsdeildarinnar af samtökum knattspyrnumanna á sínu fyrsta tímabili.

Craig Bellamy hefur átt í vandræðum með skap sitt innan sem utan vallar. Eftir að Bobby Robson var rekinn frá Newcastle árið 2004 og Graeme Souness tók við var ástarævintýri Bellamy hjá Newcastle á enda. Bellamy og Souness lenti illa saman og Bellamy var lánaður til Celtic í janúarlok 2005. Hann skoraði 9 mörk í 15 leikjum í Skotlandi og Celtic vildi kaupa hann en Bellamy hafði ekki áhuga á því. Bellamy var ávallt vinsæll hjá stuðningsmönnum Newcastle en virtist eiga einkar auðvelt með að verða uppsigað við fólk innan raða Newcastle. Fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Newcastle og leikmaður Liverpool Terry McDermott var einkar berorður um samband Bellamy við félagið: "Ég hef aldrei séð eins mikið hatur og óróa vegna einnar manneskju."

Walesverjinn skapheiti gekk til liðs við annan skapheitan Walesverja hjá Blackburn fyrir 2005-2006 tímabilið. Craig blómstraði undir stjórn Mark Hughes og skoraði 17 mörk í 32 leikjum og var talinn af mörgum bestu kaup tímabilsins. Hann hafði hins vegar ákvæði í samningi sínum sem kvað á um að ef 6 milljón punda tilboð bærist í hann hjá Blackburn þá gæti hann farið. Liverpool nýtti það ákvæði og þessi heiti stuðningsmaður Liverpool gekk til liðs við þá Rauðu.

TIL BAKA