)

Michael Owen

Michael Owen segir í fyrsta alvöru viðtalinu sem hann hefur veitt eftir að hann fór til Real Madrid að metnaður hans til að spila fyrir besta félagslið heims hafi verið ástæðan fyrir því að hann yfirgaf Liverpool. Sú ákvörðun hafi ekki verið erfið.

"Síðan ég var 10 ára gamall vildi ég ekki aðeins vera knattspyrnumaður heldur vildi ég vera sá besti í heimi. Það eru enn margir á undan mér í þeirri röð en ef maður vill komast í þann flokk verður maður að komast frá þægilegum stöðum. Það er í hnotskurn ástæðan fyrir því að ég tók þá ákvörðun sem mun breyta lífi mínu, að yfirgefa Liverpool og fara til Real Madrid.

Ég hef alltaf haft brennandi þrá um að koma mér áfram og þess vegna var ég vonsvikinn yfir neikvæðum viðbrögðum við sölunni á mér. Ég veit ekki hvort það er ensk venja að sætta sig við það sem maður hefur en mér varð dálítið um það þegar fyrstu viðbrögð fólk voru: "Hvernig á hann eftir að komast í liðið?" í stað þess að segja: "Frábært, hann er að fara til stærsta klúbbs í heimi."

Það væri lygi ef ég viðurkenndi ekki að ég velti fyrir mér í nokkra daga hvort ég ætti ekki að vera áfram hjá Liverpool. Hluti af huganum sagði "haltu ferlinum áfram á sömu braut, þú ert öruggur hér. Fjölskyldan er í nágrenni við þig og öllum líkar vel við þig." En meirihlutinn af mér hafði metnað. Ég hafði 10 daga til að gera upp hug minn og í átta þeirra fann ég hvatningu til að bæta mig, bæði sem persóna og sem leikmaður.

Ég er stoltur af sjálfum mér að hafa stigið skrefið út fyrir verndaða umhverfið og fara út í eitthvað sem er dálítið ógnvænlegt og taugatrekkjandi. Peningar komu þessu máli aldrei við. Þetta snerist aðeins um metnað.

Ég veit að margir stuðningsmenn Liverpool verða vonsviknir en ég vil meina að þetta sé góð leið til að kveðja. Ég átti aldrei í neinum vandræðum með Rafael Benitez. Ef kaupin til Real Madrid hefðu farið út um þúfur þá var ég tilbúinn til að halda mínum ferli áfram á Anfield. Ef ég hefði ekki verið tryggur klúbbnum hefði ég farið frítt næsta sumar.

Ég sagði við Liverpool að ég vildi að þeir fengju eitthvað fyrir mig. Allt í lagi, kannski er það ekki jafn mikið og þeir hefðu fengið fyrir nokrum árum. En ef ég hefði átt 3-4 ár eftir af samningnum hefði ég hugsanlega reynst of dýr til að önnur lið vildu fá mig."

Hvað sögðu menn á Anfield Road?

Rafael Benítes: "Ég verð að útskýra að við vorum mjög, mjög ánægðir með Michael. Hann stundar æfingar vel og er frábær leikmaður. Frá okkar bæjardyrum séð þá varð hann að fara því samningi hans lýkur eftir ár. Það var kannski ekki vandamál. En við vorum búnir að bíða í eitt ár og tvo mánuði eftir nýjum samningi. Við vissum að forráðamenn Real Madrid vissu um þá stöðu mála. Við réðum ekki við atburðarásina. Þetta var slæmt fyrir okkur en endalokin urðu ekki umflúin. Hann mun skrifa undir samning hjá Real Madrid sem er gott lið. Á hinn bóginn verðum við að nota peningana til að koma jafnvægi á liðið.

Við vorum mjög ánægðir með Michael og við vildum hafa hann hér í mörg ár í viðbót. En það var búinn að líða langur tími án þess að hann skrifaði undir nýjan samning. Real Madrid reyndi að kaupa hann á síðasta ári og nú eru þeir búnir að því.

Ég veit bara að við töluðum saman á þriðjudaginn um leikinn og að hann yrði á bekknum. Allt virtist vera með eðlilegum hætti milli okkar. Allir veltu málavöxtum fyrir sér eftir á. En frá mínum sjónarhóli þá var málið mjög einfalt. Hann átti bara eitt ár eftir af samningi sínum og Madrid setti sig í samband við hann. Ég vona að þetta hafi verið það besta fyrir Michael, Real Madrid og Liverpool. Ég talaði oft við hann undir fjögur augu. Það eina sem ég get sagt er að ég vonast eftir því besta fyrir Michael, Madrid og fyrir okkur."

Steven Gerrard: "Allt gerðist mjög snögglega og leikmennirnir, eins og allir aðrir, voru mjög hissa. Þegar við komum saman til að æfinga fyrir leiktíðina áttu allir von á því að Michael yrði í fremstu víglínu fyrir okkur áfram. Nokkrum dögum, í mesta lagi viku, seinna var hann orðinn leikmaður Real Madrid. Við sitjum ekki allir saman og ræðum um hvert eða hvort einhver okkar ætlar að fara. Menn taka sínar eigin ákvarðanir og halda svoleiðis málefnum útaf fyrir sig. Ég get fullvissað alla um að það var ekki mikið talað, í síðustu viku, við Michael um hugsanlega sölu hans. Hann tók ákvörðun sína fjarri okkur. Við óskum honum alls góðs við að takast á við nýjar áskoranir."

TIL BAKA