)

Danny Murphy

Danny Murphy hefur skorað þrjú mörk fyrir Liverpool gegn Manchester United. Öll mörkin hefur hann skorað á Old Trafford og þau hafa fært Liverpool þrjá sigra á fjórum leiktíðum. Þetta er líklega einsdæmi.

Það er spurning hvort Gerard Houllier hefur haft sigurmörkin tvö í huga þegar hann ákvað að láta Danny Murphy byrja leikinn á laugardaginn. Hvort sem það spilaði eitthvað inn í þá lék Danny að nýju í byrjunarliði Liverpool eftir nokkurt hlé. Hann minnti sannarlega á sig. Auk þess að eiga líklega sinn besta leik á leiktíðinni þá skoraði hann sigurmarkið í leiknum. Með því sannaði hann kenningu sem margir hafa sett fram á þessari leiktíð. Danny staðfesti að hann er besta vítaskytta sem Liverpool á um þessar mundir.

Þessi leiktíð hefur verið erfið fyrir Danny. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn og þegar hann hefur fengið tækifæri þá hefur hann verið langt frá sínu besta. Þetta eru mikil viðbrigði frá síðustu leiktíð þegar Danny var að flestra mati besti leikmaður Liverpool. En Danny býr yfir miklum andlegum styrk. Hann er í raun fyrirmyndar atvinnumaður. Hann leggur sig alltaf fram, æfir vel og kvartar aldrei þótt hann sé ekki í liðinu. Vissulega tekst honum ekki alltaf sem best upp en hann á skilið virðingu fyrir að gera alltaf sitt besta.

Þetta viðhorf hans kunna félagar hans vel að meta. Jamie Carragher hefur þekkt Danny lengi. Þetta hefur hann að segja um félaga sinn. "Danny býr yfir ótrúlegum andlegum styrk. Hann er okkur frábær fyrirmynd. Sjáiði bara. Hann fer aldrei í felur ekki einu sinni þegar stuðningsmennirnir láta hann heyra það. Við eigum að taka svona viðhorf okkur til fyrirmyndar. Það á ekki að vorkenna leikmönnum sem láta fara lítið fyrir sér þegar á móti blæs. Það gerir Danny aldrei. Ekki einu sinni núna að undanförnu þegar honum hefur ekki gengið vel."

En hvað fannst Danny um sigurmark númer þrjú á Old Trafford? "Ef ég lít á þetta frá sjónarhóli liðsheildarinnar þá gæti þetta verið sætasta sigurmark sem ég hef skorað. Ef sigurinn á Old Trafford kemur okkur í Meistaradeildina þá mun þetta mark vera það mikilvægasta sem ég hef skorað þar.

En frá mínum eigin bæjardyrum þá hugsa ég að 1:0 sigurinn fyrir tveimur árum slái flest út. Fyrir þann leik hafði mér gengið illa og markið hjálpaði mér að ná sjálfstrausti aftur. Vonandi get ég, í lok leiktíðarinnar, litið til nýjasta marksins sem þess mikilvægasta fyrir Liverpool.

Old Trafford er leikvangur sem hefur reynst mér vel. Ég hef skorað þrjú sigurmörk þar, ég var í fyrsta skipti í byrjunarliði á útivelli þar og á þessum leikvangi lék ég minn fyrsta landsleik."

Hvað um vítaspyrnurnar? "Ég hef enn ekki misnotað vítaspyrnu. Ég hef í raun ánægju af að taka vítaspyrnur því þær veita mér gott tækifæri á að skora. Það var sannarlega sætt að skora úr einni á Old Trafford."

Ef Danny nær sér á strik þá getur það komið Liverpool til góða. Hann er einn mest skapandi leikmaður liðsins og hann skorar mikilvæg mörk. Í öllum þeim leikjum sem hann hefur skorað í fyrir Liverpool þá hefur liðið aðeins einu sinni tapað. Hvað sem framtíðin ber í skauti sér fyrir Danny Murphy þá má stóla á það að hann mun leggja sig fram og sinna sínum verkum án þess að kvarta.

Að lokum. Danny varð á laugardaginn fyrsti leikmaður ensks liðs til að koma vítaspyrnu í mark á Old Trafford í rúman áratug! Það eitt gæti talist afrek út af fyrir sig. En líklega segir sú staðreynd meira um dómgæsluna á Old Trafford en hæfileika gestkomandi leikmanna til að taka vítaspyrnur! Hæfileikar Danny Murphy á því sviði eru þó augljósir.

TIL BAKA