)

Rafael Benítez

Nú er fyrsta leiktíð Liverpool, undir stjórn Spánverjans Rafael Benítez hálfnuð. Það er erfitt að segja til um hvað stuðningsmönnum Liverpool finnst um stöðu mála nú. Líklega eru þó flestir á því að skútan sé á réttri stefnu.

En samt finnst flestum trúlega að staða liðsins gæti verið betri. Liðið er enn alltof langt á eftir efstu liðum deildarinnar. Árangur liðsins á útivöllum hefur valdið vonbrigðum og er helsta ástæðan fyrir því að liðið er ekki með fleiri stig en raun ber vitni. Rafael hefur oft verið gagnrýndur fyrir hvernig hann hefur stillt upp liðinu og þá sérstaklega hefur hann þótt tryggur leikmönnum sem eru ekki að standa sig nógu vel. Hann þykir líka breyta liðinu of mikið milli leikja og þá jafnvel þótt vel hafi gengið í næsta leik á undan. Að auki hafa leikaðferðir hans á stundum verið dregnar í efa. Sem dæmi þykir hann, á tíðum, oft full varkár á útivöllum.

Jákvæð atriði má líka nefna og sem betur fer eru þau líklega fleiri. Liðið hefur leikið mjög vel á heimavelli og Anfield Road er nú orðið traust virki. Sóknarleikur liðsins hefur oft verið með ágætum. Ungir, heimaaldir leikmenn, hafa fengið tækifæri í aðalliðinu. Liverpool er enn með í Meistaradeildinni og liðið er komið í undanúrslit Deildarbikarsins. Liðið er líka stutt frá hinum gullvægu fjórum efstu sætum deildarinnar. Rafael hefur líka komið fram sem hreinskilinn og ákveðinn maður sem notar afsakanir mjög sparlega. Viðhorf hans til Liverpool hafa fallið í góðan jarðveg hjá stuðningsmönnum félagsins. Það er klárt að Rafael veit hvað hann er að gera.

Það er svo spurning um hvað hægt er að fara fram á á fyrstu leiktíð Spánverjans. Svarið er einfalt. Sæti í Meistardeildinni á næstu leiktíð er algert lágmark. Einn titill eða svo kæmi sér vel. En stuðningsmenn Liverpool verða að sýna þolinmæði og gefa Rafael svigrúm til móta liðið eftir sínu höfði. Samt eru kröfur stuðningsmanna Liverpool miklar. Liverpool er nefnilega ekkert venjulegt knattspyrnufélag!

Rafael hafði þetta að segja eftir jólatörnina. "Við erum núna farnir að vinna oftar á útivöllum. Leikmennirnir leika æ betur og hafa öðlast meira sjálfstraust. Við erum líka að vinna heimaleiki okkar og þessir sigrar veita okkur aukið sjálfstraust. Við stefnum núna á fjórða sætið."

Spámaðurinn Mark Lawrenson er ánægður með það starf sem Rafael hefur unnið. "Miðað við allt mótlætið sem hann hefur þurft að standa af sér á leiktíðinni, brotthvarf Michael Owen, meiðsli leikmanna og mistök dómara, þá hefur hann haldið einbetingu sinni. Hann hefur líka náð að vinna vel með þá þætti sem hann hefur haft fulla stjórn á. Til dæmis að hvetja leikmenn sína til dáða og fá liðið til að spila eftir sínu höfði."

Til gamans fylgir hér umfjöllun um Rafael sem birtist í knattspyrnutímaritinu SHOOT í sumar þegar hann var nýtekin við stjórn Liverpool. Það er fróðlegt að lesa þetta nú þegar fyrsta leiktíð Rafael er hálfnuð.

Hann vann Evrópukeppni félagsliða á síðustu leiktíð með Valencia en þýðir það að hann geti staðið sig á Anfield? Rafael gerði líka liðið sitt að spænskum meisturum í annað sinn á þremur árum. Allir sem geta klekkt á Real Madrid og Barcelona og náð efsta sæti af þeim hlýtur að vita hvað hann syngur.

Hvers konar knattspyrnu munu þeir Rauðu leika undir stjórn nýja stjórans? Þegar hann kom til Valencia þá var það fyrsta verk hans að styrkja vörn liðsins og hann gerði liðið að mjög sterkri varnarheild. Á síðustu leiktíð fékk liðið aðeins á sig 26 mörk sem var það minnsta sem spænskt meistaralið hefur fengið á sig í spænsku deidinni í 30 ár.

Það er gott og blessað. En eigum við eftir að sjá endurkomu skemmtilegs sóknarleiks hjá Liverpool? Rafael segist ætla að vinna verkið með "tilþrifum". Það er rétt að benda á það að allir útileikmenn Valencia, nema vinstri bakverðirnir tveir, skoruðu á síðustu leiktíð.

Gerir hann sér grein fyrir því hvað Liverpool FC táknar fyrir rauða helming borgarinnar? Ja, þegar hann sat fyrir svörum hjá fjölmiðlamönnum á Anfield í fyrsta skipti sagði hann. "Það er eins og draumur að vera hérna. Ég er mjög, mjög stoltur yfir því að vera að ganga til liðs við eitt af mikilvægustu félögum heimsins í einni bestu deild veraldar."

Er hægt að líkja honum við einhvern annan frakvæmdastjóra sem við þekkjum? Honum hefur verið líkt við Arsene Wenger framkvæmdastjóra Arsenal. Báðir þykja miklir knattspynuhugsuðir. Þeir þykja líka snjallir í að gera þokkalega leikmenn að frábærum. Hann er líka þekktur fyrir að vilja nota "skiptikerfi" í leikmannahópnum.

Getur hann séð svo um að þeir Stevie Gerrard og Michael Owen muni verða áfram hjá félaginu? Enginn getur ábyrgst það. En menn í innsta hring félagsis telja að Michael hafi viljað fá Rafael í stafið. Nýji stjórinn veit að það er lykilatrði að fá Sevie G til að vera áfram. Risatilbð frá Chelsea gæti kollvarpað þeim áformum.

Hversu mikla reynslu hefur hann af knattspyrnustjórnun? Rafael er 44 ára. Hann gekk ungur til liðs við Real Madrid en komst aldrei í aðalliðið. Hann lék í neðri deildum með Parla og Linares. Hann hóf þjálfaraferilinn með unglingalið Castilla. Hann var svo aðstoðarþjálfari Vicente del Bosque hjá Real Madrid með yngri lið og B lið félagsins. Því næst stjórnaði hann Real Valladoid, Osasuna, Extremadura og Teneife. Hann varð sigursælasti stjóri í 85 ára sögu Valencia. Honum var boðinn tveggja ára viðbót við samning sinn hjá félaginu. En honum líkaði ekki baktjaldamakk hjá Valencia og að auki togaði enska Úrvalsdeildin í hann. Þess vegna gekk hann til liðs við Rauða herinn.

TIL BAKA