)

Rafael Benítez

Rafael Benitez komst, í vor, í hóp þeirra Bob Paisley og Joe Fagan. Sannarlega ekki amalegur félagsskapur. Þetta eru þeir framkvæmdastjórar Liverpool sem hafa leitt liðið til sigurs í Evrópubikarnum. Rafael lék um leið það afrek Joe Fagan eftir að vinna Evrópubikarinn á fyrstu stjórnartíð sinni. Joe heitinn vann að vísu Þrennu á fyrstu leiktíð sinni 1983/84. Þá stýrði hann Liverpool til sigurs í ensku deildinni, enska Deildarbikarnum og Evrópukeppni meistaraliða.

Rafael setti reyndar félagsmet sem Joe átti áður. Hann kom Liverpool í úrslitaleik á fyrstu leiktíð sinni og það strax í febrúar. Liverpool tapaði Deildarbikarúrslitaleiknum 3:2 fyrir Chelsea í lok febrúar. Joe leiddi Liverpool í Deildarbikarúrslitin í mars 1984. Liverpool vann þá Everton 1:0 á Maine Road í aukaleik eftir markalausan leik á Wembley.

Rafael lék annað afrek eftir sem þekkt er úr sögu Liverpool. Hann stýrði liði sínu til sigurs í Evrópubikarnum árið eftir að hafa unnið Evrópukeppni félagsliða. Þetta afrekaði Bob Paisley fyrstur manna árin 1976 og 1977. Jose Mourinho lék afrek Bob heitins eftir með Porto árin 2003 og 2004. Rafael varð svo þriðji framkvæmdastjórinn að að gera þetta 2004 og 2005. Spánverjinn gerði þetta auðvitað með tveimur félögum Valencia og Liverpool. Það er nýtt í sögunni.

Þessi frábæru afrek Rafael Benitez sýna að Liverpool náði sér í frábæran framkvæmdastjóra þegar samið var við þennan hægláta Spánverja fyrir fjórtán mánuðum. Víst er að Rafael afrekaði meira á sinni fyrstu leiktíð en nokkurn hefði órað fyrir. Hverjum hefði komið til hugar að Liverpool stæði uppi með Evrópubikarinn eftir fyrstu leiktíð Rafael? Ekki mörgum.

En þrátt fyrir þennan draumaendi á leiktíðinni í vor þá olli hún í raun vonbrigðum hvað mikilvægasta markmið Liverpool á hverri leiktíð áhrærir. Bill heitinn Shankly sagði Englandsbikarinn vera "brauð og viðbit" Liverpool. Á síðustu leiktíð var Liverpool langt frá því brauði. Alltof langt! Það er líka alltof langt frá því Liverpool vann enska meistaratitilinn. Vorið 1990 fagnaði Liverpool átjánda titli sínum. Það er enn verið að bíða eftir þeim nítjánda. Þetta veit Rafael Benitez fullvel.

Rafael sýndi hvers konar meistari hann er í Istanbúl í vor. Liverpool virtust allar bjargir bannaðar í hálfleik. AC Milan var með 3:0 forystu og leikmenn Liverpool voru algerlega slegnir út af laginu. En Rafael var einn fárra sem gaf ekki upp alla von. Hann breytti leikskipulagi liðsins og blés leikmönnum sínum baráttuanda í brjóst. Áætlunin sem Rafael lagði upp gekk fullkomlega eftir. Liverpool jafnaði leikinn á sex mínútna kafla og vann svo í vítaspyrnukeppni. Óglymanlegt kvöld skapaðist í Istanbúl.

Rafael var að drukkna í hrósi eftir úrslitaleikinn í Istanbúl. Skyldi engann undra. David Moores stjórnarformaður Liverpool sagði Rafael göldróttan. "Rafa er töframaður. Hann er meistari í að leggja upp leikaðferðir og hann er dásamlegur maður. Það skyldi enginn velkjast í vafa um að hann er mikilmenni." Rafael dró úr öllu hrósi sem beindist að honum. Ekki kalla mig einstakan sagði hann af hógværð. Rafael veit nefnilega að sigurinn í Istanbúl, eins glæsilegur og hann var, mun ekki vera nóg. Hann var ekki fyrr kominn heim frá Istanbúl þegar hann fór að huga að næstu skrefum. "Við höfum fullt af góðum leikmönnum en núna þurfum við að finna leikmenn í þær stöður sem þarf að styrkja til að bæta liðið. Við getum ekki breytt öllu en það varða breytingar."

Nú er nú leiktíð að hefjast. Rafael er tilbúinn til að leiða lið sitt áfram til frekari afreka. Hann veit að aðalmarkmiðið er að færast nær enska meistaratitlinum. "Auðvitað ætum við okkur að eiga betri leiktíð í deildinni en á síðustu leiktíð. Til að svo geti orðið þá þurfum við að bæta okkur á öllum sviðum. Sérstaklega í útileikjum. Ég ætla ekki að spá því að við endum í fyrsta, öðru eða þriðja sæti. Ég segi bara að við ætlum að vinna fullt af leikjum. Svo sjáum við til með hvort þetta lið hefur þann kraft sem þarf til að berjast við þessi sterku lið við toppinn."

Rafael bað í vor um að vera ekki talinn sérstakur. Afrek hans á fyrstu stjórnartíðinni á Anfield Road gefa þó tilefni til svoleiðis nafngifta. Hann færði Liverpool Evrópubikarinn í fimmta sinn og þar með til eignar. Með því ávann hann sér allt að því ódauðleika í hugum stuðningsmanna Liverpool. En það er mikið verk óunnið hjá Liverpool. Það veit Rafel betur en flestir. En við stuðningsmenn Liverpool getum verið vissir um að þessi hógværi Spánverji verður vakinn og sofinn yfir velferð Liverpool. Við verðum bara að vona að það fjölgi í armbandsúrasafni frú Benitez á komandi misserum!

 

TIL BAKA