| Sf. Gutt

Sotirios yfirgefur Liverpool

Rétt í þessu var greint frá því á sjónvarpsstöð Liverpool að Sotirios Kyrgiakos hefði yfirgefið Liverpool. Hann heldur til Þýskalands þar sem hann hefur gert samning við Wolfsburg. Hann hefur áður spilað þar í landi með Eintracht Frankfurt.

Gríski miðvörðurinn kom til Liverpool frá AEK Aþenu fyrir tveimur árum. Liverpool borgaði þá tvær milljónir sterlingspunda fyrir kappann. Ekki kemur fram í fréttum hvort Liverpool fékk eitthvað fyrir Soto frá Wolfsburg. 

Sotirios hefur ekki verið í liðshópi Liverpool eftir að leiktíðin hófst en hann tók þátt í nokkrum æfingaleikjum í sumar.

Soto stóð sig í heildina séð vel hjá hjá Liverpool en átti þó til að gera klaufaleg mistök. Hann ávann sér samt töluverðar vinsældir hjá stuðningsmönnum Liverpool með því að leggja sig allan fram og fórna sér fyrir málstaðinn. Honum datt til dæmis ekki í hug að fara af velli gegn Bolton á sinni fyrstu leiktíð eftir að hafa brotið tönn! 

Sotirios Kyrgiakos lék 49 leiki með Liverpool og skoraði þrjú mörk. Við óskum Soto góðs gengis hjá nýja liðinu og þökkum fyrir samveruna.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan