)

Steven Gerrard

Leiðtoginn lagði lokahönd á að bóka farmiða í úrslitaleik Deildarbikarsins. Steven Gerrard sýndi enn og aftur mikilvægi sitt í undanúrslitarimmunum við Watford. Hann skoraði sigurmark Liverpool í báðum leikjunum við Watford. Geitungarnir náðu ekki að svara fyrir sig og Liverpool tryggði sér sína sjöttu ferð til Cardiff á fjórum árum. Reyndar eru þetta einu leikirnir sem Steven hefur spilað í Deildarbikarnum á leiktíðinni. En þegar það tók að hylla undir ferð til Cardiff tefldi Rafael Benítes fram sínum bestu mönnum. Steven er sannarlega fremstur meðal jafningja í þeim hópi. Sem fyrr segir skoraði hann mörkin sem gulltryggðu ferðina til Cardiff.

Það eru margir sem eru tilbúnir að gera lítið úr Deildarbikarnum. En úrslitaleikurinn að þessu sinni verður milli Liverpool og Chelsea. Sá leikur verður stórleikur og athygli allra verður á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff þann 27. febrúar. Ástæðan fyrir athyglinni er ekki síst Steven Gerrard. Hann mun þar koma til með að leika gegn liðinu sem hefur vokkað í kringum hann mánuðum saman. Á liðnu sumri mátti engu muna að Steven yfirgæfi Liverpool og færi til Chelsea. Órðrómur þess efnis að Steven muni, fyrr eða síðar, fara til Chelsea hefur aldrei verið kveðinn niður á leiktíðinni og fjölmiðlar munu halda honum við áfram. Fjölmiðlar munu örugglega setja framtíð og fortíð Steven Gerrard í samhengi við alla mögulega hluti fyrir leikinn í Cardiff. Það mun því mikið mæða á Steven Gerrard í úrslitaleiknum.

En burtséð frá öllum vangaveltum þá er Steven enn fyrirliði og leikmaður Liverpool. Það er því ekki að undra að Steven sé farinn að hlakka til úrslitaleiksins. "Ég einbeiti mér núna bara að því að lyfta Deildarbikarnum og koma liðinu í eitt af fjórum efstu sætunum í deildinni. Það myndi vera mér mjög mikils virði ef ég næði að taka á móti bikar á fyrstu heilu leiktíðinni sem ég er fyrirliði Liverpool.

Þetta var búin að vera slæm vika. Sjálfstraustið var búið að vera á niðurleið og margt af gagnrýninni átti fullan rétt á sér. Við erum stórt félag og við fáum mjög vel borgað fyrir vinnu okkar. Þrjú töp á einni viku er ekki nógu gott fyrir Liverpool Football Club.

En eftir leikinn við Southampton settumst við niður með startfsliðinu. Við breyttum nokkrum hlutum fyrir leikinn við Watford og liðið virkaði traustara fyrir bragðið. Þetta styrkti sjálfstraustið. Nú getum við hlakkað til að taka þátt í úrslitaleik. Við verðum bara að byggja á þessu núna."

Rafael Benítes veit allt um mikilvægi fyrirliða síns. "Hann er lykilmaður. Þegar hann er með og leikur vel þá táknar það venjulega að liðið leikur vel. Hann er mikilvægur fyrir okkur og það er hugmynd okkar að byggja sterkt lið í kringum hann. Eftir að hafa unnið með honum í sex mánuði þá vitum við að hann er mjög góður leikmaður."

Úrslitaleikurinn gegn Chelsea verður sá þriðji sem Steven tekur þátt í þessari keppni. Árin 2001 og 2003 var Steven í sigurliði Liverpool. Vonandi nær hann þriðja gulli sínu í keppninni. Það myndi vera mjög táknrænt að þriðji sigur hans í keppninni kæmi gegn Chlesea og það myndi ekki koma neinum á óvart ef Steven Gerrard yrði maður leiksins.

TIL BAKA