| Grétar Magnússon

Mark Gonzalez biður um þolinmæði

Mark Gonzalez bað í dag stuðningsmenn Liverpool um að sýna þolinmæði í sinn garð á meðan hann er að venjast enska boltanum.

Enn og aftur tókst Liverpool ekki að skora á útivelli, liðið lék þó mun betur en í síðustu útileikjum en varð að sætta sig við 0-0 jafntefli.  Gonzalez átti ágætis skot að marki í seinni hálfleik en Mark Schwarzer sá við honum eins og öðrum marktilraunum leikmanna Liverpool.  Gonzalez viðurkennir að hann sé ennþá að venjast hversu líkamlega erfiður enska deildin er.

,,Ég þarf að venjast enskum fótbolta betur.  Ég vissi að það yrði erfitt og það mun taka lengri tíma fyrir mig að venjast þessu," sagði hann.

,,Ég veit að ég þarf að gera meira og er viss um að ég muni gera það.  Ég veit að fólk skilur stundum ekki að maður getur gert mistök í leik og að hlutirnir líta ekki alltaf út fyrir að vera fullkomnir strax, ég mun halda áfram að vinna í mínum málum."

,,Fólk er oft óþolinmótt þegar fótbolti er annars vegar, við vitum allir að óþolinmæði er það sem fólk mun sýna okkur þangað til að við förum að sýna okkar besta leik og vinna fleiri leiki."

,,Ég verð að halda áfram að vinna til að koma mér í betra form.  Þetta er kröfuhörð deild og það er ekki sami hluturinn að æfa líkamlegan styrk og að spila í leikjunum."

,,Besta leiðin til að aðlagast er að spila sem mest og ég er að gera það núna.  Það eru margir nýjir leikmenn í liðinu og það er eðlilegt að það taki tíma að venjast nýjum aðstæðum."

,,Við erum að vinna saman á hverjum degi til að bæta leik okkar og sýna það út á vellinum.  Það er ekki að takast sem skyldi eins og er en vonandi mun það ekki taka langan tíma fyrir okkur að venjast því að spila með tvo vængmenn."

Benitez og leikmenn hans reyndu að horfa á jákvæðu hlutina eftir leikinn gegn Middlesboro.  Liðið réð lögum og lofum í leiknum og endaði fimm leikja taphrinu á útivelli í Úrvalsdeildinni.

,,Við spiluðum mjög vel í seinni hálfleik en þetta voru ekki úrslitin sem við vorum að bíða eftir," sagði Gonzalez.  ,,Á heildina litið fannst mér við eiga nokkur færi en náðum ekki að skora.  Við verðum að horfa fram á veginn og halda áfram að bæta okkur."

,,Þetta var mun betra heldur en seinni hálfleikur gegn Arsenal.  Kannski var byrjunin á leiknum ekki sem best, en við vitum að við höfum ekki gert nóg fyrr en við skorum mark."

,,Það eru ennþá sex mánuðir eftir af tímabilinu og það er mikilvægt að gefast ekki upp.  Við erum langt frá endamarkinu."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan