| Heimir Eyvindarson

Agger ákvað sig eftir City leikinn

Daniel Agger segist í viðtali við danska tímaritið Euroman hafa tekið endanlega ákvörðun um að yfirgefa Liverpool þegar Brendan Rodgers setti hann á bekkinn gegn Manchester City í vor. 

Samband Daniel Agger og Brendan Rodgers virðist hafa verið nokkuð undarlegt. Fyrir leiktíðina 2013-14 gerði Rodgers Danann að varafyrirliða og sagði honum jafnframt að hann hygðist byggja liðið í kringum tvær kjölfestur. Annarsvegar Daniel sjálfan og hinsvegar Steven Gerrard. Þetta mikla traust stjórans hjálpaði Agger við að taka ákvörðun um að hafna boðum frá ýmsum evrópskum stórliðum, m.a. Barcelona. En leiktíðin fór öðruvísi en ætlað var.

Agger spilaði að vísu talsvert, en var langt frá því að vera fastur maður í liðinu. Mamadou Sakho, sem var keyptur um sumarið, var oftar en ekki tekinn fram yfir varafyrirliðann. Á seinni hluta síðustu leiktíðar kom síðan kornið sem fyllti mælinn. Þá hafði Agger verið fastur maður í Liverpool liðinu í 6 deildarleikjum í röð, sem allir höfðu unnist og vörnin staðið sig vel. Agger meiddist síðan lítillega á æfingu í vikunni fyrir leikinn gegn West Ham þann 6. apríl og eftir það lá leiðin niður á við hjá Dananum.

„Ég fékk högg á hnéð og það bólgnaði upp. Það þurfti að tappa hellings vökva af því og læknirinn og sjúkraþjálfarinn vildu ekki að ég spilaði leikinn við West Ham. Ég grátbað þá um að koma mér í leikfært form fyrir West Ham leikinn og sleppa því að láta Rodgers vita, því ég vildi ekki gefa honum ástæðu til þess að halda mér fyrir utan liðið í leiknum gegn City viku síðar", segir Agger.

„Þeir létu Rodgers auðvitað vita og ég fékk þau skilaboð að ég ætti að hvíla gegn West Ham svo ég gæti örugglega verið með í City leiknum."

Daginn eftir leikinn við West Ham var Agger farinn að æfa aftur, en þegar kom að stórleiknum við City þann 13. apríl ákvað Brendan að halda sig við varnarlínuna sem spilaði 2-1 sigurleikinn gegn West Ham. Johnson, Skrtel, Sakho og Flanagan. Agger varð að gera sér að góðu að setjast á bekkinn. 

„Það var þá sem ég vissi að þetta var búið. Ég vissi að ég myndi ganga af göflunum ef ég yrði um kyrrt. Ekki misskilja mig, ég hef enga þörf fyrir stjóra sem klappa mér á bakið allan daginn, ég vil frekar hafa stjóra sem láta mig heyra það rækilega. Þá hef ég eitthvað til að byggja á og til þess að vinna með. Rodgers gerði mig að varafyrirliða og sagðist ætla að byggja liðið upp m.a. í kringum mig. Síðan heyrði ég ekkert meira í honum. Við töluðumst ekki við allt tímabilið."

Agger var hafður á bekknum í næstu leikjum eftir sigurinn á City og byrjaði ekki aftur inná fyrr en í lokaleik tímabilsins, 2-1 sigurleiknum gegn Newcastle á Anfield. Þar skoraði Agger mark í sínum síðasta leik fyrir Liverpool. Hann tók sér samt sem áður góðan tíma til þess að hugsa málin, enda risastór ákvörðun að segja skilið við liðið sem maður elskar af öllu hjarta.

„Þótt ég hafi í raun tekið ákvörðun um að yfirgefa Liverpool eftir City leikinn ákvað ég að bíða og hugsa málin betur. Þegar undirbúningstímabilið byrjaði í sumar fór ég inn á skrifstofu til Rodgers og sagðist vera ósáttur við það hvernig hann hefði farið með mig. Við áttum mjög gott spjall, fyrsta samtal okkar í u.þ.b. ár, og Rodgers sagðist fyrir alla muni vilja hafa mig áfram, en ég var bara ekki viss um hvort ég gæti treyst honum. Ég var ennþá brenndur eftir innihaldslausu orðin frá árinu áður. Þessvegna ákvað ég að halda heim til Brøndby."




  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan