)

Neil Mellor

Síðdegis á sunnudaginn skapaðist augnablik sem fer án nokkurs efa í þjóðsagnasafnið á Anfield Road. Það var farið að draga að leikslokum í leik Liverpool og Arsenal á Anfield Road. Aðeins tíu sekúndur lifðu af leiknum þegar boltinn rataði á hægri ristina á Neil Mellor. Tveimur sekúndum síðar þandi boltinn netmöskvana á markinu fyrir framan The Kop. Allt trylltist af fögnuði á Anfield Road! Neil hafði tryggt Liverpool 2:1 sigur á því liði Arsenal sem hefur fengið viðurnefnið þeir "ósigrandi". Fjölmargar goðsagnir í sögu Liverpool hafa skorað ódauðleg mörk fyrir framan The Kop. Neil er bara ungur og efnilegur leikmaður en markið hans fer í annála á Anfield Road.

Daginn eftir þetta draumamark ræddi Neil málin og rifjaði upp atburði gærdagsins. "Maður veit aldrei hvað getur gerist í knattspyrnuheiminum. Eina vikuna getur maður verið hetja en í þeirri næstu er maður kannski gleymdur. Ég hef notið þess tíma sem ég hef verið hjá Liverpool og þetta mark toppar allt. Auðvitað vil ég vera hérna áfram og sanna mig fyrir stjóranum. Ef ég þarf að fara aftur í varaliðið til að gera það þá er ég tilbúinn til þess. En það er klárt að ég vil ekki yfirgefa félagið. Í knattspyrnu er lengi hægt að velta því fyrir sér hvað hefði getað gerst ef eitthvað annað hefði farið á annan veg. Ég náði að skora tvö mörk gegn Middlesborough í Deildarbikarnum. Þau mörk gerðu það að verkum að ég lék með í gær. Ef ég hefði ekki skorað þessi tvö mörk væri ekki gott að segja hvað hefði orðið. Kannski væri ég þá ekki hérna?

Ég var gersamlega búinn undir lok leiksins. Rétt áður en ég skoraði var ég að vona að dómarinn færi að flauta til leiksloka. Aðrir leikmenn hefðu kannski reynt að leika á varnarmanninn en ég var of þreyttur til þess. Ég sá smá glufu hægra megin við markvörðinn og miðaði á hana. Það var stórkostleg tilfinning að sjá boltann hafna í markinu. Næst vissi ég af mér þegar Steve Warnock stökk upp á mig og ég fékk nokkra olnboga framan í mig."

Neil Mellor stóð á tímamótum áður en þessi leiktíð hófst. Neil var búinn að margsanna að hann er markaskorari af Guðs náð. En reyndar hafði honum bara tekist að færa sönnur á það með unglingaliðum og varaliði Liverpool. Markaskorun hans á þeim vettvangi er með ólíkindum. Áður en yfirstandandi leiktíð hófst hafði Neil skorað 45 mörk fyrir varaliðið í 44 leikjum! Eftir að hafa skorað eitt mark í sex leikjum á leiktíðinni 2002/03 þá ákvað Neil fyrir síðustu leiktíð að fara í lán til West Ham United. Dvölin þar var hálf mislukkuð. Við heimkomuna sagði hann þetta. "Ég þarf að vinna mér inn tækifæri með aðalliðinu og svo þarf ég að færa mér tækifærið í nyt! Ég sagði alltaf þegar ég yfirgaf West Ham að ég vildi koma aftur til Liverpool og komast í aðalliðið."

Ekki lagaðist ástandið þegar Neil meiddist í byrjun undirbúningstímabilsins. Leiktíðin var komin í gang þegar hann var orðinn leikfær. En meiðsli aðalsóknarmanna Liverpool gáfu honum tækifæri. Hann greip tækifærið þegar hann skoraði bæði mörk Liverpool þegar liðið sló Deildarbikarmeistara Middlesborough 2:0 úr þeirri keppni. Nú hefur Neil fært sönnur á að hann getur staðið sig meðal þeirra bestu. Það á eftir að koma í ljós hvað úr verður. En Neil mun eiga tryggan sess hjá stuðningsmönnum Liverpool, um ókomna tíð, fyrir að hafa veitt þeim augnablik sem seint gleymist.

TIL BAKA