| Sf. Gutt

Naumt tap á Spáni

Sumarið hefði getað byrjað betur fyrir Liverpool sem tapaði fyrri undanúrslitaleiknum við Atletico Madrid 1:0 í Madríd. Tapið var naumt en það þarf allt að ganga upp í seinni leiknum á Anfield Road ef Liverpool á að komast áfram í úrslitaleikinn.

Heimamenn fengu óskabyrjun á 9. mínútu. Jose Manuel Jurado sendi þá fyrir frá vinstri. Diego Forlan fékk boltann algerlega óvaldaður fyrir framan mitt markið en skalli hans var alveg misheppnaður. Boltinn fór þó ekki langt og Diego var sneggri en varnarmenn Liverpool. Úrúgvæinn kom boltanum í markið og allt gekk af göflunum á Vicente Calderon leikvanginum. Jose var rétt búinn að verja og Jamie reyndi hvað hann gat til að bjarga en allt kom fyrir ekki. Mjög slaklegur varnarleikur hjá Liverpool svo ekki sé meira sagt. 

Leikmenn Liverpool svöruðu markinu með snarpri sókn rétt á eftir og Glen Johnson sendi fyrir markið. Yossi Benayoun fékk boltann í góðu skallafæri en skalli hans fór framhjá. Þar fór gott færi forgörðum. Yossi skoraði svo á 18. mínútu. Dirk Kuyt átti skot utan vítateigs sem var misheppnað. Boltinn fór þó inn fyrir vörn Atletico á Yossi sem afgreiddi boltann fallega út í hornið. Markið var þó dæmt af vegna rangstæðu en sá dómur var því miður rangur og dýrkeyptur. Mínútu síðar slapp Steven Gerrard inn á vítateiginn eftir sendingu frá Lucas Leiva en skot hans úr þröngri aðstöðu fór í hliðarnetið. Eftir þetta gerðist fátt þar til á 42. mínútu þegar Tékkinn Tomas Ujfalusi braust laglega inn á vítateiginn hægra megin en skot hans fór framhjá. Heimamenn leiddu 1:0 þegar flautað var til leikhlés.

Síðari hálfleikur var sérlega tíðindalítill. Bæði lið börðust vel en marktækifæri voru álíka algeng og flugvélar á flugi við Ísland síðustu daga. Atletico fékk þau færi sem sköpuðust. Á 58. mínútu átti Simao Sabrosa skot, úr teignum, sem stefndi efst í hornið en Jose Reina var vel vakandi og varði vel í horn. Þegar stundarfjórðungur var eftir þrumaði Tomas að marki utan vítateigs en Jose henti sér niður og varði meistaralega. Hann hélt þó ekki boltanum og einn heimamanna virtist mundu skora en Jamie var fyrri til og bjaraði á síðustu stundu. Vel gert hjá harðjaxlinum sem þarna kom í veg fyrir annað mark Altetico. Liverpool náði að verjast öðru marki það sem eftir var af leiknum og slapp frá Spáni með eins marks tap. Það var í raun vel sloppið en ekki má gleyma því að löglegt mark var tekið af Liverpool. 

Liverpool á erfitt verkefni framundan í seinni leiknum á Anfield Road en liðið þarf tveggja marka sigur til að komast í úrslitaleikinn í Evrópudeildinni. Eitt af þessum einstöku Evrópukvöldum á Anfield er í uppsiglinu og hver veit nema það fari í annála fyrir enn eina endurkomu liðsins úr þröngri stöðu. Liverpool hefur farið erfiða leið til að komast þetta langt þannig að þessi staða kemur kannski ekki á óvart! Nú verða allir að taka á því ef þessi Evrópuvegferð á að verða lengri! Enn er allt undir! 

Atletico Madrid:
 De Gea, Antonio Lopez, Ujfalusi, Dominguez, Perea, Raul Garcia, Paulo Assuncao, Simao (Valera 77. mín.), Forlan (Eduardo Salvio 85. mín.), Jurado og Reyes (Camacho 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Sergio Asenjo, Juanito, Leandro Cabrera og Borja.

Mark Atletico Madrid: Diego Forlan (9. mín.).

Gult spjald: Juan Valera.

Liverpool: Reina, Johnson, Agger, Kyrgiakos, Carragher, Gerrard, Benayoun (El Zhar 83. mín.), Mascherano, Leiva, Kuyt og Ngog (Babel 64. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Degen, Ayala, Aquilani og Pacheco.

Gult spjald: Sotirios Kyrgiakos.

Maður leiksins: Jose Reina. Sá spænski hafði kannski ekki mikið að gera en tvær frábærar markvörslur hans í síðari hálfleik gætu átt eftir að reynast geysilega mikilvægar þegar upp verður staðið í þessari undanúrslitarimmu. 

Rafael Benítez: Þetta hefði getað verið verra en líka betra. Allt ræðst svo á Anfield en þar verða allir stuðningsmenn okkar tilbúnir að hvetja okkur. Við sýndum á dögunum að við getum skorað mörk og í liði okkar eru menn sem geta skorað. Ég hef mikla trú á Anfield svo og leikmönnum og stuðningsmönnum okkar á Anfield.

Það helsta: Hamburger SV og Fulham skildu jöfn 0:0 í hinum undanúrslitaleiknum.
 
                                                                                            Fróðleikur:

- Þessi undanúrslitarimma er sú 16. sem Liverpool hefur tekið þátt í í Evrópusögu sinni.

- Ekkert enskt lið hefur leikið jafn oft í undanúrslitum í Evrópukeppni.

- Liverpool og Atletico Madrid léku saman í þriðja sinn á síðustu tveimur leiktíðum.

- Liverpool hefur enn ekki unnið í þessum þremur leikjum. Liðin mættust tvívegis í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð og lauk báðum leikjunum með 1:1 jafntefli.

- Liðin léku svo æfingaleik fyrir þetta keppnistímabil. Atletico vann þann leik 1:2 á Anfield Road.
 
- Í þriðja sinn í röð er Liverpool undir eftir fyrri leik í Evrópudeildinni. Liðið tapði á útivelli bæði fyrir Lille og Benfica en sneri blaðinu við í síðari leiknum.

- Nabil El Zhar lék sinn 30. leik með Liverpool. Hann hefur skorað eitt mark í þeim leikjum.

- Jose Reina lék á gamla heimavelli föður síns en hann lék lengi með Altetico Madrid.

Hér
eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan