| Sf. Gutt

Steven fyrirliði í 11 ár!

Í dag eru 11 ár liðin frá því Steven Gerrard leiddi Liverpool til leiks í fyrsta sinn sem opinber fyrirliði. Fyrir ári setti hann nýtt félagsmet með því að hafa verið fyrirliði Liverpool Football Club í einn áratug. Í dag má segja að metið hafið verið bætt um eitt ár í viðbót!



Gerard Houllier ákvað í október 2003 að taka fyrirliðastöðuna af Sami Hyypia og skipa hinn unga Steven Gerrard fyrirliða. Það var svo 15. október sem Steven leiddi Liverpool til leiks í fyrsta sinn sem opinber fyrirliði. Liverpool mætti þá Olimpija Ljubljana í Evrópukeppni félagsliða. Þeir Anthony Le Tallec, Emile Heskey og Harry Kewell tryggðu Liverpool 3:0 sigur. Myndin hér að ofan sýnir Steven bera fyrirliðabandið í leiknum.

Steven Gerrard er hvergi af baki dottinn og það sem af er leiktíðar hefur hann bætt í metasafn sitt. Þegar hann skoraði á móti Tottenham á White hart Lane var hann búinn að skora á 16 leiktíðum í röð. Við bættist að um leið og vítaspyrnan hafnaði í markinu hjá Spurs var Steven orðinn markakóngur Liverpool úr vítum frá upphafi. Vítið var númer 43 og eitt er búið að bætast við síðan. Við vonum að við eigum eftir að njóta krafta Steven Gerrard sem lengst. Það styttist auðvitað í lok ferils hans en Steven er enn lykilmaður í liði Liverpool!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan