| Sf. Gutt

Meiðslafréttir


Leikjadagskráin er stíf á nýja árinu. Einn leikur er þegar að baki en Liverpool bíður að spila í undanúrslitum í Deildarbikarnum við Southampton, hugsanlega í tveimur umferðum í FA bikarnum auk deildarleikja í janúar. Það ríður því á miklu að hafa alla menn tiltæka. Sadio Mané verður fjarri vegna Afríkukeppninnar næstu vikur en svo er að sjá hvernig meiðslalistinn verður. 

Jürgen Klopp fór yfir stöðu í meiðslamálum eftir leikinn í Sunderland en í honum fóru tveir meiddir af velli. Framkvæmdastjórinn sagðist ekki vita almennilega hvort Daniel Sturridge, sem fékk högg á hægri ökklann, væri alvarlega meiddur en sagðist halda að svo væri ekki. James Milner fór út af í hálfleik vegna þess að hann fékk högg á kálfa. Ákveðið var að taka hann af velli til öryggis. 

Jordan Henderson fór meiddur af velli í sigrinum á Manchester City á Gamlársdag. Hann fann fyrir meiðslum á hæl en það voru ekki hælmeiðslin sem héldu honum lengi frá á síðustu leiktíð. Hann gæti verið búinn að ná sér þegar Liverpool mætir Manchester United á Old Trafford um miðjan mánuðinn. 

Joel Matip, hefur ekkert spilað frá því á móti West Ham United fyrri partinn í desember, er á batavegi en þó er ekki alveg víst hvenær hann verður leikfær. Hann hefur verið meiddur á vinstri ökkla. 

Philippe Coutinho er að byrja að æfa eftir að hann meiddist á móti Sunderland fyrir rúmum mánuði. Hann ætti að koma aftur til leiks núna í mánuðinum. 


Danny Ings er í stífri endurhæfingu en hann verður ekki farinn að spila fyrr en á undirbúningstímabilinu fyrir næstu leiktíð í fyrsta lagi. 


Margir fastamenn munu verða hvíldir á sunnudaginn þegar Liverpool mætir Plymouth í FA bikarnum og verður hvíldin mörgum kærkomin. En vonandi ná þeir lykilmenn sem eru meiddir sér sem fyrst. Það er mikið undir á næstu vikum!



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan