)

Milan Baros

Ökklabrot Milan Baros í haust hefði ekki getað komið á verri tíma fyrir hann. Tékkinn var kominn í byrjunarlið Liverpool og átti mjög góðan leik í 3:0 sigri Liverpool gegn Everton á Goodison Park. Hann skoraði því næst glæsilegt mark fyrir Tékka í sigurleik gegn Hollendingum sem kom Tékkum beinustu leið í úrslitakeppni Evrópumóts landsliða í Portúgal. Milan var í byrjunarliði Liverpool í næsta leik sem var gegn Blackburn Rovers. Strax á upphafsmínútum leiksins var hann borinn ökklabrotinn af leikvelli eftir að Markus Babbell hafði óviljandi lent harkalega á honum. Milan var úr leik næstu mánuðina.

Hann var orðinn góður í byrjun árs en Gerard Houllier lét hann leika nokkra varaliðsleiki áður en honum var sleppt lausum í aðalliðið. Sumir óttuðust ef til vill, þar sem hann fór ekki beint í aðalliðið eins og Jamie Carragher, að Milan hefði ekki komið vel undan meiðslunum. En reyndin var sem betur fer önnur. Hann byrjaði gegn Levski Sofia á Anfield Road. Það fór ekkert á milli mála að Milan var ekkert eftir sig eftir meiðslin. Pilturinn djöflaðist út um allan völl og ferskir vindar léku um sóknarleik Liverpool. Í næsta leik skoraði hann eitt fallegasta mark Liverpool á leiktíðinni þegar glæsiskot hans utan vítateigs reyndist óverjandi fyrir markvörð Leeds. Hann skoraði svo aftur gegn Marseille á fimmtudagskvöldið.

Milan virðist hafa tekið fyrirliða sinn Steven Gerrard sér til fyrirmyndar. Frá því hann koma aftur eftir meiðslin þá hefur Milan sýnt hvað í honum býr. Hann hefur hlaupið þindarlaust, barist eins og ljón, elt boltann hvort sem hann hefur átt möguleika á að ná honum eða ekki og verið varnarmönnum óþægur ljár í þúfu. Þessi vinnusemi hefur svo skilað honum tveimur mörkum í fjórum leikjum. Sóknarmaður getur ekki gert mikið betur.

Milan er ungur að árum og í raun er hann kannski bara efnilegur enn sem komið er. En það býr mikið í þessum strák sem var nefndur Maradonna Ostravíu á yngri árum. Margir ætla að hann geti orðið einn af bestu sóknarmönnum Evrópu. Vonandi nær hann að fylgja frábærri framgöngu, í síðustu leikjum, eftir. Framlag hans í sóknarleik Liverpool, til loka leiktíðar, gæti skilið á milli um hvort árangur liðsins verður sæmilega viðunandi þegar upp verður staðið á vordögum.

TIL BAKA