Liverpool - Newcastle maí 2001

Það er fimmtudagskvöld klukkan að verða 1900 og rennilásinn á ferðatöskunni lokast hljóðlega og allt sem í henni er hverfur í myrkrið því nú skal halda til Mekka alheimsins með viðkomu í helvíti. Í Leifsstöð eru ca 45 Púllarar að fara í þessa ferð ásamt nokkrum púkum sem eru að fara til helvítis (Manchester).

Flestir í þessari ferð eru að fara í fyrsta skipti því það er ekki hægt að fara nema einu sinni í fyrsta skiptið, held ég. Það er eins og venjulega rosa spenna í loftinu, allir að kaupa rakspíra og ilmvötn, sumir bjór og aðrir extra en það er tyggjó til að losna við helluna sem sumir fá við flugtak. Aðrir nota extra til að fela að þeir séu að drekka og sumir til að hafa eitthvað að gera á leiðinni svo sem að tyggja það. Loksins kemur seiðandi rödd í hátalarakerfið sem segir að flug til helvítis er klárt og gangið um borð. Allir rjúka á fætur og strunsa í vélina. Brátt fer þjónustan um borð í gang en það sem vakti athygli mína er að nú þarf þjónustufólkið ekki lengur að standa og benda í allar áttir um öryggisatriðin heldur horfir maður á þetta í sjónvarpi. Mér fannst alltaf gaman að horfa á flugfreyjurnar sýna þessar æfingar því þær voru svo vel rakaðar undir höndunum, báðum.

Eins og venjulega var yndislegur brauðbiti að borða ég hélt að þetta væri brauðmylsna í bakkanum en þegar betur var að gáð var þetta aðeins minna en dvergrúnstykki. En með fullri virðingu fyrir þeim var brauðið gott og tók ekki mikið pláss frá bjórnum í maganum, kannski var það triksið hjá Flugleiðum.

Jæja nú er vélin að fara að lenda í helvíti og best að fara að gera sig kláran fyrir lendingu. Klukkan er 0200 að enskum tíma og við rennum hratt í gegnum vítið. Við skiljum hinn hópinn eftir í víti ásamt Lúlla farastjóra og undirritaður tekur við farastjórninni og út í rútu og liggur leiðin til Mekka sem er ca klukkutíma akstur. Á leiðinni er farið yfir dagskrá næstu daga í ferðinni. Viti menn, skyndilega erum við komin til Mekka, klukkan orðin 0310. Undirritaður tékkar hópinn inn á hótelið sem gekk mjög vel enda góður hópur á ferð. Menn fara í háttinn snemma: 0500 eftir einn öl. Á fætur snemma í morgunmat og svo út í bæ en veðrið er mjög gott. Menn eiga að mæta í skoðunarferð kl 1245 en mönnum og konum var bent á að fara tímanlega upp á Anfield og viti menn! þeir sem það gerðu sjá ekki eftir því því að sjálfur Ian Rush var á svæðinu og fengu menn mynd og eiginhandaráritun hjá honum, ekki leiðinlegt það. Svo hófst skoðunarferðin sem var góð eins og alltaf. Eftir hana var frjáls tími það sem eftir var dagsins. Hópurinn fór í allar áttir, ýmist að versla eða fá sér öl. Ég gerði bæði enda eins gott að kaupa það sem konan bað um strax en í þetta skiptið var það ekki nema í 6 ferðatöskur. Um kvöldið fórum við nokkur saman að borða en hittumst áður á hótelbarnum og einn í hópnum sem heitir Gunnar er nauðalíkur Hyppia og á barnum voru nokkrir Írar sem sungu um leið og hann gekk inn lagið um Hyppia því þeir héldu að kappinn væri mættur. Eftir þetta var Gunni kallaður Hyppia. Svo var farið á Est Est Est en það er staður sem er niður við Albertdokk rosalega flottur og góður staður. Þar var borðaður flottur matur með öllu. Svo var farið í bæinn að skoða pöbba og diskótek. Farið inn á nokkra og svo átti að fara á Cavern Bíttlastaðinn en þá fékk ekki einn í hópnum að fara inn því hann var í strigaskóm svo hópurinn fór þá annað. Það var síðan endað á hótelbarnum og menn spáðu í leikinn sem beið daginn eftir.

Það var mætt snemma á leikdag á The Park sem er aðalpöbbinn fyrir utan Anfield og sungnir þar nokkrir slagarar að hætti Púllara. Við hittum sjálfan Pete Sampara koppara númer eitt með merkin sín og nælur. Svo var farið á leikinn og spennan jókst. Við vorum á góðum stað á leiknum. Svo var leikurinn flautaður á og allt fór í gang. Okkar menn komust yfir með marki frá Owen og staðan 1-0. Baráttan hélt áfram og ekki leið á löngu þar til Owen skoraði aftur staðan 2-0. Og ekki var allt búið: Owen skoraði aftur 3-0 og strákurinn kominn með þrennu. Liverpool 3 - Newcastle 0, endaði leikurinn. Allir fóru sáttir heim eftir leik en um kvöldið var farið út að borða á Blue-bar þar sem leikmenn koma stundum. Og viti menn! þar voru ekki ómerkari menn en Ian Rush og Robbie Fowler og að sjálfsögu varð maður að heilsa þeim en vildi samt ekki vera að trufla þá mikið þó þeir væru bara að drekka. Einn í hópnum sem er tengiliður í Keflavík var svo spenntur að fá eiginhandaráritun frá Ian Rush, enda á sama aldri, og notaði vegabréfið sitt til þess að láta hann skrifa í. Hann var svo hugfanginn að hann tók ekki eftir Fowler sem stóð við hliðina á Rush en þegar við sögðum honum frá því ætlaði hann að henda sér í Dokkina en hætti við því að það er bannað að henda rusli í Dokkina, ha ha. Hann gleymir þessu ekki; sá ekki Guð og hann stóð við hliðina á honum.

Jæja, kominn tími til að borða enda okkur gefið merki um að borðið sé tilbúið. Þvílíkur matur sem við fengum og þjónustan, ekki séns á Íslandi að toppa þetta. Svo var farið í bæinn í smástund og upp á hótelbar að spjalla. Þar kom saman góður kjarni af ferðafélögunum sem ég man ekki nöfnin á en hver öðrum skemmtilegri. Þetta var lokakvöldið svo menn tóku vel á glasi en þó í hófi. Svo var farið í háttinn og losa þurfti herbergin kl 1200 daginn eftir og eyða svo tímanum í bænum til 1630 en þá kemur rútan að sækja okkur og eftir það er klukkutíma akstur til helvítis. Það gekk vel að komast þangað en að komast þaðan í burtu tók helvítis tíma, enda staddir þar. Og ég segi það satt að þetta var eins og ég ímynda mér að sé í helvíti. Allt í pati á vellinum: seinkun vegna bilunar í skráningarborði og þvílíkur tími að skrá enda tvær 9 ára stelpur að vinna við skráningu sem vildu vita hvort maður hefði pakkað niður í töskuna sjálfur eða einhver annar. Svo tókst að skrá alla og við tók önnur bið þar sem áhöfn vélarinnar var ekki hleypt inn, vegna hvers veit enginn en að lokum var opnað fyrir þeim og við fórum í strætó út í flugvél en ekki komust nema 5 í einu í vagninn svo fara þurfti nokkrar ferðir. Þvílíkt og annað eins!, en að lokum komumst við í burtu úr helvíti og flugstjórinn baðst afsökunar á þessari seinkun en hann fékk ekki skýringu á hvers vegna hún varð. En gott var að vera á leiðinni heim, alltaf gott að komast heim í bólið sitt. Þessi ferð var eins og allar hinar vel heppnuð og allir sáttir sem ég talaði við. Að lokum vil ég þakka öllu fyrir frábæra ferð og vil ég ekki nefna neinn sérstakan í þessari ferð því allir voru frábærir sem gerði farastjórn mín auðvelda og allir boðnir og búnir til að hjálpa mér. Vona ég að ég eigi eftir að sjá ykkur öll sem fyrst í næstu ferðum okkar.

Með söknuði og kveðju
Jósep Svanur

TIL BAKA