)

Steven Gerrard

Það fer ekki á milli mála að bestu fréttir sumarsins voru þær að Steven Gerrard ákvað endanlega að vera um kyrrt hjá Liverpool. Vangaveltur þess efnis að hann væri hugsanlega á leið frá Liverpool voru búnar að vera á lofti allt frá því sumarið 2004. Þær hófust fyrir alvöru í kjölfar ráðningar Rafael Benítez. Þá stóð úrslitakeppni Evrópukeppni landsliða yfir í Portúgal. Steven var þar með enska landsliðinu. Sögusagnir sögðu að leikmenn Chelsea í enska hópnum hefði lagt sitt til að mæra Lundúnaliðið fyrir Steve. Á sama tíma upphófust í blöðum og öðrum fjölmiðlum sögusagnir um að Steven væri við það að yfirgefa Liverpool. Rafel var nýbúinn að taka við stjórnartaumum hjá Liverpool og vildi fyrir hvern mun tryggja að hann hefði bæði þá Steven Gerrard og Michael Owen í liði sínu þegar fyrsta stjórnartíð hans hæfist. Hann gerði sér því sérstaka ferð til Portúgals til að hitta þá leikmenn Liverpool sem þar voru. Allt fór vel hvað Steven Gerrard varðaði og hann ákvað að vera um kyrrt. Þó þurfti að kalla saman sérstakan blaðamannafund, þann 28. júní, til að tilkynna þessa ákvörðun hans. Steven sagði þetta við það tilefni. ,,Síðustu þrjár til fjórar vikur hafa verið mjög ruglingslegar og í fyrsta skiptið á ferlinum íhugaði ég það að fara. En ég hef farið eftir hjartanu og hún er sú að vera áfram hjá Liverpool. Ég elska félagið." Var þá ekki allt klárt? Nei, ekki alveg. 

Fljótlega aftur fóru nýjar sögusagnir um að Steven væri ekki sáttur í gang. Þær héldu áfram árið á enda og allt fram á vor. Steven gaf líka færi á sér með nokkrum yfirlýsingum sem féllu ekki í ýkja góðan jarðveg hjá hluta stuðningsmanna Liverpool. Þetta sagði hann tildæmis fyrir leikinn mikilvæga gegn Olympiakos í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í desember. ,,Ef ég nýt velgengni hjá þessu félagi þarf ég ekki að leita annað. Ef ekki gengur sem skyldi verð ég að íhuga framtíð mína aftur í sumar. Ég er sigurvegari og vill vinna titla. Þegar ég er orðinn 35 ára vil ég eiga stóra fjölskyldu og vil geta sýnt börnunum mínum alla verðlaunapeningana sem ég hef unnið á ferli mínum. Ég hef stutt þetta félag alla mína ævi og ég vona að félagið sýni héðan í frá og þar til lok tímabilsins að það er jafn metnaðarfullt og ég." Steven stóð við sinn hlut í leiknum og síðbúið glæsimark hans tryggði Liverpool 3:1 sigur og áframhald í keppninni.

Einhverjir fjölmiðlamenn töldu sig hafa fyrir því öruggar heimildir að Steven myndi ganga til liðs við Chelsea eftir leiktíðina. Deildarbikarúrslitaleikurinn var talinn upplagt tækifæri fyrir Steven til að sýna að Liverpool væri liðið hans og Chelsea væri ekki inni í myndinni. Steven stóð ekki undir væntingum í þeim leik. Allt stefndi í sigur Liverpool þegar fyrirliðinn skoraði slysalegt sjálfsmar sem kom Chelsea inn í leikinn á nýjan leik. Liverpool mátti þola tap 3:2 eftir framlengingu og hluti stuðningsmanna Liverpool beindi spjótum sínum að Steven Gerrard.

En upp þetta leyti upphófst endaspretturinn í Evrópuvegferð Liverpool. Hverju stórliðinu á fætur öðru var rutt úr vegi. Fyrst Bayer Leverkusen, svo Juventus og loks Chelsea. Þar náðist að hefna fyrir Deildarbikarúrslitaleikinn í Cardiff. Steven lék mjög vel í hinum magnþrungna seinni leik liðanna á Anfield Road. Að kvöldi þess 4. maí var Steven í sjöunda himni. ,,Þegar flautað var til leiksloka langaði mig til að hoppa upp í áhorfendastæði og fagna með stuðningsmönnunum. Þeir eru lang bestir allra stuðningsmanna í landinu. Ég vona að þeir muni njóta úrslitaleiksins jafn mikið og þessarar kvöldstundar. Ég átta mig ekki enn á þessu. Þetta er það lang, lang besta kvöld sem ég hef upplifað. Það mun verða stoltasta stund ferils míns þegar ég leiði  þessa ótrúlegu menn til leiks í Istanbúl. Við náðum að leggja Englandsmeistarana að velli í fyrsta skipti í fimmtu tilraun á þessari leiktíð. Það var vel þess virði að bíða eftir því." Þetta kvöld var einstakt og Liverpool var komið í úrslitaleikinn um Evrópubikarinn. Sú staðreynd faldi þó ekki vonbrigðin sem fimmta sæti deildarinnar olli. Sú niðurstaða var einfaldlega mikil vonbrigði.

Hjarðir stuðningsmanna Liverpool héldu til Miklagarðs til að hvetja sína menn til sigurs. Steven leiddi sína menn til leiks og sigurs í einum magnaðasta úrslitaleik knattspyrnusögunnar. Það var táknrænt að það skyldi vera mark frá fyrirliðanum sjálfum sem kom Liverpool á sporið eftir að öll sund virtust lokuð. Eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni varð ljóst að Liverpool var Evrópumeistari í fimmta sinn. Steven, sem átti stórleik á Ataturk leikvanginum, tók við Evrópubikarnum. Sú stund er án nokkurs vafa hápunkturinn á ferli hans hingað til. Framtíð Steven Gerrard virtist endanlega ráðin þegar hann sagði þetta eftir leikinn. ,,Hvernig get ég farið eftir kvöld eins og þetta? Þetta var besta kvöld lífs míns.” Var þá ekki allt klárt? Nei, ekki alveg. 

Allt í einu og öllum að óvörum, í byrjun júlí, byrjuðu sögusagnir um brotthvarf Steven Gerrard aftur. Fjölmiðlar fullyrtu að honum hefði lent saman við Rafael Benítez og dvöl hans hjá Liverpool væri á enda runnin. Chelsea og Real Madrid voru sögð bítast um undirskrift Steven Gerrard. Staðfesting á þessum sögusögnum virtist liggja fyrir þann 5. júlí þegar Steven hafði þetta að segja. ,,Síðustu sex vikur hafa verið þær erfiðustu í lífi mínu. Þetta er erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið. Ég ætlaði að skrifa undir nýjan samning eftir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni en atburðir síðustu fimm til sex vikna hafa breytt því. Ég ber of mikla virðingu fyrir félaginu til þess að munnhöggvast við forráðarmenn þess.” Með þetta fóru stuðningsmenn Liverpool í háttinn.

Líklega sváfu stuðningsmenn Liverpool meira en Steven Gerrard aðfaranótt 6. júlí. En fréttirnar sem þeir fengu með morgunmatnum voru óvæntar og gleðilegar. Trúlega héldu einhverjir að 1. apríl hefði verið færður til því tíðindi dagsins hljóðuðu upp á ein óvæntustu sinnaskipti eins manns í sögu Liverpool. Þetta voru orð Steven Gerrard að morgni 6. júlí. ,,Ég mun skrifa undir nýjan samning, jafnvel í dag, og ég vil taka það skýrt fram að engir fyrirvarar verða í þeim samningi af minni hálfu. Þetta mun ekki gerast aftur næsta sumar og aldrei aftur hvað mig varðar. Ég hef skuldbundið mig Liverpool til framtíðar og ég vil að menn hætti öllum vangaveltum um annað. Þetta er það sem ég hef alltaf viljað.”  Var nú ekki loksins allt orðið klárt?

Það er aldrei hægt að fullyrða neitt þegar knattspyrnan er annars vegar. En við hljótum að álíta að Steven verði um kyrrt hjá Liverpool næstu árin. Sumir telja reyndar að Steven muni ljúka ferli sínum hjá félaginu sem hann ólst upp hjá og hefur stutt frá því í barnæsku. Víst er að það mun skipta miklu að Steven verði um kyrrt hjá Liverpool. Hann er einn af bestu miðvallarleikmönnum heims og hann á bestu ár ferils síns framundan. Steven hefur nú þegar all mikið verðlaunasafn til að sýna fæddum og ófæddum afkomendum sínum. Safnið verður þó ekki fullkomnað fyrr en Steven fær gullpening fyrir sigur í ensku deildinni. Vonandi fær Steven tækifæri til að ná þeim peningi í safn sitt sem allra fyrst. Líkurnar á því að Liverpool nái nítjánda meistaratitli sínum jukust vissulega þegar Steven valdi að vera áfram í röðum liðsins okkar. Hann er og verður leiðtogi Liverpool næstu árin.

 

TIL BAKA