| Grétar Magnússon

Sakho tilbúinn í slaginn

Mamadou Sakho líkir leiknum við Manchester City við D-Dag og vísar þar innrás Bandamanna í Frakkland í Síðari heimsstyrjöldinni.  Hann segir leikurinn sé stærsti deildarleikur félagsins í 24 ár, hvorki meira né minna.


Frakkinn öflugi sagði jafnframt:  ,,Ég hef alltaf haft trú á því að þetta lið væri nógu gott til að vinna titilinn."

Úrslitin í leiknum á sunnudagin munu koma til með að ráða miklu um hvernig lokastaðan í ensku Úrvalsdeildinni verður.

,,Auðvitað er þetta stærsti deildarleikur sem liðið hefur spilað í 24 ár," sagði Sakho.  ,,Þetta er leikur þar sem þrjú stig eru í boði en þau eru mun meira virði.  Þetta er leikur þar sem sigurvegarinn er í besta sætinu til þess að halda áfram og vinna titilinn."

,,Ég vona að við vinnum.  Hvernig sem fer þá erum við tilbúnir í slaginn.  Við erum á heimavelli og höfum stuðningsmennina á bakvið okkur.  Við munum gefa allt í þetta."

,,Síðan ég kom til félagsins, alveg frá fyrsta mánuði, hef ég sagt þetta.  Ég hef sagt við liðsfélaga mína að við getum vel unnið titilinn.  Við höfum gæðin og við verðum bara að trúa á þetta.  Og voila... eftir því sem liðið hefur á tímabilið höfum við séð Liverpool styrkjast meir og meir og spila einnig svo fallega knattspyrnu.  Við höfum ekki stolist í toppsætið, við eigum skilið að vera þar sem við erum í dag."

,,Við erum með sjálfstraust til að mæta sóknarmönnum City.  Þeir skora mikið af mörkum en við gerum það líka.  Þetta verður leikur tveggja fallegra sóknarliða með sterkar varnir.  Þetta verður stórleikur tveggja toppliða sem eru að berjast um titilinn.  Við munum sjá á D-dag hvort liðið er betur undirbúið að hirða stigin þrjú."

Sakho spilaði sinn fyrsta leik í byrjunarliði á árinu í 1-2 sigri á West Ham á sunnudaginn var og hann hrósar Brendan Rodgers mikið fyrir hans áhrif á liðið á tímabilinu.

,,Rodgers tekst að ná öllu út úr leikmönnum sínum.  Það er gríðarlega mikilvægt og það hafa ekki allir þjálfarar þessa útgeislun," bætti hann við.

,,Hann verður að halda öllum leikmönnum við efnið allan tímann og þegar hann kallar á leikmann í liðið þá svarar sá leikmaður með góðri frammistöðu.  Líkt og ég gerði gegn West Ham.  Það voru fjórir mánuðir liðnir frá því ég spilaði síðast vegna meiðsla.  Ég fékk tækifæri til að sýna mig og sanna.  Mér leið eins og ljóni fyrir leik. Ég var svo hungraður að koma sterkur til baka. Síðast þegar félagið vann titil var ég fjögurra mánaða gamall og nú er ég 24 ára - ég var rétt nýfæddur.  Í hreinskilni sagt þá munum við gefa allt okkar fram að síðustu sekúndu síðasta leiksins í deildinni."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan