)

Liverpool Football Club

Liverpool Football Club hefur nú Evrópubikarinn í eigu sinni um aldur og ævi. Ekkert mun breyta þeirri staðreynd. Þann 25.05.2005 sótti Liverpool fimmta Evrópubikartitil sinn út á endimörk Evrópu þar sem sú ágæta heimsálfa mætir Asíu. Reyndar teygðist úr leiknum fram á þann 26.05.2005! Ataturk leikvangurinn í Istanbúl varð þessa tvo daga, ef svo mætti segja, vettvangur eins magnaðasta úrslitaleiks í knattspyrnusögunni.

Það er ekki að spyrja að því þegar Rauðu herinn er mættur á svæðið. Þá gerast ævintýrin! Úrslitaleikurinn, gegn Alaves 2001, í Evrópukeppni félagsliða var magnaður en þessi sló flest út sem menn hafa áður séð. Á fjórða tug þúsunda stuðningsmanna Liverpool lagði Istanbúl undir sig. Innrásin var friðsamleg og einkenndist af þeirri gleði og kímnigáfu sem fylgir hjörðunum sem fara hvert á land sem er með liðinu sínu. Á Ataturk leikvanginum og hvar sem stuðningsmenn Liverpool voru staddir fóru þeir í gegnum allt tilfinningalitrófið eins og það lagði sig. Eftirvænting, spenna, áföll, svartsýni, uppgjöf, von, gleði og loks alsæla! Tyrklandsför Rauða hersins bauð upp á allt þetta og miklu meira til!!!!!

Þetta ævintýralega kvöld í Istanbúl mun skipa einstakan sess í sögu Liverpool. Það var ekki bara það að Liverpool ynni Evrópubikarinn í fimmta sinn og þar með til eignar. Það má nefnilega færa tvenn sterk rök fyrir því að þessi fimmti Evrópubikarsigur félagsins hafi verið mesta afrek þess af þeim fimm sigrum sem það hefur nú unnið í keppni þeirra bestu í Evrópu.

Fyrir það fyrsta þá unnust fyrstu fjórir sigrarnir allir þegar Liverpool var með það sterkt lið að reiknað var með því að liðið myndi fara langt í Evrópubikarnum á hverri einustu leiktíð. Í sannleika sagt þá voru fáir sem reiknuðu með því að Liverpool gæti komist svona langt á þessari leiktíð. Aðeins síðbúið mark í síðasta leik riðlakeppninnar uppfyllti skilyrði til áframhalds. En eftir það mark var ekki aftur snúið.

Í öðru lagi má nefna að úrslitaleikurinn sjálfur var einn magnaðasti úrslitaleikur knattspyrnusögunnar. Aldrei áður í sögu úrslitaleikja bestu liða Evrópu hefur lið snúið leik sér í hag eftir að hafa verið þremur mörkum undir. Á Ataturk leikvanginum skóp Liverpool endurkomu sem ekki á sér neina líka. Þó svo að vítaspyrnukeppni þyrfti til að landa sigrinum þá dregur það ekki úr afreki Liverpool. Eftir fyrri hálfleikinn þá átti liðið einfaldlega ekki að eiga möguleika á sigri. En kraftaverkið gerðist og sigur vannst!

Þeir leikmenn sem hafa unnið Evrópubikarinn í þau fimm skipti, 1977, 1978, 1981, 1984 og 2005, sem hann hefur unnist eiga sér vísan stað í sögu Liverpool. Núverandi fulltrúar félagsins skipuðu sér í hóp goðsagna félagsins og rituðu nýjan glæstan kafla í sögu Liverpool. Þetta eru hetjurnar, sem tóku þátt í úrslitaleiknum gegn AC Milan, og við getum þakkað að það verður alltaf hægt að ganga að Evrópubikarnum vísum á Anfield Road: Jerzy Dudek, Steve Finnan, Djimi Traore, Sami Hyypia, Jamie Carragher, John Arne Riise, Harry Kewell, Steven Gerrard, Xabi Alonso, Luis Garcia, Milan Baros, Vladimir Smicer, Dietmar Hamann, og Djibril Cisse. Svo er bæði rétt og skylt að nefna þá: Igor Biscan, Antonio Nunez, Jose Miguel Gonzales Rey, Scott Carson, Stephen Warnock, Florent Sinama-Pongolle, Chris Kirkland, Anthony Le Tallec, Darren Potter, Salif Diao, Neil Mellor, John Welsh og Stephane Henchoz. Allir þessir menn lögðu sitt af mörkum. Þeir lögðu að sjálfsögu mismikið til. En þetta eru þeir tuttugu og sjö leikmenn sem tóku þátt í Evrópuvegferðinni sem lá frá Austurríki til Istanbúl. Þar endaði hún með eins og ævintýrin enda hvað best. Fyrir að leggja sitt af mörkum til þessa ævintýris eiga þessir leikmenn ævarandi þakkir skildar!!!!!

TIL BAKA