Fjögurra manna fjölskylda á Anfield 23. okt 2004

Sumarið er að renna sitt skeið á enda og skólinn byrjaður. Daglegt líf að falla í fastar skorður og tímabært að skipuleggja haustið. Vetrarfrí er í skólanum 25.-26.október og þá er tilvalið að gera sér dagamun. Upp kom hugmynd í tilefni af 10 ára afmæli Liverpool-aðdáanda fjölskyldunnar að skreppa á fótboltaleik á Anfield. Liverpool á heimaleik gegn Charlton 23. október.

Sendar voru fyrirspurnir um gistingu, spáð í lestarferðir og ódýrasta flugið og kannað með miða á Anfield. Við fengum fjölskylduherbergi á Sir Thomas Hotel í Liverpool fyrir 80 pund nóttina og á Euston Plaza í London fyrir 149 pund nóttina. Lestarmiða fengum við á 88 pund milli London og Liverpool fram og til baka eftir að hafa keypt fjölskyldukort sem gildir í ár í öllum lestarferðum á 20 pund. Lestargjaldið frá Stanstead inn í London kostaði 23 pund. Við settum okkur í sambandi við Liverpool-klúbbinn á Íslandi sem tók vel í að útvega okkur miða á Anfield. Það stóð allt eins og stafur á bók og klúbbnum til sóma. Með góðra vina hjálp fengum við líka miða á Old Trafford á leik Man.Utd. og Arsenal sunnudaginn 24.okt.

Það var tilhlökkun og spenningur er við héldum af stað snemma morguns föstudaginn 22. október. Flugið gekk vel og lentum við um kl.11:45 á Stanstead. Næst tók við lestarferð með Stanstead Express til Liverpool station í London, áfram með neðanjarðarlestinni til Euston-station þar sem við áttum pantað far með lest til Liverpool kl. 14:18. Á Euston-stöðinni sóttum við lestarmiðana í miðasjálfsala sem áður höfðu verið pantaðir og gekk það allt vel. Lestarferðin gekk ljómandi vel og vorum við komin til Liverpool um kl. 17:00. Eftir stutta afslöppun fórum við út að borða og síðan var farið snemma í háttinn.

Að morgni laugardags var skóflað í sig morgunverði og rölt í bæinn. Stefnan var tekin á Liverpool-búðina í miðbænum og þar var margt spennandi að sjá. Með nokkra poka undir hendi héldum við áfram rölti um göngugötur Liverpool-borgar fram til kl. 14:30, en þá var haldið á Anfield. Starfsmaður á hótelinu hafði boðist til að keyra okkur og þáðum við það með þökkum. Þá hófst leitin að manninum með miðana. Á Park-pöbbnum beint á móti aðalinngangi á Anfield hittum við Jón Óla frá Liverpool-klúbbnum á íslandi. Eftir kaldan bjór og spjall héldum við yfir á Anfield. Ætlunin var að bóka þátttöku í skoðunarferð um Anfield á mánudagsmorgun, en það gekk ekki. Allt upptekið fram eftir vikunni.

Klukkutíma fyrir leik var ekki margt um manninn á áhorfendapöllum. En það átti eftir að breytast og það snögglega. Við gátum valsað um allt meðan leikmennirnir hituðu upp á vellinum. Grasið á vellinum er ótrúlega flott, eins og nýtt teppi. Stuttu fyrir leik fylltist völlurinn af fólki. Leikmenn skunduðu inná völlinn, þeir kynntir og síðan tók við 40 þúsund manna kór og söng “You’ll never walk alone”. Ógleymanlegt. Síðan hófst leikurinn. Einhvern veginn fannst manni þetta vera allt öðru vísi en þegar horft er á leik í sjónvarpinu. Umgjörðin í kringum leikinn er gríðarlega skemmtileg og stuðningshópurinn á “The Kop” er frábær. Okkar menn léku við hvern sinn fingur, Hyypia kóngurinn í vörninni og Baros og Cisse eins og rakettur. Hrein unun að sjá hvað þeir búa yfir mikilli tækni á þessum ótrúlega hraða. Yfirburðir Liverpool voru algjörir, Charlton komst varla fram yfir miðju. Og svo kom fyrsta markið, gott skot frá Riise rétt fyrir utan teig. Dúndur mark og “the KOP” tók rækilega við sér sem og aðrir stuðningsmenn. Seinna markið skoraði Garcia, sannkallað draumamark, gullfallegt. Þá varð allt vitlaust. Ógleymanleg stund og frábær stemming. Að leik loknum hurfu áhorfendur jafnskjótt og þeir komu.

Eftir leikinn fylgdumst við með Charlton-leikmönnum yfirgefa Anfield og náðum tali af Hemma Hreiðars. Á eftir fylgdumst við með þegar Liverpool leikmenn yfirgáfu Anfield. Þeir voru í góðri gæslu lögreglu og öryggisvarða á rammgirtu svæði þar sem engum var hleypt inn. Áhangendur reyndu allt hvað þeir gátu að fá eiginhandaáritun en ekki voru allir leikmenn í þeim gírnum. Baros og Kewell björguðu kvöldinu með að gefa okkar manni eiginhandaáritun á leikskrána sem verður geymd vel og lengi.

Sunnudagsmorgunn. Við áttum bókað far með lest kl. 11:00 til Manchester og tók ferðin um 40 mínútur. Við kíktum aðeins á göngugötuna í Manchester og tókum síðan “Metro” (lest) til Old Trafford. Þar lentum við strax inn í 17. júní stemmingu (skrúðgöngu), allt fullt af fólki og öryggisgæsla mikil, enda engin venjulegur leikur framundan, Manchester – Arsenal (2:0). Þetta var gríðarleg upplifun, allt mikið stærra og fjölmennara en við höfðum áður upplifað á Anfield. Eftir leikinn fengum við okkur að borða í Manchester og tókum svo lest til baka til Liverpool.

Léttur mánudagsmorgunn á strætum Liverpool-borgar og upp úr hádegi vorum við aftur komin í lest á leið til London. Hentum dótinu inn á hótel og heimsóttum Hamleys dótabúðina. Þar flaug tíminn enda margt og mikið að sjá. Daginn eftir heimsóttum við Buckingham höll, gengum framhjá þinghúsinu, Big ben, Nr. 10 og auðvitað var kíkt á Oxford street. Um kl. 16 tókum við leigubíl frá hótelinu út á flugvöll og flugum heim.

Frábær ferð á enda. Margt skemmtilegt bar á góma á stuttum tíma, tíðar lestarferðir en upp úr stóð tveir frábærir knattspyrnuleikir. Fyrsta fótboltaferðin að baki en örugglega ekki sú síðasta.
Áfram Liverpool

TIL BAKA