| Heimir Eyvindarson

Tap í Evrópudeildinni

Liverpool tapaði 2-3 gegn Udinese í 2. umferð riðlakeppni Evrópudeidarinnar á Anfield.

Brendan Rodgers gerði 8 breytingar á liði sínu frá sigurleiknum gegn Norwich um síðustu helgi. Pepe Reina, Glen Johnson og Joe Allen voru þeir einu sem héldu sætum sínum.

Udinese var heldur sterkara liðið framan af leiknum og pressaði okkar menn nokkuð hátt uppi á vellinum. Smátt og smátt náði Liverpool síðan betri tökum á leiknum og á 23. mínútu kom Jonjo Shelvey okkar mönnum yfir eftir góða sendingu frá Downing. Staðan orðin 1-0 á Anfield.

Það sem eftir lifði hálfleiksins voru okkar menn mun sterkari aðilinn, án þess þó að skapa sér umtalsverð færi. Staðan 1-0 í hálfleik, en hefði vel getað verið enn hagstæðari.

Seinni hálfleikur var varla hafinn þegar gestirnir frá Ítalíu voru búnir að jafna. Þar var Di Natale á ferðinni með laglegt mark. Staðan 1-1. Aðdragandinn að markinu var einbeitingarleysi Glen Johnson sem missti boltann á sínum eigin vallarhelmingi.

Þrátt fyrir að leikmenn Liverpool mættu ekki til leiks í síðari hálfleik af sama krafti og í hinum fyrri var liðið áfram sterkara liðið á vellnum, en þrátt fyrir það voru það gestirnir sem skoruðu næsta mark. Þar var Sebastian Coates að verki með óheppilegt sjálfsmark.

Aðeins tæpum tveimur mínútum síðar kom Pasquale Udinese í 1-3. Gestirnir skyndilega komnir með vænlegt, en óverðskuldað forskot.

Á 75. mínútu, aðeins þremur mínútu eftir þriðja mark Ítalanna skoraði Luis Suarez, sem hafði komið inná sem varamaður 10 mínútum áður, annað mark Liverpool og minnkaði muninn í 2-3. Markið var einkar glæsilegt, beint úr aukaspyrnu rétt utan við vítateigshornið.

Liverpool sótti án afláts það sem eftir lifði leiks og Raheem Sterling, Stewart Downing og Luis Suarez fengu allir góð tækifæri til þess að skora. En allt kom fyrir ekki og niðurstaðan á Anfield 2-3 fyrir Udinese.

Liverpool: Reina, Johnson, Coates, Carragher, Robinson, Shelvey, Allen, Henderson (Gerrard á 65. mínútu), Borini (Sterling á 80. mínútu), Assaidi( Suarez á 65. mínútu), Downing. Ónotaðir varamenn: Wisdom, Jones, Sahin og Skrtel.

Mörk Liverpool: Shelvey á 23. mínútu og Suarez á 75. mínútu.

Udinese: Brkic, Danialo, Faraoni, Pasquale, Di Natale (Ranegie á 84. mín.), Domizzi, Benatia, Pinzi (Willians á 70. mín.), Armero (Lazzari á 45. mín.), Badu, Pereyra. Ónotaðir varamenn: Coda, Parrelli, Fabbrini, Heurtaux.

Gul spjöld: Faraoni, Pinzi, Benatia.

Maður leiksins: Að þessu sinni verður Jonjo Shelvey fyrir valinu. Shelvey, Allen og Henderson náðu vel saman á miðjunni í fyrri hálfleik og á köflum gaf leikur þeirra afar góðar vonir um framhaldið. Shelvey skoraði einnig gott skallamark.

Brendan Rodgers: Þetta voru mjög svekkjandi úrslit. Við vorum klárlega betra liðið í leiknum en einbeitingarleysi í vörninni varð okkur dýrkeypt. Ég hélt í sannleika sagt að við værum hættir að gera okkur seka um leti og sofandahátt. Við verðum að laga varnarleikinn. Það gengur ekki að þurfa að skora 3-4 mörk í leik til að landa sigri.

Fróðleikur:

-Þetta var í fyrsta sinn sem Liverpool og Udinese mættust í Evrópuleik.

-Þetta var fyrsti tapleikur Liverpool í Evrópukeppni undir stjórn Brendan Rodgers.

-Liverpool gengur illa að halda markinu hreinu á Anfield. Í síðustu tólf heimaleikjum hafa gestirnir alltaf fundið leið framhjá vörn okkar manna. Eina undantekningin er 3-0 sigurinn gegn FC Gomel í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers af opinberu heimasíðu Liverpool.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan