)

Xabi Alonso

Xabi Alonso hefur heillað stuðningsmenn Liverpool á þeim skamma tíma sem hann hefur leikið fyrir hönd félagsins. Það má ljóst vera að Xabi er frábær miðvallarleikmaður sem mikill fengur er að. Eitt er það þó öðru fremur sem hefur heillað stuðningsmenn Liverpool. Það eru sendingarnar hans. Hann virðist geta sent boltann nákvæmlega þangað sem hann vill. Þessari hæfni hans hefur verið líkt við einn mesta sendingarmeistara í sögu Liverpool. Jú, margir stuðninsmenn Liverpool segja að aðrar eins sendingar hafi ekki sést á Anfield Road frá því Jan Mölby var og hét.

Xabi var aðeins 19 vetra þegar hann fetaði í fótspor Periko pabba síns þegar hann lék sinn fyrsta deildarleik með Real Sociedad í byrjun árs 2001. Mikel, eldri bróðir hans, er enn leikmaður með Baskaliðinu. Xabi festi sig fljótlega í sessi í aðalliðinu og undanfarin ár hefur hann skapað sér nafn sem einn besti miðvallarleikmaður Spánar. Hann hefur nú þegar leikið á annan tug landsleikja fyrir Spán. Það eru líka margir sem telja hann einn þann besta í sinni stöðu í allri Evrópu. Það var því ekki að undra að Rafael Benítes legði mikla áherslu á að fá hann til Englands.

Rafael Benítes sagði komu þeirra Xabi og Luis Garcia vera hinu raunverulegu byrjun á valdatíma sínum hjá Liverpool. Hann hefur þetta að segja um landa sinn. "Xabi getur skilað varnarhlutverki á miðjunni eða verið sókndjarfur. Hann er ekki grimmur leikmaður en hann hefur góðan skilning á því hvernig er best að staðsetja sig. Hann getur líka skotið góðum skotum utan vítateigs."

Xabi Xabi vildi ólmur ganga lið liðs við Liverpool þegar hann frétti af áhuga félagsins. Áhugi Real Madrid skipti hann engu máli. "Þegar ég fétti að Liverpool hefði áhuga á mér þá var valið auðvelt því Liverpool er mikilvægt félag bæði á Englandi og í Evrópu. Það var mér kappsmál að koma hingað og ég vona að ég geti stuðlað að áframhaldandi velgengni félagsins." Áður en Xabi tók lokaákvörðun sína ráðfærði hann sig þó við einn af fyrrum leikmönnum Liverpool. Sander Westerveld, fyrrum félagi Xabi hjá Real Soociedad, herti hann í ákvörðun sinni. "Sander sagði mér að það yrði vel hugsað um mig hérna. Hann sagði borgina dásamlega. Það sama gilti um leikvanginn og andrúmsloftið hérna væri frábært." Hollendingurinn talaði þarna af reynslunni og Xabi varð þaðan í frá harðákveðinn í að fara til Englands.

Xabi er mikill atvinnumaður og áður en hann fékk tækifæri á að leika með Liverpool horfði hann á myndbönd með fyrstu leikjum liðsins á leiktíðinni. Hann vildi átta sig á leik liðsins. Nú er hann strax orðinn einn af lykilmönnum liðsins. Það sást best í fjögurþúsundasta deildarleik Liverpool gegn Fulham. Baskinn var settur á bekkinn í upphafi leiks. Heimamenn komust í 2:0 fyrir leikhlé og það benti fátt til sigurs Liverpool. Rafael skipti landa sínum inn á í leikhléi og Xabi breytti gangi leiksins algerlega. Undir stjórn hans gengu leikmenn Liverpool frá gestgjöfunum og unnu 4:2. Xabi opnaði markareikning sinn með marki beint úr aukaspyrnu. Hann getur því verið ánægður þessa dagana. "Ég hafði alltaf trú á að ég gæti aðlagast aðstæðum hér. Allt lítur vel út. Ég er ánægður með allt hér í borginni og hjá félaginu. Það eru engin vandamál."

Þetta hljómar sannarlega vel. Xabi á væntanlega eftir að setja mark sinn enn frekar á leik Liverpool eftir því sem tíminn líður. Hann er nú þegar farinn að láta að sér kveða og stuðningsmenn Liverpool geta átt von á meiru góðu frá Basklendingnum.

TIL BAKA