| Sf. Gutt

Á sínum stað!

Stuðningsmenn Liverpool verða sömu megin á Árþúsundaleikvanginum í Cardiff eins og í fyrri sex heimsóknum sínum þangað. Hjarðir stuðningsmanna Liverpool munu fylla Norðurenda þessa glæsilega leikvangs. Það er skemmtileg tilviljun að stuðningsmenn Liverpool hafi alltaf verið á sama enda leikvangsins í heimsóknum sínum þangað. Þessu fylgir að leikmenn Liverpool fá úthlutað nyrðra búningsherberginu en flest sigurlið í Cardiff hafa búið sig til leiks í því. Vonandi verður það búningsherbergi líka til góðs í þetta skiptið.

Liverpool og West Ham United fengu hvort um sig 24.436 miða á leikinn. Það þarf ekki að efa að allir miðar á leikinn eru nú uppseldir. Nema þá þeir sem ganga kaupum og sölum á svarta markaðinum. Árþúsundaleikvangurinn tekur um 74.500 áhorfendur.

Reyndar munu eitthvað færri stuðningsmenn Liverpool fá tækifæri til að koma á leikinn þar sem póstsendingu, sem í voru hluti af miðum Liverpool, var stolið. Framkvæmdaaðilar leiksins hafa, því miður, ekki séð sér fært að gefa út nýja miða í stað þeirra sem var stolið. Liverpool hefur úthlutað aukamiðum til einhverra þeirra sem urðu fyrir því að miðum þeirra var stolið.

Þetta er sjöunda heimsókn Liverpool á Árþúsundaleikvanginn í Cardiff. Aðeins Arsenal hefur heimsótt höfuðstað Wales jafn oft. Ef talning mín er rétt þá hefur Arsenal leikið átta sinnum í Cardiff. Heimsóknir Liverpool til Cardiff hafa verið happadrjúgar. Liverpool vann Deildarbikarinn þar 2001, eftir 5:4 sigur í vítaspyrnukeppni gegn Birmingham City, og 2003, 2:0 gegn Manchester United. F.A. bikarinn, 2:1 gegn Arsenal, og Góðgerðarskjöldurinn, 2:1 gegn Manchester United, unnust þar líka árið 2001. Eina tapið í þessum fimm heimsóknum var í leik um Góðgerðarskjöldinn árið 2002, 1:0 fyrir Arsenal. En vonandi verður sjöunda heimsóknin til Cardiff fengsæl!!!!!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan