)

John Arne Riise

Fáir hafa leikið betur fyrir Liverpool upp á síðkastið en John Arne Riise. Sá norski hefur svarað mörgum gangrýnisröddum með því að leika betur á þessari leiktíð en hann hefur gert frá því á sinni fyrstu 2001/02. Reyndar spilaði hann svo vel á þeirri leiktíð að full miklar væntingar voru gerðar til hans. Hann stóð ekki undir þeim þegar frá leið.

Honum gekk ekkert á síðustu leiktíð og um tíma var talið að dagar hans hjá Liverpool væru taldir. En Norðmaðurinn mætti mjög einbeittur til leiks á þessari leiktíð og hann gaf tóninn með glæsimarki í 5:1 sigri á Celtic í Bandaríkjaferðinni. Þegar leiktíðin hófst gekk honum þó ekki of vel. Hárlitun breytti litlu og hann var við að detta út úr liðinu. En á fyrsta degi vetrar urðu vatnaskil. Hann skoraði þá fallegt mark gegn Charlton í leik sem Liverpool vann 2:0. Hann reif ekki af sér peysuna en gleði hans var samt augljós því þetta var fyrsta mark hans í rúmlega 60 leikjum. Hann skoraði svo aftur í næsta leik.

En það var um jólin sem John Arne lét verulega að sér kveða. Hann skoraði tvívegis í 5:0 útisigri á West Bromwich Albion og lagði upp tvö önnur mörk. Aftur skoraði hann mikilvægt mark gegn Norwich í 2:1 útisigri í byrjun árs. Hann hefur nú skorað sex mörk fyrir Liverpool á leiktíðinni og hafa aðeins tveir leikmenn skorað fleiri mörk. Sé eitt landliðsmark talið með þá eru mörkin orðin sjö. Hann hefur að auki átt þátt í nokkrum mörkum sem félagar hans hafa skorað.

Dæmið hefur sannarlega snúist við frá síðustu leiktíð! Líklega hefur það gert það því nú spilar John Arne oftast sína betri stöðu það er sem útherji. Honum hefur oft, á ferli sínum með Liverpool, verið stillt upp sem bakverði. En hann er varla nógu góður varnarlega til að skila þeirri stöðu nógu vel. En á kantinum njóta hæfileikar hans sér best.

Sá norski þakkar Rafael Benítes þau umskipti sem hafa orðið á leik hans. "Ég held að þetta sé mitt besta tímabil síðan ég gekk í raðir Liverpool. Ég er mjög stöðugur núna og hef í rauninni ekki átt neina slæma leiki eins og á síðastliðnum tímabilum. Ég verð bara að halda áfram á sömu braut, leggja hart að mér á æfingum og reyna að bæta mig enn meira. Ég er farinn að venjast því að spila sem sókndjarfur kantmaður og og er farinn að skora mörk aftur. Það er mikilvægt fyrir mig og liðið. Ég er fullur sjálfstrausts. Mér líður vel og ég er ánægður með frammistöðu mína. Þetta er allt Rafa og strákunum að þakka því þeir hafa gefið mér svo mörg færi til að vinna úr."

John Arne Riise er nú orðinn einn leikreyndasti leikmaðurinn hjá Liverpool og tvöhundraðasti leikurinn er ekki svo langt undan. Hann hefur leikið flest alla leiki Liverpool á þessari leiktíð og ef hann heldur áfram að standa sig svona vel þá mun hann halda stöðu sinni í liðinu.

Eitt er þó úr sögunni. Norðmaðurinn er, að eigin sögn, hættur að rífa sig úr peysunni þegar hann skorar af ótta við að vera bókaður! Ef hann hefði notað gamla fagnið gegn West Bromwich Albion hefði hann verið rekinn út af! Það verður fyrir eitthvað annað sem hann verður rekinn út af fyrir!

TIL BAKA