)

Steven Gerrard

Berlínarmúrinn átti ár eftir af tilveru sinni þegar leikmaður Liverpool var síðast valinn Leikmaður ársins af Samtökum atvinnuknattspyrnumanna. John Barnes varð fyrir valinu árið 1988 og það var því sannalega tími til kominn að fulltrúi Liverpool yrði aftur fyrir valinu. Steven Gerrard hlaut þessa viðurkenningu á dögunum og hann átti sannarlega skilið að verða fyrir valinu. Hann var að auki, við sama tækifæri, ásamt fóstbróður sínum Jamie Carragher valinn í úrvalslið Úrvalsdeildarinnar. Þetta er ekki eina viðurkenningin sem Steven hefur hlotið á þessari leiktíð. Hann var valinn besti leikmaður Meistaradeildarinnar í ágúst og hann var ofarlega á blaði þegar bestu leikmenn heimsins og Evrópu voru útnefndir undir lok síðasta árs. Allar þessar viðurkenningar staðfesta einfaldlega að Steven er einn besti leikmaður veraldar um þessar mundir.

Í byrjun júlí á síðasta sumri leit út fyrir að fyrirliði Evrópumeistaranna myndi yfirgefa félagið sitt. En hann sá sig um hönd og ákvað að fara hvorki suður eða í aðrar áttir. Hann festi tryggð sína við Liverpool og sagðist hvergi annars staðar vilja vera. Öldurótið sem fylgdi mögulegri brottför Steven Gerrard var orðið að lygnum sjó í fyrsta leik þessarar leiktíðar þegar Steven hélt áfram þaðan sem frá var horfið í Istanbúl þar sem hann lagði grunninn að einni mögnuðustu endurkomu knattspyrnusögunnar. Hann hóf leiktíðina með því að skora þrennu, á heitu sumarkvöldi um miðjan júlí, gegn welsku meisturunum Total Network Solutions. Allt frá þeim leik þá hefur Steven leikið frábærlega og nú eru mörkin hans komin á þriðja tuginn. Miðjumaður hefur ekki náð viðlíka markafjölda hjá Liverpool frá því á næst síðasta áratug síðustu aldar. Það þarf því ekki að fara í neinar grafgötur með hversu vel Steven hefur leikið á þessari leiktíð. Hann er einfaldlega búinn að eiga framúrskarandi leiktíð og hver veit? Hann gæti endað hana með því að hefja bikar á loft!

Steven var auðvitað ánægður með að hljóta þessa viðurkenningu. ,,Ef satt skal segja þá er ég enn steinhissa.  Ef maður lítur á listann þá eru þarna fimm aðrir leikmenn sem eru allir frábærir knattspyrnumenn. Þetta eru allt saman magnaðir leikmenn. Ég leit á listann yfir þá leikmenn sem hafa unnið þennan titil undanfarin ár og það eru stór nöfn þarna. Í sumum tilfellum goðsagnir og ég er mjög stoltur að hafa bæst í hópinn. Þetta kórónar frábæra helgi hjá mér. Fyrst að komast í úrslit F.A. bikarsins og svo að vinna þessi verðlaun. Ég varð steinhissa og þegar maður skoðar nöfnin sem hafa unnið þetta áður er það mikill heiður að vera nefndur í sömu andrá."

Rafael Benítez var mjög stoltur af fyrirliðanum sínum. ,,Ég óska Steven til hamingju því ég veit að þetta eru mjög mikilvæg verðlaun fyrir alla leikmenn á Englandi. Þetta er mjög þýðingarmikið því það eru leikmennirnir sjálfir sem kusu hann. Hann á þetta fyllilega skilið fyrir frammistöðu sína með liðinu. Hann leggur mjög hart að sér og allir vita hversu frábær leikmaður hann er. Við erum öll mjög stolt af honum en til að vinna verðlaun eins og þessi þarf að hafa góða liðsfélaga. Sigur Stevens er ekki bara góður fyrir hann sjálfan heldur líka félagið í heild sinni."

Stjórnarmaður samtaka atvinnuknattspyrnumanna, Gordon Taylor, hafði þetta að segja um Steven Gerrard. ,,Hann er sérstakur leikmaður ekki satt ? Úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni í fyrra hlýtur að vera sá eftirminnilegasti í sögunni. Í honum varð samblanda af leiðtogahæfni Steven Gerrard og varnartilburðum Jamie Carragher til þess að Liverpool vann óvæntan sigur. Eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei sjá gerast á móti AC Milan. Það kemur ekki á óvart að hver einasti framkvæmdastjóri í heiminum vill fá hann til liðs við sig. En hann hefur verið tryggur Liverpool og ég er mjög glaður yfir því að Liverpool sé að gera góða hluti því það er gott fyrir hann og gott fyrir félagið."

Steven er fimmti leikmaður Liverpool til að vera kjörinn Leikmaður ársins af atvinnuknattspyrnumönnum á Englandi. Terry McDermott var fyrst fyrir valinu árið 1980. Kenny Dalglish varð fyrir valinu árið 1983. Ian Rush var kjörinn 1984 og John Barnes árið 1988. Steven Gerrard hefur nú bæst í þennan frækna hóp.

Sf. Gutt.

 

TIL BAKA