Gerard Houllier, OBE
Það er í raun aðeins ein aðalástæða fyrir því að Gerard Houllier er ekki lengur framkvæmdastjóri Liverpool. Það er sama ástæðan og er fyrir því að Graeme Souness og Ray Evans sögðu líka upp störfum. Öllum þremur mistókst að færa stuðningsmönnum Liverpool enska meistaratitilinn. Það eru auðvitað aðrir hlutir sem spila inn í. En eftir stendur þessi aðalástæða. Allir þrír gerðu sitt besta til að ná þessum langþráða titli heim á Anfield Road. En líkt og þeim Graeme og Roy þá reyndist Gerard það ofviða.
Gerard Houllier kom til Liverpool sumarið 1998 og var ráðinn samverkamaður Roy Evans. Það samstarf skilaði ekki því sem til var ætlast og Roy sagði af sér í nóvember 1998. Frá þeim tíma hefur Gerard ráðið ríkjum á Anfield Road. Gerard lét einskis ófreistað til að ná markmiðum sínum. Hann lagði til grundvallar fimm ára áætlun sem miðaði að því að landa verðmætasta titlinum. Fram til vorsins 2002 virtist sú áætlun ætla að ganga eftir og vel það.
Fyrsta heila leiktíðin 1999/2000 lofaði í raun góðu. Liðinu fór greinilega fram. Reyndar rann Meistaradeildarsæti úr greipum liðsins og það hafnaði í fjórða sæti. En samt stefndi allt í rétta átt.
Leiktíðin 2000/2001 var ein sú magnaðsta í sögu Liverpool Football Club og þá er mikið sagt! Sérstaklega verður árið 2001 stuðningsmönnum Liverpool ógleymanlegt. Á hálfu ári voru fimm verðlaunagripir færðir í bikarageymsluna á Anfield Road. Óviðjafnanleg Þrenna, Deildarbikarinn, F.A. bikarinn og Evrópukeppni félagsliða, vannst fyrir sumarið. Þriðja sætið í deildinni gaf af sér sæti í Meistaradeildinni. Í ágúst bættust Góðgerðarskjöldurinn og Stórbikar Evrópu í safnið. Gerard Houllier var að verða að lifandi goðsögn. Lífið gat ekki verið betra. En um haustið dundi reiðarslagið yfir. Gerard var við dauðans dyr og gekkst undir margra klukkustunda aðgerð sem bjargaði lífi hans. Gerard kom aldrei til hugar að láta við svo búið standa. Hann hafði ekki lokið ætlunarverki sínu.
Gerard sneri aftur á varamanabekkinn til að stýra strákunum sínum á útmánuðum 2002. Leiktíðin endaði með því að Liverpool hafnaði í öðru sæti deildarinnar rétt á eftir Arsenal. Næsta mál var að kaupa menn til að styrkja liðið nægjanlega til að ná enska meistaratitlinum. Það mistókst! Þrír menn voru keyptir. Þeir styrktu ekki liðið og nú fór að halla undan fæti. Þessi misheppnuðu leikmannakaup reyndust vendipunktur.
Fimmta sætið var niðurstaðan fyrir ári og Meistaradeildarsæti náðist ekki. Sigur í Deildarbikarnum gleymdist næstum því. Þessi leiktíð, sem nú er nýbúin, reyndist mjög þung í skauti. Flest gekk í móti. Strax í nóvember, ef ekki fyrr, var ljóst að Liverpool myndi spila upp á að ná fjórða sæti deildarinnar. Eftir mikinn barning náði Gerard að stýra Liverpool í fjórða sæti deildarinnar. Sæti í undankeppni Meistaradeildarinnar náðist. Lágmarkskrafa var þar með uppfyllt.
Nú í vor var Gerard Houllier búinn að stjórna Liverpool í fimm heilar liktíðir. Enski meistaratitillinn var fjarlægur. Alltof fjarlægur. Gerard vildi halda áfram störfum. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum. Hann vildi helst klára samninginn enda eru ekki til mikið meiri baráttumenn í þessu fagi. En eftir samræður viðkomandi aðila varð sameiginleg niðurstaða sú að nú væri nóg komið. Það var hárrétt ákvörðun.
Það var stutt í tárin hjá Gerard Houllier þegar hann kvaddi The Kop í síðasta sinn á sólríkum morgni þann 24 maí. Þarna stóð hann og kvaddi leikvanginn sem hann sótti fyrst heim að kvöldi 16. september 1969. Á því septemberkvöldi varð Gerard Houllier, franskur kennari, stuðningsmaður Liverpool. Þetta var kveðjustundin.
Gerard Houllier yfirgefur Liverpool í sátt við félagið og forráðamenn þess. Hann og félagið hans áttu ekki skilið önnur málalok. Maður sem fórnaði næstum lífi sínu fyrir málstað Liverpool Football Club átti ekki skilið að vera sparkað í burtu!
Hvað segja menn þá að leiðarlokum? Fyrst tekur einn af lærisveinunum til máls, þá einn úr hópi goðsagna félagsins, þá einn æðsti maður félagsins og loks Gerard Houllier sjálfur.
Michael Owen. "Ég vil ekki segja til um hvort þessi ákvörðun var rétt eða röng. En maður fyllist alltaf trega og líður illa þegar maður sér einhvern sem maður þekkir ganga í gegnum erfiða lífsreynslu. Gerard Houllier gekk til liðs við Liverpool eftir heimsmeistarakeppnina 1998. Hann hefur því verið við stjórnvölin á stærstum hluta ferils míns. Hann hefur séð mig þroskast sem leikmann. Hann hefur unnið með ýmsa þætti í leik mínum. Ég held að afrakstur þeirrar vinnu hafi verið sá að ég er betri alhliða leikmaður."
Craig Johnston. "Það ánægjulegasta var að brottför hans fór fram á virðulegan hátt. Hann verðskuldaði það. Hann hefur gert svo mikið fyrir félagið og lagt sig allan fram. Hvern þann sem þeir finna í hans stað þá munu þeir aldrei finna neinn sem ber eins mikla umhyggju fyrir félaginu, engan sem ber eins mikinn eldmóð í brjósti fyrir hönd félagsins og hefur jafn mikinn skilning á hvað þarf til að koma Liverpool í allra fremstu röð. Ef útlendingur verður ráðinn verða þeir að fræða hann um Liverpool FC og hefðir félagsins."
Rick Parry. "Gerard hefur líka breytt mörgum hlutum utan vallar, hann hefur fært okkur aftur stolt og sjálfsvirðingu og hefur komið á aga og fagmennsku hjá félaginu. Þrátt fyrir það sem gerst hefur í dag, þá mun hann alltaf vera vinur þessa félags og velkominn á Anfield."
Gerard Houllier. "Ég kom hingað fyrir sex árum sem stuðningsmaður Liverpool og ég fer héðan ennþá meiri stuðningsmaður. Ég er kannski farinn frá Liverpool, en Liverpool mun aldrei fara frá mér. Ég mun snúa aftur og horfa á liðið sem stuðningsmaður þess."