| Grétar Magnússon

Sturridge meiddur !

Slæmar fréttir bárust í gærkvöldi af Daniel Sturridge. Sóknarmaðurinn sem var nýstigin upp úr meiðslum meiddist á æfingu og verður frá í allt að mánuð.

Meiðslin eru í kálfa að þessu sinni en Sturridge var nánast orðinn leikfær á ný og hefði verið í leikmannahópnum sem mætir Q.P.R. á morgun, sunnudag.

Brendan Rodgers býst við því að Sturridge verði frá í fjórar vikur að þessu sinni og er því ljóst að hann missir af fyrri leiknum við Real Madrid á Anfield næsta miðvikudag og líklega verður hann ekki klár í seinni leik liðanna á Spáni tveim vikum síðar.

,,Daniel tognaði á kálfa," sagði Rodgers í viðtali við Liverpool Echo.

,,Hann verður líklega frá í fjórar vikur. Þetta er mikið áfall því við vorum við það að bjóða hann velkominn í liðið á ný. Hann hefur lagt mikið á sig til þess. En við erum með aðra leikmenn í hópnum sem hafa verið að æfa mikið og lagt hart á sig og við snúum okkur að þeim núna. Það er einmitt vegna svona aðstæðna sem við stækkuðum leikmannahópinn í sumar."

Sturridge skoraði 21 mark á síðustu leiktíð í ensku Úrvalsdeildinni og hefur hans verið sárt saknað það sem af er þessa tímabils. Hann spilaði síðast í 0-3 sigri á Tottenham í lok ágúst. Í fjarveru hans hefur liðið aðeins unnið þrjá af síðustu sjö leikjum í öllum keppnum.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan