| Sf. Gutt

Brad Jones farinn á braut

Í gær var staðfest úr herbúðum Liverpool Football CLub að Brad Jones hefði yfirgefið félagið. Brad átti eitt ár eftir af samningi sínum og heyrst hafði að það stæði til að honum yrði boðinn framlenging en ekkert varð úr því. Mun Ástralanum hafa sárnað þau sinnaskipti ef rétt er vitað. 


Brad Jones kom til Liverpol sumarið 2010 í valdatíð Roy Hodgson en hann var búinn að vera hjá Middlesbrough frá árinu 1999. Hann lék á þeim tíma sem lánsmaður hjá Shelbourne, Stockport County, Rotherham United, Blackpool og Sheffield Wednesday. Á meðan hann var hjá Liverpool var hann lánaður til Derby County. Segja má að Brad sé góður markmaður en hann er ekki í hæsta gæðaflokki.   


Stærsta stund Brad hjá Liverpool kom á Wembley vorið 2012 þegar hann stóð í marki Liverpool í undanúrslitum F.A. bikarins gegn Everton í leik sem Liverpool vann 2:1. Hann hafði í næsta leik á undan komið inn á sem varamaður í Blackburn eftir að Alexander Doni var rekinn af velli. Hans fyrsta verk var að verja vítið sem var dæmt!


Ástralinn var vinsæll í Liverpool og honum og konu hans var líka sýndur mikill stuðningur eftir að ungur sonur þeirra lést úr hvítblæði. Þeim fæddist annar sonur og þau hafa látið gott af sér leiða í góðgerðarmálum. 


Brad var aldrei fastamaður hjá Liverpool en var settur inn í liðið í desember þegar Simon Mignolet vegnaði sem verst. Brad meiddist þó strax í fjórða leik og var lengi frá. Simon náði sér vel á strik og Brad lék ekki aftur með Liverpool. Eins og fyrr segir heyrðist undir vor að bjóða ætti Brad framlengingu á samning sinn en svo var ákveðið að horfa eftir nýjum varamarkmanni. 


Brad hélt með Liverpool sem strákur heima í Ástralíu og því rættist draumur hans með því að spila með Liverpool. Hann getur farið nokkuð sáttur því hver vill ekki spila með liðinu sem maður hélt með í æsku!

Brad, sem hefur leikið þrjá landsleiki, lék 27 leiki með Liverpool. Hann sagðist hafa átt sér draum sem lítill strákur að spila með landsliðinu og Liverpoool. Ekki sem verst að hafa náð þessu tvennu! Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Brad góðs gengis í nýjum slóðum.

Hér má lesa allt um feril Brad Jones á LFChistory.net.

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan