HM og Liverpool

1958-1978

Öllum Liverpool aðdáendum er í fersku minni draumamarkið sem Michael Owen skoraði gegn Argentínu á HM sumarið 1998. Á þeirri stundu varð Michael stórstjarna. Markið var eitt það glæsilegasta í keppninni og Michael komst í eitt af úrvalsliðum þeim sem valin voru eftir keppnina.

Þessi glæsilega frammistaða unglingsins ótrúlega leiðir hugann að þætti leikmanna Liverpool á HM í gegnum tíðina. Færri af yngri áhangendum Liverpool vita ef til vill að Roger Hunt sóknarmaður Liverpool varð heimsmeistari með Englendingum 1966.

Fyrsta úrslitakeppni HM var háð í Úrúgvæ árið 1930. Bresk lið tók ekki þátt í þeirri keppni og það var ekki fyrr en í Brasilíu 1950 að Englendingar tóku fyrst þátt í úrslitakeppni. Þátttöku þeirra þar er helst minnst fyrir háðuglegt tap 1:0 gegn Bandaríkjamönnum. Á þeim tíma var ekki talið að Bandaríkjamenn kynnu að spila knattspyrnu svo niðurlæging Englendinga var alger. Næsta úrslitakeppni var haldin 1954 í Sviss. Bæði Englendingar og Skotar kepptu þar. Enskir komust í 8 liða úrslit.

Liverpool var á þessum árum í 2. deild og gekk hægt að komast upp eftir fall 1954. En vinstri útherji Liverpool Alan A´ Court komst í enska HM-hópinn 1958. Hann varð þar með fyrsti leikmaður Liverpool sem kom við sögu úrslitakeppni HM. Hann lék þrjá af fjórum leikjum Englendinga. Bresku liðin létu heldur betur til sín taka í keppninni og Englendingar, Skotar, Walesbúar og Norður-Írar voru öll mætt á svæðið. Öllum á óvart komust Walesbúar lengst. Mark frá 17 ára brasilískum unglingi Pele að nafni sló Wales út í átta liða úrslitum. Það hefur verið nokkuð afrek hjá Alan að komast í landsliðið sem leikmaður 2. deildar liðs. Hann þótti sprækur útherji og lék 382 leiki með Liverpool og skoraði 63 mörk. Landsleikirnir urðu fimm.

Englendingar komust til Chile 1962. Bill Shankly hafði þá um vorið komið Liverpool í fyrstu deild. Roger Hunt var búinn að raða inn 41 marki um veturinn í deildinni og var valinn í hópinn sem fór til Chile. Hann tók þó ekki þátt í neinum leik.

Það var svo árið 1966 sem úrslitakeppni HM var haldin í Mekka knattspyrnunnar Englandi. Liverpool hafði tryggt sér Englandsmeistaratitilinn um vorið í annað skipti á þremur árum. Það var því ekki að undra þótt Liverpool ætti menn í hópnum. Markakóngurinn Roger Hunt, miðjumaðurinn Ian Callaghan og vinstri bakvörðurinn Gerry Byrne voru valdir í lokahóp enskra.

Gerry lék ekkert en hann vann sér ævarandi hylli áhangenda Liverpool í bikarúrslitunum 1965 gegn Leeds. Hann viðbeinsbrotnaði í upphafi leiks en lék það sem eftir lifði venjulegs leiktíma og gott betur því leikurinn fór í framlengingu. Liverpool vann 2:1. Á þeim tíma voru varamenn ekki til staðar.

Roger Hunt, eða Sir Roger eins og áhangendur Liverpool kölluðu hann, lék alla átta leiki Englendinga. Hann skoraði eitt mark í 2:0 sigri gegn Mexíkóum og skoraði bæði mörkin í 2:0 sigri á Frökkum. Ian Callaghan lék sinn eina leik í keppninni gegn Frökkum og lagði annað markið upp fyrir Roger.

Englendingar unnu sinn riðil og í átta liða úrslitum unnu þeir Argentínu 1:0. Portúgalir voru lagðir 2:1 í undanúrslitum. Í úrslitunum unnu Englendingar ódauðlegan sigur á Vestur Þjóðverjum 4:2 eftir framlengingu í sólinni á Wembley. Roger Hunt var einn af þjóðhetjunum ellefu eftir leikinn.

Roger lék alls 34 landsleiki og skoraði 18 mörk. Hann átti öll markamet Liverpool þangað til Ian Rush kom til sögunnar og sló þau eitt af öðru. Þó á Roger Hunt enn eitt markamet hjá Liverpool. Hann hefur skorað flest deildarmörk í sögu Liverpool 245 talsins. Í heild lék hann 489 leiki og skoraði 285 mörk.

Í Mexíkó 1970 reyndu Englendingar að verja titilinn. Emlyn Hughes var í  leikmannahópnum en hann kom ekki við sögu. Þjóðverjar náðu sér niður á Englendingum og slógu þá út 3:2 í átta liða úrslitum. Fjórum árum seinna var keppt í Þýskalandi. Enskir komust ekki en Skotar voru mættir til leiks. Ekki spillti það fyrir Skotum að Englendingum mistókst að komast í keppnina. Liverpool átti ekki fulltrúa í hópi Skota. En tilvonandi leikmaður Liverpool Kenny Dalglish sem þá lék með Celtic lék alla leiki Skota. Eins og æ síðar féllu Skotar út eftir riðlakeppnina þá ósigraðir.

Í Argentínu 1978 héldu Skotar til leiks enn glaðari en fyrr því enskir sátu heima. Liverpool vann Evrópubikarinn annað árið í röð þá um vorið og tveir Skotar úr liðinu voru valdir í hóp Skota; Kenny Dalglish og Graeme Souness. Kenny hafði farið á kostum á þessu fyrsta tímabili sínu með Liverpool. Bob Paisley keypti Graeme frá Middlesbrough rétt eftir áramótin og hann hafði fallið vel inn í leik Liverpool.

Skotar voru með öflugt lið og töldu sig til alls líklega. En eftir tap gegn Perú og jafntefli gegn Íran voru Skotar í vondum málum. Síðasti leikurinn var gegn Hollendingum. Kenny hafði leikið tvo fyrstu leikina. Graeme var settur á miðjuna gegn Hollandi og átti stórleik. Skotar hrukku í gang. Kenny skoraði glæsilegt mark og Skotar unnu 3:2. En sigurinn kom of seint og Skotar héldu heim.

TIL BAKA