Ferð á Anfield 17 - 21 mars 1995

Fimmtudagskvöldið 16.mars hittist hópurinn alls 33 manns í Ölveri til að kynna sig, sýna sig, og sjá aðra ferðafélaga. Menn fengu sér bjór og spjölluðu um gengi Liverpool sem af er tímabilinu. Horft var á videospólu með nokkrum góðum mörkum frá Liverpool, en það var gert svona rétt til hita menn upp fyrir heimsókn okkar á Anfield Road. Síðan var hópnum kynnt ferðaáætlun. Það var einnig ákveðið að vera með veðmál í gangi, menn áttu að spá fyrir um úrslit leiksins Liverpool-Man.Utd. og hver skoraði fyrsta markið. Hver og einn lagði 5 pund undir. Svo var bjórinn kláraður og haldið heim til að klóra að pakka Liverpool fötunum saman.

Föstudagsmorguninn 17.mars var allur hópurinn mættur kl.8 í Leifsstöð en brottför ekki áætluð fyrr en 9:05 svo hópurinn ryðst inn í fríhöfnina. Allmargir fóru beint að versla fyrir konurnar, mömmurnar eða tengdó (Sumir þurftu að vinna sér inn punkta). Aðrir fóru að sjálfsögðu beint á barinn og pöntuðu að sjálfsögðu CARLSBERG en hann var ekki til. "því miður": sagði barþjónninn og brosti breitt framan í vel merkta Liverpoolmenn um leið og hann skellti Holstein á borðið. Hann var örugglega Tottenham aðdáandi (glataður). Ótrúlegt en satt!

Liverpoolklúbburinn er kominn til London. Á Heathrow beið rúta eftir okkur sem tók okkur á Regent Park Marriot hótelið en hótelið reyndist vera mjög gott, herbergin mjög rúmgóð og hugguleg þar sem aðal lúxusinn var buxnapressa en hún er víst 5 stjörnu stimpillin sem hótelið hefur. Seinnipart föstudagsins notuðu menn svo til að skoða sig um á Oxfordstræti og testa VISA kortið gagnvart enskum strauvélum. Um kvöldið ákvað hópurinn svo að kanna næturlíf Lundúnaborgar nánar og var stefnan tekin á Piccadilly. Nú var pantaður heill floti leigubíla til að ferja mannskapinn og var það Mr.Johnson sem stóð í ströngu við að útvega bílana en Mr.Johnson var aðal reddarinn á hótelinu og átti eftir að reynast okkur Liverpoolmönnum vel það sem eftir var ferðar. Á Piccadilly hópuðu menn sig saman, röltu um og komu víða á pöbba, næturklúbba, rauðahverfið, Soho og veitingastaði. Fyrsta kvöldið í London heppnaðist vel.

Klukkan er 12:00 það er laugardagurinn 18.mars. Hópurinn er á leið á Whitehart lane til að sjá Tottenham-Leicester. Við vorum um klukkutíma að fara frá hótelinu á völlin. Við tókum undergroundið frá Swiss Cottage til Seven Sisters en þaðan lest til Whitehart lane. Til gamans má geta að hópurinn er til á myndbandi hjá óeirðalögreglunni í London en hún myndar alla þá sem koma með lest til og frá Whitehart lane svo auðveldara sé að þekkja menn ef eitthvað kemur uppá. Frá klukkan 13:00 til 14:30 voru menn að flækjast um svæðið í kringum leikvanginn, á pubbum, skoða minjagripaverslun Tottenham eða útí skógi að fela bjór en það er að sjálfsögðu bannað að vera með áldósir og hverskonar dót sem hægt er að slasa fólk með. Leikurinn var ágætur Tottenham sigraði 1-0, með marki Jurgens Klinsman. Aðal setning dagsins var "Come on you Darren" en þeirri setningu mun einn austfirðingurinn aldrei gleyma. Komið var á hótelið um 7:30 frá Whitehart lane en þá fóru menn í betri fötin og skelltu sér á Piccadilly að borða góðan mat og skemmta sér en á morgun er stóri dagurinn.

Það er 19.mars og við erum að fara til Liverpool. Hópurinn er staddur á brautarstöðinni Euston. Allir eru uppá klæddir með Liverpool húfur,trefla, boli og að sjálfsögðu er Íslenski fáninn með. Þegar við komum til Liverpool var klukkan að verða tvö. Lestarferðin tók 3 1/2 tíma. Við erum komnir, Anfield Road blasir við. (Draumurinn hefur ræst.) Leikur dagsins er Liverpool - Man.Utd. Meðan sumir skoðuðu bikarsafnið og aðrir voru að borða pylsur og annan breskan mat voru aðrir sem biðu og biðu. Loksins tókst okkur að koma öllum saman og þeir sem voru gallharðir Liverpool menn létu ekki langa biðröð í minjagripaversluninni stoppa sig af. Það var keypt allt milli himins og jarðar í versluninni. Það eru 15 mínútur í leik og það er best að maður komi sér í sætið sitt. Það er rosaleg stemming á vellinum. Flestir í hópnum reyndu að syngja með hinum bresku aðdáendum Liverpool með misjöfnum árangri en hópurinn var allur mjög fljótur að læra eitt ákveðið orð sem Liverpool aðdáendur sungu eftir að áhangendur Man.Utd voru búnir að stynja upp Man.Utd. þá öskruðu allir á Anfield "SHIT, SHIT, SHIT". Dómari, línuverðir og leikmenn ganga inn á völlinn. Stemmingin er rosaleg. Leikmenn Liverpool eru rosalega vel stemmdir. Þeir eiga alla skallabolta og öll návígi. Þeir ætla ekki að tapa. Og það hafðist Liverpool sigraði 2-0 með mörkum frá Redknapp og skoti frá McManaman sem fór í Steve Bruce og þaðan í markið fram hjá svekktum Scmeichel.

Þvílík gleði, þvílík stemming er á Anfield Road. Hópurinn tárast og tekur undir með öllum á Anfield sem syngja "Always look on the bright side of life. du dudu dudududu du." Svo tók við hraðferðin frá Anfield Road til lestarstöðvarinnar. Sem betur fer komust allir með ( haha ). Við vorum ekki lengi að kaupa upp barinn í lestinni og nú átti að halda ærlega upp á sigurinn . Þess má geta að 5 úr hópnum voru með rétt í veðmálinu. Þrír voru með rétt úrslit og tveir voru með rétt hver skoraði fyrsta markið í leiknum. Hver og einn fékk um 33 pund í sinn vasa. Það var haldið áfram að skemmta sér þegar við komum til London um kvöldið og var vakað lengi fram eftir morgni og skemmt sér vel.

Snemma á mánudeginum fóru 5 gallharðir Liverpool aðdáendur aftur til Liverpool til að versla meira og skoða bikarsafnið, búningsklefana, THIS IS ANFIELD göngin og leikvangin sem er rosalegur. Einnig hittum við Ian Rush og Roy Evans rétt áður en við fórum sýningarferðina um Anfield Road, þess má geta að uppselt var allan daginn í þessar skoðunarferðir en nafnspjaldið sem Magnús fararstjóri lét mig hafa frá sér virkaði rosalega. Það var bara útbúin ein aukaferð um Anfield Road. Þessir tveir dagar í Liverpool verða ógleymanlegir. Meðan við fimmmenningarnir vorum í Liverpool var meginþorri hópsins að nota visa kortin sín og versla í miðborg Lundúna.(Alltaf gott að vinna sér inn punkt hjá konunum). Á mánudagskvöldið fóru svo flestir á Planet Hollywood veitingastaðin að fá sér að borða og notuðu svo restina af kvöldinu til að pakka niður. Þetta er búin að vera meiriháttar ferð.

Menn vöknuðu snemma á þriðjudagsmorguninn til að koma sér í miðbæinn og versla, strauja VISA kortin aðeins meira. Það kom rúta upp á hótel sem keyrði okkur út á flugvöll. Rútan mætti tímanlega, klukkan er 13:30. Rútubílstjórinn reyndist vera gallharður Man.Utd. aðdáandi. Hann var með Man.Utd. merkið tattóverað á handlegginn. Vegna taps Man.Utd. gegn Liverpool og það að við vorum Liverpool aðdáendur sýndi hann ekkert nema myndbönd með Man.Utd. á leiðinni út á flugvöll, en við flugum frá London til Glasgow með British Midland.

Við lentum í Glasgow um hálf sjö en brottför til Keflavíkur var um 20:05. Í fríhöfninni í Glasgow gafst hópnum síðasta tækifærið til að nota VISA kortið í útlöndum. Hópurinn var komin til Keflavíkur um kl. hálf ellefu. Þessari stórkostlegu ferð okkar til Liverpool er lokið og þvílík ferð, þetta verður ógleymanlegt.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka fararstjóranum Magnúsi V.Péturssyni fyrir frábæra ferð og vonandi á Liverpool klúbburinn í samvinnu við Magnús eftir að fara í fleiri ferðir til Liverpool á komandi árum. Einnig vil ég þakka öllum þeim sem fóru með okkur í þessa ferð fyrir frábæra skemmtun, því að mórallin í hópnum var mjög góður. Að lokum vil ég segja við hópinn sem fór út með Liverpool klúbbnum. Ég vona að við eigum eftir að hittast einhvern tímann aftur. ( kannski í næstu ferð. )

Jón Óli Ólafsson meðlimur nr:2
ISC NO: 13731

TIL BAKA