| Sf. Gutt

Sami langar til að vinna bikarinn aftur

Sami Hyypia sem var fyrirliði Liverpool þegar liðið vann F.A. bikarinn síðast vill fyrir hvern mun vinna þennan góða grip aftur. Sami leiddi Liverpool til leiks í Cardiff gegn Arsenal vorið 2001. Hann varð reyndar þriðji fyrirliði Liverpool þá. Jamie Redknapp var fyrirliði en meiðsli komu í veg fyrir að hann gæti leikið. Robbie Fowler var varafyrirliði. Hann hóf leikinn á varamannabekknum en kom reyndar inn á. Sami á góðar minningar frá sigri Liverpool á Arsenal. Liverpool sneri þá töpuðum leik í sigur með því að skora tvö síðbúin mörk. Michael Owen jafnaði á 83. mínútu og tryggði svo sigurinn á 88. mínútu. Það muna allir stuðningsmenn Liverpool eftir þeim endalokum!

,,Þetta var einn ótrúlegasti leikur sem ég hef tekið þátt í. Það var ótrúlegt að skora tvö mörk og vinna leikinn eftir að hafa átt undir högg að sækja í 80 mínútur. Allir muna hversu mikil gleði ríkti meðal okkar eftir þann leik. Þegar ég hugsa til baka til þessa leiks þá er ég enn ákveðnari í að vinna F.A. bikarinn aftur. Við höfum fengið frábært tækifæri upp í hendurnar til að vinna til verðlauna og færa bikarinn heim. Við viljum fyrir alla muni vinna bikarinn og allir eru að einbeita sér að leiknum á laugardaginn. Við munum ekki vanmeta mótherja okkar. En ef við leikum eins og við höfum verið að leika síðustu mánuðina ætti allt að geta gengið að óskum."

Sami er einn af fjórum leikmönnum Liverpool sem geta orðið bikarmeistarar í annað sinn á laugardaginn. Hinir eru þeir Jamie Carragher, Steven Gerrard og Dietmar Hamann. Robbie Fowler var auðvitað líka í sigurliðinu vorið 2001 en hann lék einn leik með Manchester City á þessri leiktíð. Hann skoraði þá þrennu þegar City lagði Scunthorpe United að velli 3:1. Sá leikur gerir það að verkum að Robbie er ekki löglegur gegn West Ham United. En Robbie verður þess í stað einn af Tólfta manninum á áhorfendastæðunum!!


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan