)

Jamie Carragher

Jamie Carragher hefur vart stigið feilspor á þessari leiktíð og þó hefur hann farið víða um velli. Það er ekki á neinn hallað þó því sé haldið fram að Jamie sé búinn að vera besti maður Liverpool á þessari leiktíð. Aftur og aftur hefur hann gengið fram fyrir skjöldu með frábæru fordæmi og einstakri ósérhlífni. Jamie þekkir ekki hugtakið uppgjöf og það má alltaf ganga að því vísu að hann gefst ekki upp sama á hverju gengur.

Á þessari leiktíð hefur Jamie spilað sem miðvörður. Hann lauk síðustu leiktíð í þeirri stöðu eftir að hafa leikið sem bakvörður undanfarnar leiktíðir. Meiðsli Stepane Henchoz undir lok síðustu leiktíðar gerðu það að verkum að Gerard Houllier færði Jamie til í vörninni. Rafael Benítes virtist sama sinnis og fyrrirennari sinn og lét Jamie vera áfram við hliðina á Sami Hyypia. Þó Jamie hafi skilað báðum bakvarðarstöðunum með prýði á undanförnum leiktíðum þá virðist nú augljóst að hann er bestur í miðvarðarstöðunni.

Svo góður er Jamie búinn að vera í stöðu miðvarðar að Rafael Benítes greip til stórra orða á dögunum. Jamie hefur verið að spila mjög vel á þessari leiktíð og hann er mjög mikilvægur fyrir okkur. Að mínu mati er hann besti miðvörður Englands í augnablikinu." Rafael hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á Jamie frá því hann tók við stjórninni hjá Liverpool. "Hann hefur hugarfarið sem allir stjórar vilja sjá hjá leikmönnum sínum. Hann er alltaf að bæta sig og nú er hann að vinna í að bæta tæknina. Hann er mjög fjölhæfur og það er annar góður kostur við hann. Hann er jafnvígur á báða fætur og getur bæði spilað sem miðvörður og í báðum bakvarðarstöðunum."

Þetta álit Rafael Benítes er ekkert nýtt hjá framkvæmdastjórum Liverpool. Hann er búinn að vera fastamaður hjá þremur síðustu framkvæmdastjórum Liverpool. Á undan Rafael Benítes lýstu þeir Roy Evans og Gerard Houllier oft aðáun sinni á harðjaxlinum. Það er engin tilviljun að Jamie er nú orðinn leikreyndasti maður Liverpool. Þrjúhundraðasti og fimmtugasti leikurinn er skammt undan.

Framganga Jamie á leiktíðinni endurspeglaðist í leik Liverpool og Everton á dögunum. Undir lokin, þegar Everton reyndi að bjarga leiknum, fór Jamie hamförum. Hann var úti um allt í vörninni. Þar sáust eðliskostir hans best. Óbilandi sigurvilji og eldmóður fyrir málstað Liverpool. Það þarf því ekki að undra að margir aðdáendur Liverpool vilji að Jamie Carrgher taki við fyrirliðabandinu. Kannski á hann eftir að vera fyrirliði Liverpool? Hvort eða hvenær það veður mun ekki breyta því að stuðningsmenn Liverpool geta gengið að því vísu að Jamie Carragher mun leggja sig allan fram í þeim leikjum sem hann á eftir að spila fyrir félagið.

TIL BAKA