)

Sami Hyypia

Sami Hyypia hefur sjaldan leikið betur fyrir Liverpool en eftir að fyrirliðastaðan var tekin af honum. Margir töldu að Sami væri farið að förlast á fyrstu vikum leiktíðarinnar. Hinn trausti og næstum óskeikuli fyrirliði Liverpool var nú skyldilega farinn að gera alls konar mistök. Sumir gengu svo langt að nú væri kominn tími til að setja hann út úr liðinu og það strax.

Þann 15. október, á liðnu hausti, kom frétt sem kom öllum í opna skjöldu. Gerard Houllier tilkynnti að fyrirliðastaðan hefði verið tekin af Sami Hyypia og hér eftir myndi Steven Gerrard leiða Liverpool til leiks. Gerard sagði um leið að hann teldi að þessi ákvörðun myndi koma til með að hjálpa Sami og hann myndi leika betur í kjölfarið. Þeir sem gagnrýndu Sami sem mest töldu á hinn bóginn að þessi atburður markaði upphafið að endinum á ferli Finnans hjá Liverpool. En það var öðru nær og það sem Gerard Houllier hélt fram kom á daginn!

Frá þessum degi hefur Sami sjaldan leikið betur með Liverpool nema ef ef vera skyldi á Þrennuleiktíðinni. Það virtist sem að þungri byrði væri létt af Sami um leið og fyrirliðabandið skipti um hendur. Sami hefur leikið frábærlega frá því fyrirliðaskiptin urðu. Hvað eftir annað hefur hann verið meðal bestu leikmanna Liverpool eða þá einfaldlega besti maður liðsins. Ekki spillir fyrir að nú er samverkamaður hans til margra ára, Stephane Henchoz, aftur kominn til verka við hliðina á honum.

Umskiptin á honum voru í ætt við þau sem urðu á Phil Thompson í upphafi árs 1982 þegar Bob Paisley gerði Graeme Souness að fyrirliða í hans stað. Phil lék betur í kjölfarið á fyrirliðaskiptunum en hann hafði lengi gert.

Sami hefur reynst Liverpool gríðarlega vel frá því hann kom til félagsins sumarið 1999. Þá var hann óþekktur og sparkspekingar veltu því fyrir sér hvað þessi finnski risi gæti. Sami kom sá og sigraði og hefur verið kjölfesta í leik Liverpool frá fyrsta degi. Hann er búinn að vera einn af bestu miðvörðum Úrvalsdeildarinnar og í Evrópu frá því hann byrjaði með Liverpool. Það segir sína sögu að margir sparkspekingar telja kaupin á honum ein þau bestu í sögu félagsins. Sami tók við stöðu fyrirliða Liverpool árið 2001 eftir að þeir Jamie Redknapp og Robbie Fowler voru æ sjaldnar í liðinu. Hann varð þar með fyrsti útlendingurinn sem varð formlega skipaður fyrirliði Liverpool.

Við vonum að Sami haldi nú áfram á þeirri braut sem hann hefur verið á frá 15. október á liðnu hausti. Þann dag skipti fyrirliðabandið hjá Liverpool um hendur og Sami varð aftur sjálfum sér líkur.

 

TIL BAKA