)

Vegard Heggem

Vegard Heggem yfirgefur Anfield Road í sumar eftir að hafa verið á mála hjá Liverpool frá 1998. Þá um sumarið keypti Liverpool hann frá Rosenorg í Þrándheimi. Vegard var fyrsti leikmaðurinn sem þeir Roy Evans og Gerard Houllier keyptu eftir að þeir tóku saman við stjórnartaumum Liverpool. Norðmaðurinn vissi að hverju hann gekk hjá Liverpool: "Ég hlakka til að leika með liðinu en það verður erfitt að vinna sér fast sæti í liðinu en ég væri ekki hérna ef ég hefði ekki trú á að mér tækist það." Það tókst honum. Hann lék annað hvort sem hægri bakvörður eða á hægri kantinum og var fljótur að ávinna sér hylli stuðningsmanna Liverpool.

Fyrstu tvær leiktíðir hans gengu vel og hann var búinn að vinna sér fast sæti í liðinu. En á leiktíðinni 2000/2001 hófst þrautaganga sem enn sér ekki fyrir endann á. Þá leiktíð lék Vegard aðeins fjóra leiki og síðan hefur hann ekki leikið einn einasta leik með aðalliðinu. Fjölmargar endurkomur hans úr meiðslum hafa allar endað á sama veg. Meiðslin hafa tekið sig upp aftur. Nú er sem sagt komið að því að dvöl hans í Liverpool er á enda. Það er missir af Vegard. Það er ef maður hugsar til þess hversu góðu hann lofaði sem sókndjarfur hægri bakvörður.

Hvað bíður Vegard á heimaslóðum er ekki að fullu ljóst. Líklega mun hann fara til síns gama félags Rosenborgar og reyna að ná bata. Þar á bæ munu menn vera tilbúnir að bíða og sjá hvort hann nær sér. Samningur mun hugsanlega bíða hans ef hann kemst til heilsu. En Vegard reynir að vera jákvæður þrátt fyrir alla þessa erfiðleika. Því þótt atvinnumenn fái vel útborgað þrátt fyrir að vera frá vegna meiðsla þá reynir svona ástand á menn. "Það er ást mín á knattspyrnunni sem heldur mér gangandi. Ef hún væri ekki svona sterk þá væri ég farinn að gera eitthvað annað." Við óskum Vegard góðs gengis á ókomnum árum.

Fæðingardagur: 13/07/1975.
Fæðingarstaður: Þrándheimur.
Fyrri lið: Rennebu, Orkdal og Rosenborg.
Leikir fyrir hönd Liverpool: 65.
Mörk fyrir Liverpool: 3.
Landsleikir: 20.
Landsliðsmörk: 1.
Eftirminnilegasta atvik með Liverpool: Markið sem hann skoraði eftir mikinn einleik gegn Middlesbrough á annan í jólum 1998.

TIL BAKA