)

Pegguy Arphexad

Pegguy Arphexad á einstakan feril að baki hjá Liverpool. Ekki það að hann hafi beinlínis afrekað mikið með félaginu. En þegar hann yfirgaf Liverpool fyrr á þessari leiktíð þá átti hann sex gullverðlaunapeninga í vörslu sinni. Samt tók hann ekki þátt í neinum af leikjunum sem gáfa þessa verðlaunapeninga af sér! En Frakkinn reyndist vera hið mesta lukkutröll í þessum leikjum. Að minnsta kosti vann Liverpool þessa sex titla með hann á bekknum.

Pegguy kom á frjálsri sölu til Liverpool frá Leicester sumarið 2000. Hann átti að leika með Liverpool í Deildarbikarnum leiktíðina 2000/2001 og hann lék tvo fyrstu leikina. Meðal annars stóð hann í markinu í 8:0 metsigrinum á Stoke. En svo meiddist hann og Sander Westerveld lék leikina sem eftir voru í keppninni. En Pegguy var á varamannabekknum í úrslitaleiknum gegn Birmingham í Deildarbikarnum 2001. Þá byrjaði söfnunin. Næst var það verðlaunapeningur fyrir F.A. bikarinn og svo fylgdi Evrópukeppni félagsliða í kjölfarið. Þá bættust Góðgerðarskjöldurinn og Stórbikar Evrópu við. Þetta var afrakstur ársins 2001. Samt þurfti Pegguy ekki að þreyta sig í þessum leikjunum! Ekki nema þá að hita upp!

Á síðustu leiktíð var talið að Chris Kirkland myndi leika til loka leiktíðar eftir að hann náði stöðunni af Jerzy Dudek. En þegar Chris meiddist snemma árs þá var komið að Frakkanum að taka stöðuna á bekknum. Liverpool komst í úrslit Deildarbikarins og með Pegguy á bekknum þá lagði Liverpool Manchester United 2:0! Sjötti gullpeningurinn var í höfn!

Pegguy leitaði loks á önnur mið í sumar. Gary McAllister fékk hann til liðs við sig hjá Coventry City. Hann hefur staðið í marki liðsins að undanförnu og haldið stöðu sinni. En verðlaunasafn hans er einstakt. Sex gullpeningar eftir aðeins sex leiki!

Fæðingardagur: 18. maí 1973.
Fæðingarstaður: Abymes,Guadaloupe.
Fyrri lið: Brest, Lens, Lille og Leicester City.
Leikir fyrir hönd Liverpool: 6.
Eftirminnilegasta atvik með Liverpool: Þegar hann hann kom inn á fyrir Jerzy Dudek í 6:0 útisigri á Ipswich Town. Hann kom inn á á 55. mínútu þegar Jerzy meiddist en snerti boltann varla það sem eftir var leiksins!

TIL BAKA