| Gestapistill

Þarf skoska leikmenn til að ná topp árangri?

Í gegnum tíðina hafa verið mikil og sterk tengsl milli Liverpool og skoskra leikmanna. Ekki þarf annað en að minnast á Kónginn Kenny Dalglish en auk hans má telja upp goðsagnir eins og Alan Hansen og Billy Liddell. Þessir leikmenn auk fjölmargra annarra voru lengi á Anfield og voru þar í algjörum lykilhlutverkum. Tengslin við Skotana tala líka sínu máli. Liverpool hefur aldrei orðið enskur meistari nema þegar að minnsta kosti einn eða fleiri skoskir leikmenn hafa verið hjá liðinu.

 

Mörg bestu tímabilun voru meira að segja þannig að því fleiri Skotar því betri árangur. Á gullárum Liverpool 1976-1990 kom 31 bikar (10 Deild, 2 FA bikar, 4 Deildarbikar, 9 Góðgerðarskjöldur, 4 Evrópubikar, 1 UEFA bikar, 1 Stórbikar) í hús á Anfíeld, tveir að meðaltali á ári. Á því tímabili voru Skotar í algjörum lykilstöðum hjá liðinu og spiluðu margir þeirra nokkur hundruð leiki fyrir félagið; Allan Hansen (1977-91, 620 leikir), Kenny Dalglish (1977-90, 515 leikir), Graeme Souness (1978-84, 359 leikir), Steve Nicol (1981-95, 468 leikir), Gary Gillespie (1983-91, 214 leikir) og John Wark (1984-88, 108 leikir).
 
Í dag eru þessi tengsl rofin og hafa ekki skoskir leikmenn í einhverjum toppklassa spilað í herbúðum Liverpool lengi. Kannski fengu menn sig fullsadda af Graeme Souness sem var knattspyrnustjóri félagsins í byrjun tíunda áratugsnis og náði því næst að leggja það í rúst. Meiri skelfingar ófögnuðurinn sem sá maður var. Fækkaði þá Skotunum og voru næstum engir eftir enda gulldrengirnir orðnir gamlir og flestir hættir.

Dominic Matteo, sem var í herbúðum félagsins mest allan tíunda áratuginn, var nú varla nema hálfskoti. Seinna kom Gary McAllister og lék með liðinu 2000-02 og átti sinn þátt í fimmunni eftirminnilegu 2000-01 (FA bikar, Deildarbikar, UEFA bikar, Stórbikar Evrópu og Góðgerðarskjöldur). McAllister var þó alveg á síðasta snúningi árin tvö á Anfield.

Síðasti skoski leikmaðurinn sem lék eitthvað að ráði með liðinu var Charlie Adam tímabilið 2011-12 og þá kom Deildarbikar í hús. Adam náði ekki að festa sig almennilega í sessi og yfirgaf félagið eftir eins árs veru. Einn skoskur gutti, Danny Wilson, var hjá liðinu í þrjá vetur (2010-13) en náði ekki að komast í liðið og var mikið lánaður út og yfirgaf félagið sumarið 2013.
Þrátt fyrir að lítið hafi gengið án þess að hafa skoska leikmenn með þá er vonandi ekki hægt að segja að einhver álög hvíli á félaginu en staðreyndirnar tala þó sínu máli.


Auðvitað hefur líka náðst góður árangur án Skotanna til að mynda þegar Evrópubikarinn vannst árið 2005. Það vantar þó alltaf sigurinn í deildinni án þeirra. Er því ekki betra að hafa þá skosku með? Að minnsta kosti svona til öryggis ef eitthvað hvílir á félaginu. Eigendur félagsins ættu því að kaupa að minnsta kosti einn skoskan leikmann.

Hjalti Þórðarson
TIL BAKA