)

Djibril Cissé

Líklega hefur Djibril Cissé aldrei fagnað mörkum eins mikið og þeim sem hann skoraði gegn Aston Villa. Þó hefur hann skorað mörg mörk á ferli sínum. Mörkin tvö staðfestu í raun endurkomu hans eftir hroðalegt fótbrot í leik gegn Blackburn Rovers í október. Fótbrotið var það slæmt að það var óvíst hversu lengi hann myndi vera að ná sér. Í raun höfðu ýmsir efasemdir um að Djibril myndi geta leikið knattspyrnu aftur. Sannleikurinn var nefnilega sá að hann hefði getað misst fótinn. Aðeins snör og rétt handtök lækna Liverpool komu í veg fyrir að hugsanlega hefði þurft að taka fótinn af Djibril. Málið var háalvarlegt og það var ekkert skrýtið þótt einhverjir efuðust um að franski sóknarmaðurinn kæmist til leiks sem knattspyrnumaður á nýjan leik.

Þrátt fyrir það hversu fótbrotið var alvarlegt þá var Djibril strax mjög bjartsýnn á endurkomu sína og það leið ekki á löngu áður en hann sagðist stefna á að spila aftur á þessari leiktíð. Flestum að óvörum rættist sú spá Frakkans. Fimm og hálfum mánuði eftir fótbrotið á Ewood Park var Djibril kominn aftur til leiks. Hann spilaði síðasta stundarfjórðunginn í seinni leik Liverpool og Juventus í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Þegar hann skipti við Milan Baros í Tórínó tók ekki bara skref inn á leikvanginn þar. Hann tók um leið skref sem margir töldu að hann myndi ekki ná að taka.

Eftir níu leiki þar sem Djibril Cissé kom við sögu sem varamaður ákvað Rafael Benítes að láta hann í byrjunarliðið gegn Aston Villa í lokaumferð deildarinnar. Hvítasunnudagur hefði ekki getað verið betri fyrir Frakkann. Hann fiskaði vítaspyrnu, á 20. mínútu, sem hann afgreiddi í markið. Fögnuður Djibril var skiljanlega innilegur. Ekki var fögnuður hans minni sjö mínútum síðar þegar hann skoraði hann aftur. Liverpool vann leikinn 2:1. Það var ekki skrýtið þótt Djibril væri ánægður eftir leikinn. "Ég skoraði ekki þessi mörk fyrir mig. Þau voru skoruð fyrir stuðningsmennina og læknaliðið. Vegna allrar þeirra vinnu sem ég hef lagt á mig á Melwood, með starfsfólkinu þar og leikmönnunum, þá var mjög mikilvægt fyrir mig að skora áður en leiktíðinni lyki. Ég er mjög ákveðinn og ég vissi alltaf að ég myndi komast aftur til heilsu og skora. En það var alveg einstakt að gera það á Anfield fyrir framan stuðningsmenn Liverpool, fjölskylduna mína og kærustuna."

Eftir leikinn var sú spurning á allra vörum hvort Djibril væri með mörkunum tveimur búinn að vinna sér sæti í byrjunarliðinu sem mætir AC Milan í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn í næstu viku. Svar við þeirri spurningu fæst síðar. En Frakkinn er allur að liðkast og það eru góð tíðindi fyrir Liverpool.

Það var Gerard Houllier sem lagði drög að kaupunum á Djibril Cissé. Hann var lengi búinn að hafa mikinn áhuga á að fá þennan landa sinn til Liverpool. Gerard entist ekki starfsævi hjá Liverpool til að sjá drauminn rætast. En brotthvarf hans breytti engu um það að Djibril kom til Liverpool frá Auxerre á liðnu sumri. Djibril skoraði í sínum fyrsta deildarleik á leiktíðinni þegar Liverpool sótti 1:1 jafntefli gegn Tottenham Hotspur á White Hart Lane. En þrátt fyrir mark í fyrsta leik sínum þá gekk Djibril ekkert sérstaklega vel í fyrstu leikjum sínum með Liverpool. Þegar hann fótbrotnaði gegn Blackburn 30. október var hann bara búinn að skora þrjú mörk. Fótbrotið setti svo allar áætlanir hans í biðstöðu.

Sumir telja að Djibril sé bara einhver skrautfugl sem hugsi meira um hárlitun en knattspyrnu. En endurkoma hans, langt á undan öllum áætlunum, sýnir að það er mikið spunnið í Frakkann. Hann er nú kominn aftur sterkur til leiks. Það er meira segja ekki víst að hann sé búinn að segja sitt síðasta orð á þessari leiktíð!

 

TIL BAKA