The Kop

 

Hér áður fyrr voru andstæðingar Liverpool skjálfandi á beinunum er þeir komu til Anfield Road. Völlurinn virtist óvinnandi virki og andstæðingarnir eygðu litla von um sigur. Aðdáendur Liverpool áttu mikinn þátt í að skapa þetta ógnvekjandi andrúmsloft og hvergi var hávaðinn meiri en í "The Kop".

Liverpool hefur alla tíð frá stofnun félagsins árið 1892 leikið á Anfield Road og félagið á fæðingu sína þessum leikvangi að þakka. Einn hluti þessa magnaða leikvangs er öðrum hlutum hans frægari. Hér er um að ræða áhorfendastæðin sem ganga undir nafninu The Kop. Kop áhorfendastæðin heita eftir samnefndri lítilli hæð í Natal héraði í Suður Afríku. Þessi hæð var vígvöllur einnar af fjölmörgum orustum hins blóðuga Búastríðs. Þann 24. janúar árið 1900 voru þrjár herdeildir Lancashire- og Merseysidehéraðs allt að því þurrkaðar út í orrustu þar. Liverpoolborg varð einkum fyrir áfalli þessu þar eð meirihluti þeirra er féllu í valinn í þessari orrustu voru frá borginni og nærsveitum. Alls munu á fjórðahundrað manna hafa fallið í orrustunni. Þessi hæð var kölluð "Spion Kop" á tungumáli heimamanna "afrikaans". Mun það þýða sjónarhæð eða eitthvað í þá átt.

Vorið 1906 varð Liverpool enskur meistari í annað sinn. Forráðamenn Liverpool vildu gjöra vel við stuðningsmenn sína og bæta aðstöðu þeirra. Strax eftir leiktíðina, vorið 1906, var ráðist í miklar endurbætur á Anfield Road. Meðal annars voru reist ný áhorfendastæði, sem tóku um 25.000 áhorfendur, við þann enda leikvangsins sem snýr að Walton Breck götunni. Ernest Edwards, ritstjóri íþróttafréttadeildar Liverpool Daily Post and Echo, stakk upp á að kalla nýju áhorfendastæðin á Anfield, "The Kop" til minningar um þá sem létu lífið á "Spion Kop". Nafnið festist við og hefur þessi endi leikvangsins gengið undir þessu nafni alla tíð síðan.

Þegar The Kop var reist árið 1906 voru stæðin án þaks en sumarið 1928 voru þau endurnýjuð og mikið þak byggt yfir þau. Stæðin voru þá þau stærstu á Englandi undir einu þaki. Með þakinu varð hljómburðurinn betri og andstæðingar Liverpool fengu áfall er þeir heyrðu hinn mikla hávaða sem barst frá "The Kopites" en svo voru þeir kallaðir sem voru fastagestir á The Kop. Stúkan var 80 metra á breidd og þakið var í 22 metra hæð.  Þar voru 94 handrið, sem áttu að koma í veg fyrir að áhorfendur myndu hrynja ofan á hvern annan. Alls gegnu 34 hlið að stæðunum. Talið er um 50 milljónir áhorfenda hafi farið í gegnum þau inná The Kop þau 88 ár sem The Kop var og hét. Þegar best lét gátu um 28.000 áhorfendur staðið á The Kop. 

Frægð The Kop óx sem aldrei fyrr á sjöunda áratug síðustu aldar. Nokkrir samverkandi þættir tvinnuðust þar saman. Þar mætti kannski aðallega nefna velgengni félagsins og hið öfluga tónlistarlíf í borginni. Fólk fór líka, á þessum árum, að taka með sér rauða og hvíta trefla, fána og borða þegar það mætti á Anfield Road til að hvetja liðið sitt. Yfirum og allt um kring svifu svo hin gríðarlegu áhrif Bill Shankly. Strax við valdatöku sína í desember 1959 biðlaði hann til stuðningsmanna Liverpool sem hann taldi vera óbeislað afl sem nauðsynlegt væri að virkja í þágu félagsins. Aldrei hefur neinum framkvæmdastjóra tekist eins vel upp hvað þetta varðar. Sambandið milli Bill Shankly og The Kop var töfrum líkast. Vart mátti á milli sjá hvor aðilinn dáði hinn meira. Þetta var fullkomin sambúð!

Næstu breytingar á The Kop komu ekki til af góðu. Í kjölfar harmleiksins á Hillsborough þann 15. apríl 1989, þegar 96 stuðningsmenn Liverpool létust, voru samdar reglur sem miðuðu að því að tryggja öryggi áhorfenda á knattspyrnuleikvöngum Englands betur. Eitt meginatriðið í þessari reglugerð, sem var jafnan kölluð "Taylor skýrslan", var að stæði á leikvöngum skyldu aflögð og sætum komið fyrir í þeirra stað. Hefðin var sú á Anfeild Road, sem og á öðrum heimavöllum á Englandi og víðar, þar sem harðasti kjarni stuðningsmanna hafði svo áratugum skipti komið saman að menn vildu fremur standa til þess að hvetja sitt lið. Mörgum stuðningsmanna Liverpool huggnaðist því sú tilhugsun illa að setja ætti upp sæti á The Kop. Þegar leiktíðin 1993/94 hófst lá samt fyrir að hún yrði sú síðasta sem stuðningsmenn Liverpool gætu staðið á The Kop. Þann 30. apríl 1994 fylltust áhorfendastæðin á The Kop í síðasta sinn af standandi fólki. Eftir síðasta heimleikinn þetta vor voru þessi miklu áhorfendastæði rifin og hafist var handa við byggingu nýrrar og glæsilegrar stúku. Í stúkunni eru sæti fyrir 16.480 áhorfendur. Stúkan sem er stærsta órofna stúka, fyrir aftan eitt mark, á Englangi hélt auðvitað eftir sem áður nafninu The Kop.

Sú ákvörðun að banna stæði og neyða fólk í sæti hefur án efa átt sinn þátt í því að andrúmsloftið í The Kop hefur breyst og sumir telja að því hafi hnignað. Margir vildu meina að The Kop myndi ekki bera sitt barr eftir að sætum var komið fyrir í stað áhorfendastæðanna. Vissulega breyttist stemmningin þar og hún verður eðlilega aldrei söm. En það lifir lengi í gömlum glæðum og oft hefur magnað andrúmsloft skapast á The Kop eftir að sætum var komið fyrir þar. Það eru einfaldlega einhverjir töfrar sem skapast á þessum magnaða stað. Þetta kom best í ljós í undanúrslitum Meistaradeildarinnar gegn Chelsea vorið 2005. Þá magnaðist upp næstum yfirnáttúruleg stemmnig sem aldrei fyrr. Ekki liggur fyrir hversu lengi enn Liverpool spilar á Anfield Road. Nýr leikvangur er á teikniborðinu. Það liggur þó fyrir að ein stúkan þar á að heita The Kop! Þegar og ef Liverpool færir sig um set verður að vonast til þess að þetta magnaða andrúmsloft sem hefur haldist á The Kop í gegnum árin færist bara til yfir á nýja leikvanginn.

The Kop var mikilvægur hluti af því virki sem Anfield var en hverjir eru jú eru dómbærari um það en leikmennirnir sjálfir:

Peter Thompson: "Að spila fyrir framan The Kop var ótrúlegt. Það var sama hverjir andstæðingarnir voru, við höfðum alltaf sálrænt forskot á þá. Ef "This is Anfield" skiltið hræddi þá ekki, þá sluppu þeir ekki við The Kop".

Kenny Dalglish: "The Kop snýst um félagsskap og samstöðu. Eftirminnilegasta atvikið er án efa eftir Hillsborough-slysið er ég og fjölskylda mín löbbuðum í gegnum The Kop og virtum fyrir okkur alla þá trefla, búninga, flögg og blómvendi sem þar voru skildir eftir til minningar um þá sem létust".

Kevin Keegan: "Ég fór oft inná völlinn með þá tilfinningu að það væri ekki möguleiki að við myndum tapa með The Kop að baki okkar".

Alan Hansen: "Við vorum að tapa 3-0 fyrir Birmingham og The Kop hreinlega ærðist að ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins, hvorki á Anfield né annars staðar. Við náðum að minnka muninn í 3-2 en ef leikurinn hefði verið ögn lengri þá hefðum við sennilega unnið leikinn!"

 

 

TIL BAKA