Liverpool - Leeds, febrúar 2000

Klukkan er 06:30 á föstudagsmorgni 4. febrúar og um 80 Púllarar eru í þann veginn að gera sig klára í ferð til Mekka alheimsins sem heitir Anfield og er í Liverpoolborg. Farastjórar í ferðinni eru Lúlli frá Úrval-Útsýn, Jósep Svanur og Héðinn frá Liverpoolklúbbnum á Íslandi. Flogið er frá Keflavíkurvelli og þar hópast menn saman misspenntir og eitt afmælisbarn er í hópnum. Sigurður heitir hann og er að fara í fyrsta skipti til Mekka-Anfield. Í flugvélinni er verið að ræða um Liverpool og leik okkar manna við Leeds og fara menn hóflega í að spá úrslitum leiksins tölur heyrast eins og 2-1, 2-0, 1-1,1-0 og liðsskipanin var líka rædd. Flugið til Liverpool tekur um 150 mín. Í vélinni voru líka man utd menn ca 45 stk og fór lítið fyrir þeim enda vorum við Púllararnir í meirihluta og getum sungið og haft hátt ef þess er óskað. Flugið var mjög gott og þjónustan var einnig góð um borð í vélinni.

Þeir sem til þekkja vita að flugvöllurinn í Liverpool er ekki mjög hraðvirkur eða hraðgengur. Eftir smá bið á í flugstöðinni í Liverpool kom loksins farangurinn inn við mikinn fögnuð eigenda. Þá var haldið áleiðis í átt að hótelinu sem við gistum á og var farið þangað í tveimur rútum og það tekur um 30 mín að aka að hótelinu sem heitir Swallow Hotel og er 4 stjörnu í miðbæ Liverpool, frábært hótel og mælum við ferðalangarnir með því. Mjög skemmtileg lyfta þar sem segir þér allt sem gerist í lyftunni eins  og hurð lokast , hurð opnast og líka, hæð 1,hæð 2 , ……. Var sumum brugðið þegar þeir komu á herbergin sín því að á sumum þeirra var aðeins hjónarúm með einni stórri sæng. Þetta hótel er í alla staði til fyrirmyndar, góður og glæsilegur morgunmatur og snyrtileg herbergi og að sjálfsögðu góður bar fyrir hótelgesti. Þar var oft setið og spjallað fram eftir nóttu um allt milli himins og jarðar en sumir voru kátari en aðrir og fóru í bæjarrölt að skoða menninguna að ég held. Föstudagurinn gekk áfallalaust fyrir sig enda prúðir púllarar á ferð. Fararstjórarnir mættu í morgunmat kl:09:00 allir þrír hver öðrum sprækari að okkur fannst. Laugardagur: stundin komin, Leikdagurinn sjálfur.

Í hópnum voru um 45 nýliðar að fara á Anfield í fyrsta sinn og var ekki laust við að menn væru með skjálfta í hnjánum og mikinn spenning enda stórt skref að koma á Anfield. Dagurinn tekinn snemma, menn komnir 3-4 tímum fyrir leik enda nóg að skoða fyrir utan Anfield. Beðið var með eftirvæntingu eftir að rútan kæmi með leikmenn á völlinn og þess var gætt að fólk væri ekki með læti af lögreglumönnum og konum á hestum sem sumir skildu eftir sig miður lyktandi úrgang þ.e.a.s. hestarnir. Loksins var hleypt inn á völlinn og eftir skamma stund tók fólk að streyma á völlinn, smásaman fylltist Anfield og áður en flautað var til leiks voru 45.324 mættir. Rétt áður var söngur okkar allra You´ll never walk alone sunginn og fékk maður þá hroll um allan kropp. Við vorum í Lower Anfield Road sem er á móti The Kop vinstra megin séð frá okkur, náðuð þið þessu? Leikurinn er flautaður á, allt trylltist og strax er farið að syngja á vellinum, ekki biðum við lengi eftir fyrsta markinu  Hamann með þrumu fleyg eftir aukaspyrnu, loks jafnaði Leeds gott mark líka. En þá var komið að Berger þvílíkt mark hjá þessum  framsóknarfættamanni 35 metra fleygur í hornið uppi. Í lokin var komið að Murphy nokkrum og látið vaða á 35-40 metrum og boltinn söng í samskeytunum,  þvílíkt mark! og staðan 3-1 og rétt eftir þetta var flautað til leiksloka, frábær leikur og stemmingin ólýsanleg eða eins og einn í hópnum sagði ég á ekki til orð og talaði í 20 mín eftir það. Allir sem voru að fara þarna í fyrsta skipti sögðu að þetta hefði verið miklu meiri stemming en þeir hefðu ímyndað sér og ekki væri hægt að lýsa henni . Svo var haldið niður á hótel að gera sig klára í að hitta Liverpoolmenn á bar sem stuðningsmenn þeirra sækja. Þegar þangað kom var ekki allt eins og við væntum, 3 púllarar á besta aldri og 7 Everton menn á aldrinum 75 - 96 ára og 15 Þjóðverjar sem vissu ekki hvað fótbolti var en vissu allt um GAS. Þar var stoppað stutt og fóru menn fljótlega út um hvippin og hvappin en flestir fóru á barinn á hótelinu að spjalla saman um leikinn í sigurvímu eftir besta leik sem farið hefur verið á að sögn Lúlla og hefur hann farið 8 sinnum á Anfield aldrei séð tapleik þar og mæli ég með því að Lúlli fari alltaf með á leiki. Einn úr hópnum þurfti að kaupa eitthvað við brjóstssviða og fór niður í lobby og sagði "Where can I buy DRUGS” við litla hrifningu stúlknanna á hótelinu en gat síðan leiðrétt þennan misskilning um þetta eftir að brúnin var farin að síga ískyggilega á starfsmönnum hótelsins. Annar var að bíða eftir lyftunni á 5. hæð þegar hún stoppar og hann stígur inn og segir við fólkið í lyftunni "are you going op or down ” ,var þá svarað” við erum á leiðinni niður”. Við lærðum líka nýyrði sem er  "ponk my horn” sem þýðir” kysstu æðri endann á mér neðarlega”. Einn var frekar grannur og var í flíspeysu og gekk undir nafninu pípuhreinsarinn. Einn var í svo mikili sigurvímu að hann fór á Burger King og bað um Berger King með öllu. Annar bað um Liverpool dress í búðinni við mikin hlátur starfsmanns þar enda dress fyrir konur.  Menn skemmtu sér vel þetta kvöld enda ástæða til eftir frábæran leik og stemmingu er hægt að biðja um meira ég segi nei. Sunnudagurinn komin og farastjórarnir komnir í morgunmat kl 09:00 ofsa hressir ef miðað er við heilsulausa aumingja annar raddlaus og hinn hás allt þetta eftir söng þeirra á leiknum daginn áður og hafa þeir vottorð upp á það. Annars allir hressir ef undan skilinn er þessi með brjóstssviðan sem vældi allan tímann.

Þá var ferðin um Anfield og Mekka allt saman runnin upp sú heitir skoðunarferð um Anfield. Þar var farið yfir völlinn hvað hver stúka heitir og búningsklefar leikmanna skoðaðir og að sjálfsögðu leyft að taka myndir sem var gert í miklum mæli af öllum og  ýmis fróðleikur þessu tengdur fékk að fjúka með, svo sem að stækka ætti Anfield um 8000 sæti fyrir næsta tímabil. Í góðri ferð um Anfield var síðan endað á að skoða verðlaunasafnið og aðrar minjar um Liverpool besta lið allra tíma ekki vafi. Sumir fóru í búðina á Anfield og hittu þar Hyypia við mikinn fögnuð, teknar myndir og hann skrifaði á allt fyrir menn og gaf sér góðan tíma til að fylla óskir allra Púllara, góður gaur þar.

Nú var farið að hugsa um heimleiðina, fara niður á völl og allt það, þegar þangað var komið var eins og áður allt handskrifað í bókuninni. Löng bið þar í vændum en viti menn birtist þá ekki Westerveld markvörðurinn snjalli það greip um sig geðshræring á vellinum, allir urðu 9 ára aftur, maðurinn eltur um allt og teknar myndir og hann beðinn um að skrifa á blöð,myndir, bolta, boli, svo teknar myndir með öllum sem vildu, frábær gaur þar líka. Nú bíða menn spenntir eftir að geta montað sig af þessum myndum ég geri það allavegna, það er víst. Nú var sest á barinn og slappað af, hugsað heim til þeirra sem ekki gátu farið með í þessa frábæru ferð, önnur eða aðrar ferðir farnar svo nú er að bóka sig snemma ekki bíða eftir að uppselt verði. Vil ég nota tækifærið og þakka fyrir mig og vil ég þakka sérstaklega eftirtöldum, Högna og Írisi frá Stykkishólmi, feðgunum frá Akureyri og að sjálfsögðu öllum hinum sem voru í ferðinni. Vona ég að fyrir hönd Liverpoolklúbbsins á Íslandi höfum við staðið okkur vel hvað þessa ferð varðar og allir séu sáttir með ferð þessa og fararstjórn í þessari ferð. Takk fyrir mig.

Jósep Svanur Jóhannesson fararstjóri og ritari Liverpoolklúbbsins á Íslandi.

TIL BAKA