)

Steven Gerrard

Steven Gerrard leiddi enska landsliðið í fyrsta skipti, sem fyrirliði, til leiks í Svíþjóð á miðvikudagskvöldið. Svíagrýlan er líka til staðar í knattspyrnu. Að minnsta kosti hvað Englendinga varðar. Þeir voru heimsmeistarar síðast þegar þeir lögðu Svía að velli. Tapið á miðvikudaginn eyðilagði glæsilega byrjun á landsliðsferli Steven. Þetta var í fyrsta skipti sem hann er í tapliði frá því hann lék sinn fyrsta landsleik. Landsleikurinn gegn Svíum mun hafa verið 22 landsleikur hans. Líklega eiga ekki margir betri byrjun með enska landsliðinu.

Steven verður ekki fastur landsliðsfyrirliði á næstunni. David Beckham mun líklega halda fyrirliðabandinu í næstu framtíð. Félagi Steven, Michael Owen, er meira segja á undan honum í röðinni sem opinber varafyrirliði. En Sven Göran sýndi með því að skipta Steven sem fyrirliða að hann er sama sinnis og Gerard Houllier. Þeir vita sem er að Steven Gerrard er leiðtogi sem mikið er spunnið í. Hann er ekki lengur efni í leiðtoga. Hann er orðinn ótvíræður foringi Liverpool innan vallar sem utan og hann gæti verið það hjá enska landsliðinu fengi hann tækifæri til þess.

Það eitt að vera treyst fyrir því að vera valinn fyrirliði þjóðar sinnar er í senn afrek og heiður. En fyrirliðaskipunin er langt frá því mesta afrek Steven Gerrard á leiktíðinni. Mesta afrek hans er að vera besti leikmaður Liverpool leik eftir leik. Ekki bara bestur leikmanna liðsins heldur langbestur. Það er í raun óratími síðan einn leikmaður hefur borið höfuð og herðar yfir félaga sína leik eftir leik eins og Steven hefur gert núna viku eftir viku. Kannski þarf að leita allt aftur til þess að Billy Liddell dró vagninn fyrir Liverpool eftir síðari heimsstyrjöldina. Vissulega hafa margir frábærir leikmenn Liverpool verið yfirburðamenn í gegnum árin. En á þessari erfiðu leiktíð hefur komið í ljós hvað býr í Huytonhamrinum. Því miður, liggur við að segja, er hann búinn að vera langbestur. Því miður hafa félagar hans alltof sjaldan fylgt fordæmi hans.

Allt frá því hann var gerður að fyrirliða Liverpool í október á síðasta ári hefur hann í raun borið liðið á herðum sér. Sérstaklega hafa yfirburðir hans verið miklir nú eftir áramótin. Steven er gríðarlega metnaðarfullur leikmaður. Það þarf ekki annað að sjá hann í leik til að skilja það. Hann leggur sig fram af öllum mætti, hann lætur félaga sína heyra það og fer fyrir liði sínu með góðu fordæmi. Steven hefur líka komið fram og talað út um málefni Liverpool. Hann fer ekki í felur meðð skoðanir sínar. Hreinskilni hans hefur fallið í góðan jarðveg hjá stuðningsmönnum Liverpool. Áhrif hans eru mikil. Hefðu stuðningsmenn Liverpool farið að syngja nafn Gerard Houllier á leiknum gegn Levski Sofia ef Steven hefði ekki fagnað marki sínu með því að faðma framkvæmdastjóra sinn að sér? Þegar stórt er spurt!

Steven gerir sér grein fyrir hvað þarf að gera til loka leiktíðar. "Takmarkið er núna að komast í Meistaradeildina. Mestu vonbrigðin á síðustu leiktíð voru þau að lenda í fimmta sæti og missa af sæti í Meistaradeildinni. Núna stendur það upp á mig og strákana að bæta úr á þessari leiktíð og tryggja okkur eitt af fjórum efstu sætunum. Hvort sem það er það fjórða, þriðja eða annað. Mér er alveg sama svo lengi sem við náum markmiðinu."

Sven Göran Eriksson lýsir Steven svo. "Þú finnur ekki annan Steven Gerrard á Englandi. Kannski hvergi. Hann hefur alla þá kosti sem miðjuleikmaður þarf til að bera. Hann getur varist, hann er ákveðinn og tæklingar hans eru frægar. Það er ekki auðvelt að leika gegn honum. Hann er mjög snjall leikmaður. Hann sendir boltann vel, er góður skotmaður og hann sækir vel fram á völlinn. Hann hefur allt til að bera sem knattspyrnumaður þarf."

Phil Neal var spurður, í Íslandsheimsókn sinni á dögunum, hvað þyrfti til að Liverpool næði að komast í baráttuna um enska meistaratitilinn. Svar hans var á þá leið að Liverpool þyrfti sex til sjö leikmenn eins og þá Steven Gerrard og Jamie Carragher. Leikmenn sem leggðu sig fram af eldmóði og krafti í leik eftir leik. Leikmenn sem skiluðu sínu besta í um það bil sjö af hverjum tíu leikjum. Steven gerir það og gott betur!

 

TIL BAKA