)

David Raven

Hann er fyrirliði undir-19 ára liðsins, leikur á gítar eins og Kelly Jones í Stereophonics og er í þessum töluðum orðum að leika fyrir England í Egyptalandi.

Liverpool.is kynnir hér með til sögunnar hinn bráðefnilega David Raven.

Nafn: David Raven

Aldur: 17 ára

Fæðingarstaður: Wirral

Staða: Varnarmaður

Hversu lengi hefuru verið í Akademíunni?

Síðan ég var 14 og ½ árs. Ég var uppgötvaður þegar ég lék með drengjaliði Wirral og mér var boðið í heimsókn. Mér leist mjög vel á það sem ég sá og ákvað að ganga til liðs við þá.

Hver hefur haft mest áhrif á frama þinn hingað til?

Það hlýtur að vera faðir minn. Hann hefur alltaf verið til staðar þegar ég hef þurft á einhverjum að halda til að ræða um knattspyrnu við og hann hefur ávallt fylgt mér hvert sem ég hef farið til að leika knattspyrnu. Foreldrar mínir sýna mér mikinn stuðning en þau láta þjálfarana í friði til að sinna sínum störfum og ég met það mikils. Síðan ég kom hingað þá hefur Dave Shannon haft mikil áhrif á mig.Hann sá um 14 til 17 ára krakkana. Hann hefur hjálpað mér að þróast sem leikmaður og það leiddi til þess að mér gekk mjög vel að færa mig upp í undir 19 ára liðið á síðasta ári. Nú eru það John Owens og Steve Heighway sem hafa mikil áhrif á framþróun mína.

Hvaða liði hélstu með sem stráklingur?

Liverpool. Tranmere er mitt heimalið og ég lék um stund fyrir þá þegar ég var yngri en það var eingöngu sökum þess hversu erfitt það var fyrir mig að komast reglulega til Liverpool. Pabbi minn átti ársmiða á Anfield og ég fór gjarnan með honum þangað til að horfa á leiki.

Leikmaður sem þú horfir hvað mest upptil?

Stephane Henchoz. Hann er algjör klassaleikmaður. Snöggur og mjög öruggur og ég dáist hreinlega að því hvernig hann leikur. Alltaf þegar hann hefur knöttinn þá virkar hann svo yfirvegaður og hann missir mjög sjaldan frá sér knöttinn. Hann gefur 100% í alla leiki og er hreinlega í alla staði mjög góður varnarmaður. Ég reyni að sjá hvernig hann og Hyppia leika saman og fylgist mjög náið með öllum staðsetningum þeirra. Ég horfi líka mjög náið á bakverðina því það er önnur staða sem ég þarf oft að leika. Við erum hvattir af starfsfólkinu hérna til að horfa á leiki og læra knattspyrnu. Þeir eru mjög harðir á mikilvægi þess að vera á leikjunum og sjá hvernig er leikið og við fáum miða á alla heimaleikina á Anfield.

Hvernig metur þú árangur þinn á þessu tímabili?

Mér hefur gengið mjög vel á þessu tímabili. Undanfarna mánuði hef ég fengið að leika fleiri varaliðsleiki. Þegar ég lék mína fyrstu leiki með þeim þá átti ég í vandræðum með hraða leiksins en eftir því sem ég leik fleiri leiki því betri verð ég. Ég held að mér hafi tekist vel upp í síðustu leikjum og ég nýt þess að leika með varaliðinu og ég held að það hafi bætt leik minn heilmikið, ég leik reyndar með miklu betri leikmönnum en þrátt fyrir að þetta sé miklu erfiðara þá held ég að ég sé að verða betri og betri.

Hvað finnst þér vera ánægjulegast við Akademíuna?

Það að fíflast með hinum strákunum.Það er mjög góður andi hérna og það er bara frábært að koma hingað og æfa með félögunum. Mér finnst það mjög ánægjulegt.

Og menntunarhliðin á Akademíunni?

Það er mjög mikilvægt því ég veit að ef ég næ ekki að verða atvinnumaður þá verð ég að hafa menntun. Ég er að læra fyrir gráðu í íþróttavísindum og mikið af því sem ég er að læra um þekki ég frá knattspyrnuvellinum og því haldast þessir hlutir mjög vel í hendur.

Hverja telur þú vera þína bestu eiginleika sem leikmaður?

Ég held að ég verði að bæta stökkkraftinn, ég er 1,83 metrar á hæð en sem varnarmaður þá þarf ég helst að vera aðeins stærri og þar af leiðandi verð ég að geta hoppað hærra. Einnig hef ég þurft að bæta löngu sendingarnar mínar en það hefur gengið mjög vel með þeirri vinnu sem ég hef unnið með þjálfurunum hérna.

Hápunktur ferilsins hingað til?

Það að leika á móti í Ítalíu og vera valinn maður mótsins. Ferðalög erlendis eru mjög mikilvæg því þau gefa manni færi á að kynnast öðrum menningum og það hefur bara jákvæð áhrif á okkur. En að vera valinn maður mótsins var eitthvað sem var frábært. Ég hef einnig verið fyrirliði landsliðsins nokkrum sinnum sem er einnig mikill heiður.

Geturðu sagt okkur eitthvað um feril þinn sem landsliðsmaður?

Ég hef leikið fyrir England í öllum liðum frá 15 ára og uppúr og það er mjög ánægjulegt að fá að vera með því yfirleitt leikum við fyrir framan sæmilega fjölda áhorfenda. Stemmingin fyrir leiki er alltaf mjög góð og alltaf mjög gott andrúmsloft hvar sem England leikur, þó sér í lagi hérna heima því þá fáum við betri stuðning. Ég hef leikið í Evrópumeistarakeppni landsliða og í þessum orðum töluðum er ég á leið til Egyptalands með undir 18 ára liðinu til að taka þátt í Meridian Bikarnum.

Hversu erfitt er það að halda sér á jörðinni?

Það er ekkert erfitt því ég hef ekki áorkað neinu. Þegar þú ert 25 ára og hefur leikið með landsliðinu þá getur maður horft tilbaka og sagt að maður hafi áorkað einhverju. En ég veit að fjölskylda mín og vinir munu halda mér á jörðinni alveg sama hverju á gengur.

Þú ert fyrirliði undir 19 ára liðs Liverpool hversu mikils virði er þessi aukna ábyrgð þér?

Hún er mér mjög mikils virði. Það að leiða liðið gerir mig mjög stoltan að þjálfarinn telji mig verðugan leiðtoga. Ég er ekki þessi týpa sem öskrar mikið á vellinum, reyni heldur að láta verkin tala og leiða liðið þannig.

Finnur þú fyrir stressi fyrir stórleiki?

Já, en þó ekki þannig að ég sé hræddur. Ég fæ gjarnan í magann og verð reyndar meira áhyggjufullur ef ég finn ekki fyrir þeim því þá held ég að eitthvað hljóti að vera að.

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan knattspyrnuna?

Mér finnst gaman að leika snóker og golf, reyndar spila ég bara golf á sumrin. Ég er ekki þessi týpa sem get verið á golfvellinum í öllum veðrum. Svo reyni ég að eyða tíma með vinum mínum og ég var í hljómsveit með bróður mínum. Við vorum mjög góðir meira að segja! Við spiluðum Indie rokk eins og Stereophonics og við höfum meira að segja spilað á nokkrum tónleikum. Hljómsveitin er reyndar ennþá í gangi. Ég spilaði á gítar og hef fengið að heyra það frá strákunum hérna útaf því.

Hvað myndir þú helst vilja starfa við fyrir utan knattspyrnuna?

Ef ég væri ekki að spila knattspyrnu þá myndi ég sennilega taka tónlistina alvarlegar, bróðir minn er ennþá að semja fyrir hljómsveitina, en svona fyrir utan það þá veit ég það hreinlega ekki. Mér hefur ávallt gengið vel í skólanum þannig að háskólanám væri mjög líklegt val fyrir mig ef ég væri ekki í Akademíunni. Sennilega myndi ég þá læra íþróttavísindi og byggja á þeirri menntunn sem ég hefi aflað mér hérna.

Hvaða markmið hefur þú sett þér innan knattspyrnunnar?

Að leika fyrir aðallið Liverpool og verða fastamaður þar. Þaðan myndi ég svo vonandi ná að vinna mér sæti í landsliðinu og leika fyrir England á HM.

Hjálpar það upp á sjálfstraustið að sjá stráka eins og Neil Mellor fæ tækifæri með aðalliðinu?

Það er enginn spurning. Neil hefur lat mikla vinnu að baki og er vel að því komin að fá tækifæri með aðalliðinu. Ég man vel eftir því þegar hann var að æfa með okkur í Akademíunni og það var frábært að hafa hann með okkur í liði. Hann var sá sem að hélt áfram að æfa einn eftir að allir aðrir voru hættir og honum var strítt góðlátlega vegna þess en það hefur svo sannarlega borgað sig fyrir hann. Hann er frábær náungi og við horfum allir upp til hans því hann hefur sýnt okkur að það er allt hægt ef nógu mikið er lagt á sig.

Hvaða markmið hefur þú sett þér fyrir restina af þessu tímabili?

Að byrja að æfa með aðalliðinu á Melwood eins og John Welsh og Semmy (Jon Otsemobor) eru að gera núna. Ég held að það myndi hjálpa mér að verða betri leikmaður.

TIL BAKA