Árshátíð 2000

Árshátíðin á Ölver og í Valsheimilinu tókst með miklum ágætum og ég held að það megi fullyrða það að ungir sem aldnir púllarar skemmtu sér konunglega. Alls mættu tæplega 70 manns um kvöldið í Ölver og vorum við mjög sáttir við þá tölu og varla hægt að ætlast til betri mætingar en þessi áhugi á kvöldinu sýndi okkur að það er góður grundvöllur fyrir að gera þetta að árvissum atburði. Arngrímur formaður bauð gesti velkomna og síðan tók Jósep Svanur ritari stjórnar við og stýrði mannskapnum af röggsemi og fór hreinlega á kostum í hlutverki sínu sem veislustjóri kvöldsins. Matthías annar stofnandi klúbbsins rakti tæpa 6 ára sögu klúbbsins þegar hann loksins fann ræðuna sína og happdrættisvinningar voru fjölmargir og fékk rúmlega helmingur gesta vinning og er það alls ekki slæmt vinningshlutfall. Maggi P. fyrrum milliríkjadómari sem ræðir nokkrum sinnum í viku við Peter Robinson varastjórnarformann Liverpool hafði frá nógu að segja þegar hann tók við vinningnum sínum og Kiddi söngvari hampaði Steve Staunton hæfileikapakkanum sem var reyndar tómur en hann fékk í sárabætur gamaldags-Liverpoolpeysu. Siggi einn af fjórum sem sat við sama borð hlaut svo STÓRA vinninginn - ferðina á Liverpool-Leeds leikinn og ekki leiddist honum það enda aldrei komið á Anfield og var því tími kominn til. Maturinn fór vel í menn sem og mjöður og snafsar sem fylgdu með og allir skildu sáttir. Steini fréttaritari var eltur á röndum af villtum púllurum sem vildu gera hvað sem er til þess að toga upp úr honum hver væri sá líklegasti sem kæmi til Anfield í sumar en nafninu á leikmanninum sem okkur hefur verið greint frá að sé mjög líklegur til þess að koma ætlar Steini að halda fyrir sjálfan sig enn um sinn. Björgvin fékk sérstök verðlaun en hann lét loksins vaða í síðustu ferð og skellti sér á Anfield með okkur og lagði hann meira á sig en aðrir vegna fötlunar sinnar en hann er bundinn í hjólastól - nú hefur enginn góða og gilda afsökun fyrir því að hafa ekki farið á Anfield. Jón Ásgeir Gestsson á svo sannarlega skilið að vera nefndur sérstaklega á nafn en hann gerði sér ferð hingað suður til þess að vera með okkur um kvöldið og geri aðrir betur! Vonandi sjáum við fleiri landsbyggðarpúllara á næstu hátíð - um að gera að skella sér - við getum lofað því að það verður fyllilega þess virði.

 

 

 

Hér eru svo nokkrar útvaldar myndir af kvöldinu...


Baldur barþjónn sá um að heilla veigum í glösin fyrir þyrsta púllara!

Jón Ásgeir Gestsson, tengiliður klúbbsins á Akureyri mætti galvaskur í stórborgina ásamt frú.

Jósep Svanur veislustjóri, greinilega í miklum pælingum að hugleiða hvaða brandara hann eigi að segja næst.

Kristinn söngvari mætti auðvitað á svæðið og tók You'll Never Walk Alone eins og honum er einum lagið!

Maggi V. Pétursson, hinn alræmdi knattspyrnudómari mætti á svæðið og sagði okkur nokkrar skemmtilegar sögur af ferðum sínum á Anfield.

Hérna fremsta á mynd má sjá Sigursteinn Brynjólfsson vinstra megin og Guðmund Magnússon (Mumma) hægra megin. Fyrir aftan Mumma sést í Gest Guðnason sem er tengiliður klúbbsins í Borgarnesi.

Hann Siggi vann stóra vinningin í happdrættinu, sem var ferð á Liverpool - Leeds nú í febrúar.

Hérna má sjá stjórn Liverpoolklúbbsins á Íslandi. Frá vinstri: Sigursteinn, Evert (stendur fyrir ofan), Héðinn, Jósep Svanur, Kristbjörn, Arngrímur og Guðmundur. Flottur bakgrunnur!

Það tóku auðvitað allir undir þegar við sungum You'll Never Walk Alone. Menn voru ósparir við að rétta hendur í loft til að fá rétta stemningu í salinn.

TIL BAKA