| Grétar Magnússon

Markalaust gegn West Ham

Liverpool gerði markalaust jafntefli við West Ham í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar á Anfield. Liðin þurfa því að mætast aftur og þá á heimavelli West Ham, eitthvað sem liðið þarf ekki á að halda.

Klopp breytti liðinu töluvert frá síðasta leik og var Simon Mignolet sá eini frá leiknum við Stoke sem var í byrjunarliðinu og enginn þeirra útileikmanna sem hóf leikinn við Stoke voru á bekknum að þessu sinni. Nathaniel Clyne kom aftur inní hægri bakvarðastöðuna og miðvarðastöðurnar skipuðu þeir Lovren og Caulker. Brad Smith var í vinstri bakverði og á miðjunni voru þeir Joe Allen, Kevin Stewart og Cameron Brannagan. Jordon Ibe og Joao Teixeira voru svo þar fyrir framan og Christian Benteke fremstur.

Gestirnir stilltu upp sterku liði og það mátti því búast við erfiðum leik en heimamenn voru þó sterkari í upphafi leiks. Cameron Brannagan var öflugur á miðjunni og átti hann góðar sendingar fyrir markið og Steven Caulker var nálægt því að ná til boltans eftir eina slíka sendingu snemma í leiknum. Brannagan sjálfur þrumaði svo að marki af þónokkru færi en skotið var svosem aldrei nálægt því að ógna markinu og fór yfir. Gestirnir áttu sína spretti og var Dmitri Payet þeirra hættulegasti maður eins og við var að búast, hann skaut á nærstöngina úr aukaspyrnu þegar allir bjuggust við að sendingin kæmi fyrir markið. Enner Valencia skallaði svo langt framhjá markinu eftir fyrirgjöf frá vinstri þegar hann var nánast aleinn á markteig. En heimamenn ógnuðu meira og hornspyrna frá Brannagan hitti á Benteke í teignum og skalli hans var hreinsaður af línu á fjærstöng. Skömmu síðar sendi Brannagan fyrir úr aukaspyrnu og Benteke var nálægt því að ná til boltans á markteig en hefði að ósekju mátt vera grimmari þar. Lokatækifæri hálfleiksins féll í skaut gestanna þegar Obiang skaut framhjá með þrumuskoti fyrir utan teig.

Gestirnir ógnuðu svo markinu fljótlega aftur í seinni hálfleik, sending Payet fyrir markið úr aukaspyrnu skapaði usla í teignum þar sem margir leikmenn reyndu að ná til boltans og að lokum tókst að bægja hættunni frá. Joe Allen fékk gott skotfæri á vítateigslínu eftir gott uppspil Clyne en skotið hans var langt yfir markið. Portúgalinn Teixeira sem var líflegur í leiknum átti svo þrumuskot úr teignum vinstra megin að marki en skotið var varið. Áfram héldu heimamenn að þjarma að gestunum og það má kannski ekki segja að markið hafi legið í loftinu en heimamenn voru þó að minnsta kosti líklegri til að skora.

Christian Benteke fékk sendingu innfyrir vörnina og náði skotinu sem var ágætlega varið, Joe Allen reyndi að fylgja á eftir en náði ekki almennilegu skoti. Benteke fékk frákastið og í stað þess að senda til vinstri á Teixeira skaut hann að marki sjálfur og það var varið og færið því runnið út í sandinn. Klopp sendi inná þrjá varamenn á síðustu tíu mínútunum en þeir Ojo, Sinclair og José Enrique náðu ekki að breyta leiknum. Heimamenn önduðu svo léttar í lokin þegar langt innkast kom inná teiginn og Mignolet fór í úthlaup til að grípa boltann en náði ekki til hans. Markið var því opið en varnarmenn hreinsuðu frá.

Lokatölur leiksins því 0-0 og liðinu ekki tekist að skora mark á móti West Ham á tímabilinu í heilum þrem leikjum. Liðin þurfa nú að mætast aftur í London og verður sá leikur væntanlega spilaður þriðjudaginn 9. eða miðvikudaginn 10. febrúar.

Liverpool:  Mignolet, Clyne, Caulker, Lovren, Smith, Brannagan (Sinclair, 86. mín.), Stewart, Allen, Ibe (Ojo, 80. mín.), Teixeira (Jose Enrique, 90. mín.), Benteke. Ónotaðir varamenn: Ward, Ilori, Randall, Chirivella.

Gult spjald:  Lovren.

West Ham United:  Randolph, Tomkins (O'Brien, 35. mín.), Reid, Ogbonna, Cresswell, Kouyaté (Jelavic, 37. mín.), Song, Obiang, Moses (Antonio, 70. mín.), Valencia, Payet. Ónotaðir varamenn: Cullen, Howes, Oxford, Collins.

Maður leiksins:  Það er svosem ekki auðvelt að velja mann leiksins að þessu sinni en ungu leikmennirnir þeir Brannagan, Stewart og Smith svo einhverjir séu nefndir spiluðu vel. Brannagan hlýtur nafnbótina að þessu sinni fyrir baráttu sína inná miðjunni og góðar spyrnur úr föstum leikatriðum.

Jurgen Klopp:  ,,Við fengum betri færi en nú þurfum við að mæta í annan leik. West Ham eru með mikil gæði í sínum leikmannahóp og spila vel í deildinni. Við reyndum allt hvað við gátum en þurftum aðeins meiri heppni. Ég var ánægður með liðið heilt yfir. Steven Caulker spilaði í fyrsta sinn í vörninni og gerði vel, ég get ekki sagt við neinn leikmann að hann hafi átt dapran dag, allir gerðu sitt besta. Við spiluðum betur en við gerðum áður gegn West Ham í deildinni en skoruðum ekki og því fór sem fór."

Fróðleikur:

- Dejan Lovren spilaði sinn 60. leik fyrir Liverpool í öllum keppnum.

- Steven Caulker var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool.

- Þetta var leikur númer 99 hjá José Enrique fyrir félagið, það er óskandi að hann spili ekki mikið fleiri leiki blessaður.

- Í annað sinn á leiktíðinni þarf liðið að spila aukaleik í FA bikarnum.

- Liverpool hefur ekki enn tapað fyrir West Ham í þessari keppni.

Hér má sjá myndir úr leiknum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan