| Sf. Gutt

Evrópumeistararnir unnu á suðurströndinni í síðasta deildarleiknum

Evrópumeistararnir unnu á suðurströndinni í síðasta deildarleiknum á leiktíðinni þegar þeir lögðu Portsmouth 3:1 að velli á Fratton Park. Þetta var ellefti sigur Liverpool í röð. Fyrir þessa umferð átti Liverpool möguleika á öðru sæti deildarinnar en Manchester United vann sinn leik þannig að Liverpool endaði leiktíðina í þriðja sæti deildarinnar. Liðið fer því í forkeppni Meistaradeildarinnar í sumar.

Leikurinn fór rólega af stað í vorsólinni. Liverpool fékk einu hættulegu færin í fyrri hálfleik. Fyrst skallaði Mohamed Sissoko framhjá af stuttu færi snemma leiks. Svo gafst annað gott færi eftir tíu mínútur. John Arne Riise sendi þá langa sendingu fram á Steven Gerrard sem komst í gegn en Dean Kiely varði með góðu úthlaupi. Liverpool var sterkari aðilinn í hálfleiknum og heimamenn ógnuðu marki Liverpool lítt. Liverpool varð þó fyrir áfalli fjórum mínútum fyrir lok hálfleiksins. Xabi Alonso féll þá við án þess að nokkur kæmi við hann og sneri sig á ökkla. Hann var borinn af leikvelli og Hollendingurinn Jan Kromkamp leysti hann af.

Liverpool hélt áfram að hafa yfirhöndina eftir leikhlé og Robbie Fowler fagnaði nýjum samningi sínum með því að koma liðinu yfir á 52. mínútu. Fernando Morientes sendi þá laglega hælsendingu á Robbie sem stillti miðið og sendi boltann af öryggi neðst í vinstra hornið. Hann fagnaði markinu innilega með stuðningsmönnum Liverpool sem voru fyrir aftan markið sem hann skoraði í. Liverpool var alltaf sterkari aðilinn en Sean Davis komst í góða stöðu til að jafna en hann datt þegar hann var kominn einn gegn Jerzy Dudek. Annars gerðist fátt þar til á lokakafla leiksins sem var mjög fjörugur. Djibril Cissé kom inn fyrir Robbie sjö mínútum fyrir leikslok og Frakkinn lagði upp mark einni mínútu síðar. Harry Kewell sendi góða sendingu inn á Djibril sem sendi fyrir markið. Dean náði aðeins að slá boltanum út í teiginn og það kom Peter Crouch og sendi boltann örugglega í markið af stuttu færi. Það var ekki að undra vissi hvar markið var því hann var þarna að spila á sínum gamla heimavelli. Sigurinn virtist í höfn en heimamenn svöruðu með marki í næstu sókn. Wayne Routledge sendi fyrir frá vinstri. Boltinn fór þvert fyrir markið yfir á fjærstöng og þar kom Ognjen Koroman og sendi boltann í markið. Heimamenn gerðu sér nú vonir um að jafna en þær vonir urðu að engu mínútu fyrir leikslok. Peter Crouch sendi þá langa sendingu fram á Djibril Cissé. Frakkinn fékk boltann óvaldaður, lék inn í teiginn og skoraði með föstu skoti undir Dean Kiely. Þar með gulltryggðu Evróumeistararnir sigur sinn sem var sá ellefti í röð.

Liverpool endar leiktíðina í þriðja sæti deildarinnar. Liðið hefur tekið miklum framförum hvað varðar stigasöfnun í deildinni og nú söfnuðust á þriðja tug fleiri stiga en á síðustu leiktíð. En nú byrjar bið eftir úrslitaleik F.A. bikarsins við West Ham United sem fer fram á Árþúsundaleikvanginum á laugardaginn. Tólfti sigur Liverpool í röð myndi gera þessa leiktíð enn betri en hún þó orðin er.

Portsmouth: Kiely, Priske, Primus (Pamarot 86), Stefanovic, Taylor, O'Neil, Davis, Hughes (Koroman 62. mín.), D´Alessandro (Routledge 68. mín.), Mwaruwari og Todorov. Ónotaðir varamenn: Ashdown og Pericard.

Mark Portsmouth: Ognjen Koroman (85. mín.)

Gult spjald: Matthew Taylor.

Liverpool: Dudek, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard, Alonso (Kromkamp 41. mín.), Sissoko, Kewell, Morientes (Crouch 67. mín.) og Fowler (Cissé 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Reina og Traore.

Mörk Liverpool: Robbie Fowler (52. mín.), Peter Crouch (84. mín.) og Djibril Cissé (89. mín.). 

Áhorfendur á Fratton Park: 20.240.

Rafael Benítez var sáttur við sína menn eftir leikinn. ,,Við vissum að það yrði erfitt að ná öðru sætinu. Við þurftum að skila okkar verki en Manchester United skilaði sínu. Við erum ánægðir með leiktíðina. Liðið og liðshópurinn er sterkari. Það er frábært að ná 82 stigum og við erum miklu nær Chelsea. Við teljum okkur geta gert betur á næstu leiktíð og við höfum öðlast meira sjálfstraust." 

 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan